Skip to main content
Málefni barnaMenntamálUmsögn

Endurskoðun greinasviða aðalnámskrá grunnskóla

By 16. apríl 2024maí 29th, 2024No Comments

Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka um endurskoðun greinasviða aðalnámskrá grunnskóla, mál nr. 89/2024.

ÖBÍ – réttindasamtök (ÖBÍ) fagnar að bregðast eigi við mismunandi þörfum nemenda, gæta að jöfnum tækifærum þeirra og að taka skuli mið af einstaklingsbundnum þörfum nemenda. ÖBÍ vísar í þessu samhengi í landsáætlun um málefni fatlaðs fólks fyrir árin 2024-2027, en Alþingi samþykkti þingsályktun þess efnis 20. mars síðasliðnum. Landsáætlunin er liður í innleiðingu og lögfestingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) og er leiðarljósið að fatlað fólk geti notið mannréttinda og mannfrelsis til fulls og til jafns við aðra. Landsáætlunin felur í sér 60 aðgerðir til að koma í framkvæmd ákvæðum SRFF og þar eru fötluð börn ekki undanskilin. Í aðgerð A.4. Endurskoðun aðalnámskráa leik-, grunn- og framhaldsskóla segir:

Í 8. gr. SRFF er tiltekið að í þágu vitundarvakningar og til að vinna gegn staðalímyndum og efla vitund um getu og framlag fatlaðs fólks skuli ýta undir að virðing fyrir réttindum fatlaðs fólks ríki á öllum sviðum menntakerfisins, þ.m.t. öllum börnum frá unga aldri. Til þess að ná því markmiði er lagt til að aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla verði endurskoðaðar með áherslu á félagslegan skilning á fötlun og fötlun sem eðlilegan hluta mannlegs margbreytileika. Það er til samræmis við að skólagangan eigi að vera samfelld heild. Með grunnþáttunum er bæði hugað að þroska hvers nemenda sem einstaklings og samfélagslegum markmiðum.

Í hæfnisviðmunarkafla íþrótta er hvergi útskýrt hvernig eða með hvaða hætti nálgast skuli þarfir fatlaðra barna til að tryggja jöfn tækifæri þeirra til íþróttaiðkunar. Þvert á móti þá eru hæfniviðmiðin sett upp sem kallað er „stöðluð próf“. Þátttaka í íþróttum virðist þannig taka eingöngu mið að þörfum ófatlaðra barna. ÖBÍ hvetur til þess að þetta verði endurskoðað svo öll börn, óháð fötlun, fái notið til jafns við önnur.

ÖBÍ leggur til að tekið verði mið að þörfum allra barna, fatlaðra sem og ófatlaðra í öllum skólagreinum.

ÖBÍ fagnar því einnig að samkvæmt tillögunni eiga námsgögn í leik-, grunn- og framhaldsskólum að vera gjaldfrjáls vegna náms barna fram að 18 ára aldri.

Málefni allra barna, jafnt fatlaðra og ófatlaðra eru mikilvæg og því fagnar ÖBÍ allri markvissri vinnu sem stuðlar að velferð og velsæld barna.

Ekkert um okkur án okkar!

Virðingarfyllst,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ – réttindasamtaka

Andrea Valgeirsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka


Endurskoðun greinasviða aðalnámskrá grunnskóla
Mál nr. S-89/2024. Mennta- og barnamálaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 16. apríl 2024