„Ef skynsemi, réttlæti og vilji til að breyta til batnaðar, ráða gjörðum stjórnvalda, hlýtur „króna á móti krónu“ skerðingin að verða afnumin strax, þannig staðfestu stjórnvöld vilja til velferðar í verki. Vilji er allt sem þarf,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands í ítarlegri umsögn bandalagsins um frumvarp þar sem lagt er til að sérstök uppbót til framfærslu verði afnumin.
Þuríður Harpa bendir jafnframt á að afnám „krónu á móti krónu“ skerðingarinnar sé ein af þeim úrbótum sem megi „framkvæma strax ef vilji er fyrir hendi, án þess að taka upp starfsgetumat eða ljúka heildarendurskoðun á almannatryggingalögunum“. Hún leggur afdráttarlaust til að frumvarpið verði að lögum.
Margir í alvarlegri stöðu
Í umsögninni er bent á að „Króna á móti krónu“ skerðing hittir það fólk verst sem hefur lægstu framfærsluna í íslensku samfélagi og ef stjórnvöld vilja vinna gegn fátækt ætti afnám hennar að vera eitt af þeirra fyrstu verkum. Til ÖBÍ leitar fólk daglega, sem er í mjög alvarlegri stöðu vegna þessara 100% skerðinga og má með sanni segja að hér sé um kerfisbundið ofbeldi að ræða. Jafnframt er þar bent á að í þessu sambandi sé ekki rétt að tala um „kostnað“ af hálfu ríkissjóðs og að afnám þessara skerðinga yrði mikilvægur hvati til að fólk með skerta starfsgetu sæki af krafti á vinnumarkað.
Víðtækur stuðningur
Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar Alþingis og þingmaður Pírata er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. Hún hefur tíundað kosti þess að þetta réttindamál verði að lögum, áháð hugmyndum um starfsgetumat. Þingmenn úr mörgum flokkum hafa tekið í svipaðan streng. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, hefur bent á að stuðningur við afnám „krónu á móti krónu“ sé víða í þinginu. Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur jafnframt nefnt sérstaklega að þessar skerðingar verði að afnema fyrir vorið.
Við þetta má bæta að Mannréttindaskrifstofa Íslands styður að frumvarpið verði að lögum og bendir á að skerðingarnar í núverandi mynd vinni gegn mannréttindum. Sama gera Landssamtökin Þroskahjálp sem jafnframt benda á að starfsgetumat og heildarendurskoðun almannatrygginga hangi ekki saman við samþykkt þessa frumvarps. Þá bendir Henný Hinz hagfræðingur Alþýðusambands Íslands á það í umsögn sinni að það verði að „koma í veg fyrir „krónu á móti krónu“ skerðingar sem eru með öllu óásættanlegar“.
Refsað fyrir að bjarga sér
ÖBÍ styður og leggur ríka áherslu á að frumvarp um afnám „krónu á móti krónu“ skerðinga verði að lögum. Afnám „krónu á móti krónu“ skerðingar er ein af þeim leiðréttingum (lagabreytingum) sem örorkulífeyrisþegar hafa kallað eftir í áraraðir.
Fyrir utan að flækja kerfið allverulega heldur „króna á móti krónu“ skerðingin örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum í fátækt. Fólki sem stendur verst fjárhagslega er gert ómögulegt að auka ráðstöfunartekjur sínar þrátt fyrir að hafa einhverjar tekjur annars staðar frá, svo sem atvinnu-, lífeyrissjóðs-, eða fjármagnstekjur. Fólki er refsað fyrir þá viðleitni að reyna að bjarga sér.
Fundað með þingmönnum og ráðherra
ÖBÍ hefur á árinu fundað með öllum þingflokkum um brýn hagsmunamál og þar á meðal um afnám „krónu á móti krónu“ skerðinga og lagt ofuráherslu á að hana þurfi að afnema strax. Almennt hafa þingmenn tekið vel í þessa kröfu okkar og sjá í hendi sér að ekki er hægt að afnema þessa skerðingu gagnvart eldri borgurum og láta örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sitja eftir. Gæta þarf jafnræðis á milli hópa í sömu eða svipaðri stöðu í lagasetningu. Einnig hafa forsvarsmenn ÖBÍ átt fundi með félags- og jafnréttismálaráðherra og borið sama mál upp við hann, en hann hefur lýst því yfir að ekki er hægt að afnema „króna á móti krónu“ skerðingu fyrr en breytingar verði gerðar á almannatryggingakerfinu og nýtt starfsgetumat líti dagsins ljós. Þessu er ÖBÍ ósammála. Það hvernig fólk er metið til örorku og hvernig greiðslu lífeyris vegna örorku er háttað er sitt hvor hluturinn.
