Skip to main content
Frétt

Aðalfundur skorar á stjórnvöld að standa við lögbundnar skyldur sínar

Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD samtakanna, var kjörinn varaformaður ÖBÍ réttindasamtaka á aðalfundi samtakanna í Reykjavík í dag. Hlaut Vilhjálmur 86,55% greiddra atkvæða. Hann tekur við af Bergþóri Heimi Þórðarsyni og vilja ÖBÍ réttindasamtök þakka honum fyrir vel unnin störf.
Einnig voru kjörin í stjórn ÖBÍ þau Sigþór Unnsteinn Hallfreðsson, Eiður Welding, Guðrún Barbara Tryggvadóttir, Svavar Kjarrval, Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir, Dóra Ingvadóttir og Ingibjörg Snjólaug Snorra Hagalín. Þá var Geirdís Hanna Kristjánsdóttir kjörin formaður kjarahóps og Telma Sigtryggsdóttir formaður heilbrigðishóps.
Aðalfundur ÖBÍ skoraði á stjórnvöld að standa við lögbundnar skyldur sínar gagnvart fötluðu fólki í ályktun fundarins og að tryggja fötluðu fólki mannsæmandi líf og jöfn tækifæri. Ályktunina, ásamt greinargerð, má lesa í heild hér að neðan.

Ályktun aðalfundar ÖBÍ réttindasamtaka 2024

ÖBÍ réttindasamtök skora á stjórnvöld að standa við lögbundnar skyldur sínar og tryggja fötluðu fólki mannsæmandi líf og jöfn tækifæri. Fatlað fólk á Íslandi býr við hvað lökust kjör á landinu, óviðunandi aðgengi að menntun, atvinnu, íþrótta- og tómstundastarfi, húsnæði og heilbrigðisþjónustu. Það er því brýnt að ríki og sveitarfélög fari að lögum og alþjóðlegum skuldbindingum.
Mörg mikilvæg skref hafa verið stigin í átt að bættri stöðu fatlaðs fólks undanfarin ár, en betur má ef duga skal og krefjast ÖBÍ réttindasamtök úrbóta án tafar. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er skýr og honum ber að fylgja.
Greinargerð með ályktun
ÖBÍ réttindasamtök fara fram á að stjórnvöld standist lögbundnar skyldur sínar og ráðist í raunverulegar aðgerðir til að bæta stöðu fatlaðs fólks án tafar.
Fatlað fólk úr fátækt
ÖBÍ krefst þess að lífeyrir verði hækkaður umfram það sem gert er ráð fyrir í nýju fjárlagafrumvarpi, létt verði á tekjuskerðingum og að skattleysismörk verði hækkuð. Leiðrétta þarf kjör fatlaðs fólks á Íslandi án tafar og hætta þarf sparnaðaraðgerðum á kostnað þess.
Frestun á gildistöku nýs örorkulífeyris
ÖBÍ skorar á ríkisstjórn Íslands að verja þeim 9,3 milljörðum króna, sem sagðir eru sparnaður vegna frestunar gildistöku nýs lífeyriskerfis, í að bæta kjör lífeyristaka eins og ítrekað hefur verið lofað.
Engin börn á biðlistum
ÖBÍ fer fram á að biðlistum barna eftir greiningum verði eytt og úrræði fyrir börn með fjölþættan vanda verði bætt. Einnig er brýnt að vinna gegn fordómum sem fötluð börn mæta, og að aðgengi fatlaður barna að íþróttum, félags- og tómstundum verðir tryggður til jafns við önnur börn.
Vinnumarkaður fyrir fatlað fólk
ÖBÍ leggur áherslu á á að hlutastörfum fyrir fatlað fólk verði fjölgað og að viðeigandi aðlögun á vinnustað verði tryggð. ÖBÍ skorar á stjórnvöld að stofna vinnuaðlögunarsjóð sem fyrirtæki geta sótt í styrki til þess að gera vinnustaðinn aðgengilegan.
Bregðumst við húsnæðisvanda fatlaðs fólks
ÖBÍ skorar á sveitarfélög landsins að sinna lögbundnum skyldum sínum í húsnæðismálum fatlaðs fólks og fjármagna fyrirhugaðar aðgerðir í málaflokknum. Mikill meirihluti fatlaðs fólks á Íslandi býr við íþyngjandi húsnæðiskostnað og hefur takmarkað aðgengi að heilnæmu og fullnægjandi húsnæði.
Tryggjum aðgengi að hjálpartækjum
ÖBÍ leggur áherslu á aðgengi allra að viðeigandi hjálpartækjum og hvetur stjórnvöld til að endurskoða núgildandi hjálpartækjastefnu. Aðgengi að hjálpartækjum er forsenda þess að fatlað fólk geti tekið þátt á öllum sviðum samfélagsins.
Heilbrigðisþjónusta fyrir okkur öll
ÖBÍ brýnir stjórnvöld til að tryggja aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og fötlun. Fatlað fólk upplifir bæði íþyngjandi kostnað og langa bið eftir þjónustu í heilbrigðiskerfinu.
Stafrænar lausnir taki mið af þörfum
ÖBÍ áréttar mikilvægi þess að stafræn þróun taki mið af þörfum fatlaðs fólks og að  nýjar lausnir séu aðgengilegar öllum.