Skip to main content
Frétt

Að axla ábyrgð eða ekki.

By 15. janúar 2021No Comments

Hollenska ríkisstjórnin hefur sagt af sér sem heild eftir að ljóst varð að þúsundir fjölskyldna voru ranglega sökuð um að svíkja út barnabætur úr velferðarkerfinu. Þúsundir fjölskyldna voru krafðar um endurgreiðslur með miklum fjárhagserfiðleikum í kjölfarið. Síðan umboðsmaður Alþingis ályktaði að aðferð TR við útreikning búsetuskerðinga væri röng, hefur stofnunin engu að síður haldið áfram að skerða framfærslu hundruða viðskiptavina sinna ólöglega.

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, sagði við fjölmiðla eftir að hann afhenti konungi afsagnarbeiðni ríkisstjórnar hans, að „saklaust fólk hefur verið ásakað um glæp og líf þeirra lagt í rúst“. Hann bætti við að ábyrgð á því sem gerðist væri á herðum ríkisstjórnarinnar.

Í Hollandi virðast það hafa verið fordómar vegna uppruna viðkomandi fjölskyldna sem réðu því að þær lentu í sérstöku eftirliti. Skattyfirvöld þar viðurkenndu á síðasta ári, að ellefuþúsund einstaklingar hefðu verið skoðaðir sérstaklega, eingöngu vegna uppruna síns. Foreldrar voru sakaðir um svik, vegna smávægilegra mistaka eins og að undirskrift hafi vantað á skjöl, og í kjölfarið neydd til að endurgreiðs tugþúsunda evra, sem þau höfðu fengið sem barnabætur, án þess að eiga möguleika að kæra þá ákvörðun. Einn þeirra ráðherra sem sagði af sér, sagði að í raun hefði kerfið valtað yfir þetta fólk og það skilið eftir nánast gjaldþrota eftir viðureign við kerfi sem hafi verið orðið „óvinir fólksins“.

Á sama tíma hér á Íslandi, er kerfið enn að vinna að leiðréttingum í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis nr 8955/2016, þar sem deilt var um hvort Tryggingastofnun hefði haft lagastoð til að skipta tryggingatímabilum milli tveggja landa, og í kjölfarið lækka hlutfallslega rétt viðkomandi hér. Umboðsmaður segir að ekki hafi verið viðhlýtandi lagaheimild til að skipta framreiknuðum búsetutíma viðkomandi, hlutfallslega eftir lengd tryggingatímabila, milli Íslands og Danmerkur. 

Þrátt fyrir skýra niðurstöðu umboðsmanns, og þess að TR hefur nú í á þriðja ár unnið að leiðréttingum til handa þeim mörg hundruð einstaklinga sem til fjölda ára hafa dregið fram lífið á mjög skertum örorkulífeyri, allt niður í 7% eða 93% skerðingu, heldur stofnunin áfram að beita hinni ólöglegu aðferð. Eini munurinn er að nú, eftir að hafa ákvarðað lífeyri ólöglega, fer sú ákvörðun í „leiðréttingabunkann“. Það er rétt að taka fram hér að við erum að tala um framfærslu mörg hundruð einstaklinga. 

Þó segir í bréfi frá Tryggingastofnun, dags. 25. mars 2019, í tilefni af fyrirspurn um málið,  að álit umboðsmanns og afstaða ráðuneytisins hafi kallað á umfangsmikla endurskoðun á búsetuhlutfalli og útreikningi réttinda hjá örorkulífeyrisþegum með takmarkaðan rétt vegna búsetu í öðru EES-ríki. Í framhaldi af endurskoðuninni hafi Tryggingastofnun uppfært verklagsreglu er varði útreikning á búsetuhlutfalli örorkulífeyrisþega. Í nýrri verklagsreglu sé tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem birtust í álitinu. Framreiknuðum búsetutíma verði ekki skipt ef umsækjandi uppfylli skilyrði samkvæmt löggjöf hér á landi fyrir örorkumati og réttur til örorkulífeyris sé ekki til staðar í öðrum búseturíkjum innan EES-svæðisins.

Uppfærslan á verklagsreglunni virðist því felast í því að halda áfram að nota hina ólöglegu reglu, og endurskoða svo seinna.

Í Hollandi segir öll ríkisstjórnin af sér, vegna þess að „kerfið“ valtar yfir einstaklingana. Á Íslandi höldum við bara áfram eins og ekkert hafi í skorist. Höldum áfram ólöglegum búsetuskerðingum sem hafa viðgengist frá árinu 2009, eða í á tólfta ár.