Ótengt starfsgetumati
ÖBÍ leggur þunga áherslu á að afnám „króna á móti krónu“ skerðingar er algjörlega óháð innleiðingu starfsgetumats. Mjög mikilvægt er að greina hérna á milli enda er afnám „króna á móti krónu“ skerðinga og fyrirhugaðar breytingar með tilliti til starfsgetumats óskyldar og alls óháðar.
Innleiðing starfsgetumats á langt í land og fjölmörg skilyrði þarf að uppfylla, sem meðal annars felast í úrbótum á lagaumhverfinu, áður en farið verður af stað með innleiðingarferli starfsgetumats. Því til viðbótar er vinnumarkaðurinn, bæði opinberi og almenni geirinn, ekki reiðubúinn að veita fólki með skerta starfsgetu hlutastörf og/eða bjóða upp á sveigjanleika í starfi og því er talsvert verk óunnið hvað varðar aðgengi fólks með skerta starfsgetu að vinnumarkaði.
Skerðingar sem má afnema strax
Í umræðu um afnám „krónu á móti krónu“ skerðingar hefur því einnig verið haldið fram að ekki sé hægt að afnema þessar 100% skerðingar nema að undangenginni endurskoðun laga um almannatryggingar. Þessum rökum hafnar ÖBÍ alfarið. Frá því framfærsluuppbótin var innleidd í september 2008 hafa nokkrar nefndir um endurskoðun laga um almannatryggingar verið að störfum, án þess að útbætur hafa verið gerðar eða dregið hafi verið úr tekjuskerðingum. Tillögum að úrbótum hefur árum saman verið svarað á þann hátt að nefnd um endurskoðun laga um almannatryggingar sé að störfum. Örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar geta ekki beðið lengur. Þessa breytingu er hægt að framkvæma strax ef vilji er fyrir hendi og án þess að taka upp starfsgetumat eða bíða eftir að enn ein nefndin um endurskoðun almannatryggingakerfisins ljúki störfum.
Góður hvati til atvinnuþátttöku
„Króna á móti krónu“ skerðing er ekki einungis letjandi þegar kemur að atvinnu- þátttöku. Lífeyrisþegum, og þá sérstaklega örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum er refsað fyrir að eiga einhvern sparnað eða leigja út húsnæði. Fjármagnstekjur skerða sérstöku framfærsluuppbótina, eins og aðrar skattskyldar tekjur. Dánarbætur skerða einnig sérstöku framfærsluuppbótina.
Örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar sem eru einstæðir foreldrar með 2 börn eða fleiri á framfæri sínu geta ekki nýtt sér mæðra- og feðralaun til að mæta útgjöldum fyrir börn sín, þar sem stuðningur þessi skerðir framfærsluuppbótina um sömu fjárhæð.
Því er ekki rétt að tala um „kostnað“ ríkissjóðs af því að afnema „krónu á móti krónu“ skerðingar.
Samantekt og helstu atriði
Mikilvægir og jákvæðir þættir sem munu vinnast með samþykkt frumvarpsins eru meðal annars:
- Fátæktargildra tekin út. Stór hópur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega er fastur í þeirri stöðu að tekjur sem þeir afla sér hækka ekki ráðstöfunartekjur þeirra vegna „krónu á móti krónu“ skerðingar. Þetta bitnar verst á þeim sem hafa lægstu tekjurnar annars staðar frá. Þessir einstaklingar myndu loksins njóta þeirra tekna sem þeir afla sér.
- Útfærsla framfærsluuppbótarinnar hefur flækt kerfið verulega, þar sem hún er á skjön við aðra bótaflokka. Kerfið yrði einfaldað talsvert með því að fella framfærsluuppbótina inn í tekjutrygginguna.
- Aldurstengd örorkuuppbót myndi hætta að skerða framfærsluuppbótina og næði þar með tilgangi sínum sem er að koma til móts við einstaklinga sem ná ekki að safna réttindum í lífeyrissjóð.
- Ýmsar greiðslur sem eiga að bæta stöðu fólks í ákveðnum aðstæðum, s.s. dánarbætur, mæðra- og feðralaun og styrkir, lækka og/eða taka út framfærsluuppbótina.
- Hvetur örorkulífeyrisþega til þátttöku á vinnumarkaði.