Mikilvægi mannréttindasamninga erum við öll sammála um enda vita flestir að slíkir samningar eru nauðsynlegir t.d. minnihlutahópum í baráttu fyrir mannréttindum. Samingur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) var settur þegar alþjóðasamfélagið þ.m.t. Ísland viðurkenndi að fatlað fólk naut ekki réttar til jafns við aðra og fyrirliggjandi alþjóðasamningar reyndust ekki nægilegir til að vernda rétt fatlaðs fólks. Samningurinn hefur því það yfirlýsta markmið að tryggja fötluðu fólki full mannréttindi og grundvallarfrelsi þess til jafns við aðra en ljóst er að fatlað fólk nýtur ekki jafnra réttinda hér á landi til jafns við aðra þegna.
Nú liggur fyrir Alþingi tillaga til þingsályktunar um að samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks verði tekinn í íslensk lög. Alþingismenn hafa því tækifæri til að sýna í verki vilja sinn til að tryggja að fatlað fólk á Íslandi njóti sömu mannréttinda og annað fólk í landinu gerir og finnst sjálfsögð. Það geta þeir gert með því að samþykkja þessa þingsályktunartillögu.
Samningurinn nær til allra sviða samfélagsins og er markmið hans að tryggja fötluðu fólki stjórnmálaleg, borgaraleg, efnahagsleg, félagsleg og menningarleg mannréttindi til jafns við annað fólk. Samningurinn var gerður þar sem ríki heims, þ.m.t. Ísland, vita og viðurkenna að þar er verk að vinna. Það er á valdi Alþingis og á ábyrgð þess að bregðast við því með þeim eina hætti sem dugir, þ.e.a.s. með því að veita mannréttindum fatlaðs fólks meiri og skýrari vernd í lögum. Nýlegir dómar Hæstaréttar sýna að ekki er nóg að styðjast við fullgildingu samningsins heldur er brýn þörf á lögfestingu hans.
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var tekinn í íslensk lög árið 2013. Það var gert til að tryggja enn betur en gert var með fullgildingu samningsins þau réttindi sem samningurinn mælir fyrir um. Sömu rök eiga við um samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Með því að lögfesta samninginn verður mannréttindum fatlaðs fólks veitt aukin vernd og réttar-öryggið eykst. Fatlaður einstaklingur getur þá borið ákvæði samningsins fyrir sig sem ótvíræða réttarreglu fyrir dómi eða stjórnvöldum. Lögfesting mun vekja jafnt almenning og þá sem fjalla um málefni fatlaðs fólks fyrir dómstólum, í stjórnsýslu og við undirbúning að lagasetningu, til frekari vitundar um mannréttindi fatlaðs fólks og þá virðingu sem verður að ætlast til að þeim sé sýnd í réttarríki. Lögfesting samningsins SÞ um réttindi fatlaðs fólks mun og auka, á alþjóðavettvangi, traust á virðingu íslenska ríkisins fyrir mannréttindum fatlaðs fólks. Með lögfestingu á samningnum yrði Ísland líklega eitt fyrsta landið í heimi til að gera samninginn að formlegum hluta af landsrétti sínum og lögum.
Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands skora á alla alþingismenn að lögfesta samninginn á þessu þingi.
Bryndís Snæbjörndsdóttir er formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir er formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. maí 2019