Skip to main content
Frétt

Ályktun frá stjórn ÖBÍ

By 29. október 2015No Comments

Fyrsti fundur nýkjörinnar stjórnar ÖBÍ, haldinn föstudaginn 16. október 2015, krefst þess að greiðslur Tryggingastofnunar til örorkulífeyrisþega verði nú þegar færðar til samræmis við þær kjarabætur sem urðu 1. maí s.l. á almennum vinnumarkaði.

 Mikill kostnaður getur fylgt fötlun og sjúkdómum fólks og er afar brýnt að sá kostnaður sé ávallt viðráðanlegur, en hann hefur aukist ár frá ári. Nauðsynlegt er að leiðrétta þessa beinu kjaraskerðingu margra fatlaðra og langveikra einstaklinga. Í þessu samhengi krefst stjórn ÖBÍ þess að felldur verði niður virðisaukaskattur af lyfjum og hjálpartækjum, að skattleysismörk verði hækkuð þannig að öllum sé tryggð mannsæmandi framfærsla. Þá er farið fram á að sérstök framfærsluppbót verði felld inn í tekjutryggingu og meðhöndluð sem slík. 

Við mótmælum um leið þeirri tekjuskerðingu sem örorkulífeyrisþegar verða fyrir þegar þeir ná ellilífeyrisaldri, en þá fellur t.d. niður hin svokalla aldurstengda lífeyrisuppbót. Er hér um beina mismunun vegna aldurs að ræða.

Af hálfu stjórnar ÖBÍ 

Ellen Calmon formaður