Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2023-2027, 241. mál.
ÖBÍ – réttindasamtök (ÖBÍ) styðja ofangreinda framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar til ársins 2027. ÖBÍ fagnar því að lögð verði áhersla á mannréttindi og samfélagsþátttöku barna óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. Margt jákvætt er að finna í framkvæmdaáætluninni og hvetur ÖBÍ stjórnvöld til að halda áfram á þessari braut.
ÖBÍ lagði áður til að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) verði hafður til hliðsjónar við gerð framkvæmdaáætlunar á sviði barnavermdar og að sérstaklega verði litið til stöðu og þarfa fatlaðra barna. Samkvæmt tillögunni sem nú er til umsagnar skal við innleiðingu og framkvæmd aðgerða taka mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, auk annarra alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að. ÖBÍ fagnar því að tillagan hafi verið tekin til greinar.
Málefni allra barna, jafnt fatlaðra og ófatlaðra eru mikilvæg og því fagnar ÖBÍ allri markvissri vinnu sem stuðlar að velferð og velsæld barna. ÖBÍ mun fylgjast með framvindu þessarar mikilvægu vinnu og eru boðin og búin til þess að veita leiðsögn eða leggja fram aðstoð til þess að vinnan nái tilætluðum markmiðum. Þá minna ÖBÍ góðfúslega á samráðsskyldu stjórnvalda, sbr. 3. mgr. 4. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Ekkert um okkur án okkar!
Virðingarfyllst,
Alma Ýr Ingólfsdóttirformaður ÖBÍ – réttindasamtaka
Andrea Valgeirsdóttirlögfræðingur ÖBÍ- réttindasamtak
Framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2023–2027
241. mál, þingsályktunartillaga.
Umsögn ÖBÍ, 20. október 2023