Skip to main content
ÁlyktunFréttKjaramál

Ályktun um hækkun lífeyris almannatrygginga

By 9. júní 2023júní 20th, 2024No Comments
Skýringarmynd með texta sem á stendur: Laun ráðamanna og örorkulífeyrir hækka um 2,5% þann 1. júlí. En hvað þýðir þessi hækkun í raun og veru? Örorkulífeyrir 7.000 - 10.000 kr.* Laun þingmanna 33.639kr. Laun ráðherra 55.789kr. Laun forsætisráðherra 61.763kr.

ÖBÍ réttindasamtök gera kröfu um að lífeyrir almannatrygginga verði hækkaður um 4,2 prósent þann 1. júlí, í stað fyrirhugaðrar hækkunar um 2,5 prósent sem ríkisstjórnin leggur til í aðgerðapakka sínum, vegna þrálátrar verðbólgu. Fyrirhuguð hækkun ríkisstjórnarinnar dugir ekki til að vega upp á móti verðbólgu og ver því ekki kaupmáttinn. 

Til þess að örorkulífeyrir haldi í við verðbólgu og til þess að uppfylla fyrirheit um kaupmáttaraukningu sem gefin voru um áramót krefjast ÖBÍ réttindasamtök þess að lífeyrir verði hækkaður um 4,2% í stað þeirrar snautlegu 2,5% hækkunar sem boðuð hefur verið. 

Verðbólga er mikil og hefur nú verið um nokkurt skeið. Samhliða því hafa vextir hækkað og vaxandi fjöldi fólks, þá sérstaklega þeir tekjulægstu, berst í bökkum. Rík þörf er á stuðningsaðgerðum. 

Á sama tíma hefur hagvöxtur verið mikill. Hagkerfið hefur vaxið átta ársfjórðunga í röð og tekjur hins opinbera því vaxið meira en búist var við. Að rétta hlut þeirra sem verst standa er því vel mögulegt sé raunverulegur vilji fyrir hendi. 

ÖBÍ réttindasamtök gera þá sanngjörnu kröfu að fatlað fólk sem þarf að reiða sig á lífeyri almannatrygginga fái hlut sinn bættan.