Félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson hélt erindi, þar sem fram kom sú afstaða ráðherra, að mikilvægt sé að bjóða upp á hlutastörf og sveigjanleg störf.
Í skoðanakönnun sem ÖBÍ lét Gallup gera fyrir sig nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, kemur einmitt fram skýr afstaða landsmanna til þess að hið opinbera gangi á undan með góðu fordæmi í að skapa störf fyrir fólk með skerta starfsgetu. Nærri níu af hverjum tíu er því alfarið hlynnt, mjög eða frekar hlynnt.
Á fundinum hélt einnig erindi Halldór Friðrik Þorsteinsson frá atvinnuvefnum Alfreð og kynnti verkefnið Allir með. Nú geta fyrirtæki merkt tiltekin störf með kjörorðinu, Allir með, sem auðveldar þeim sem eru að leita að hlutastarfi, leitina.
Halldór sagði að hlutastörfin gætu einmitt verið lausn fyrir þá sem fallið hafi út af vinnumarkaði og fjölgun hlutastarfa væri lykillinn að því að hægt sé að eyða merkimiðum eins og skertri starfsgetu. Það myndi þýða að allir geti fundið starf við hæfi, hvort sem viðkomandi er með skerta starfsgetu eður ei.
Hann sagði það mikla áskorun að breyta vinnumarkaðnum á þennan hátt. Skilningur og sveigjanleiki þurfi að vera til staðar og eru þeir eiginleikar jafnframt afbragðs mælikvarðar á vinnustaðinn og þá menningu sem þar ríkir. Þess vegna sé mikilvægt að halda áfram, og leyfa öllum að vera með.
Upptöku frá fundinum má nálgast á vef SA hér.