Upphæðin dugir fyrir um 6.000 sálfræðitímum sem er langt frá því að dekka þá þörf sem fyrir er. Það má líka benda Alþingi á þá staðreynd að 100 m.kr. niðurgreiðsla á sálfræðimeðferð er nettó kostnaður fyrir ríkissjóð í kringum 70 m.kr. sem verður að teljast harla lítið. Þess má einnig geta að kostnaður Geðhjálpar vegna ráðgjafar, sem samtökin veita, er um 10 m.kr. á ári. Það setur þessa tölu sem Alþingi er að vinna með í samhengi.
Geðhjálp hvetur Alþingi til að leggja fólki með geðrænan vanda lið með því að tryggja aðgengi einstaklinga að sálfræðiþjónustu og gera öllum einstaklingum kleift að nálgast hana, óháð efnahag og aðstæðum. Með því að samþykkja þetta óbreytt verður sálfræðimeðferð áfram einungis ætluð þeim efnameiri. Það yrðu mikil vonbrigði.