150 Reykjavík
Reykjavík, 7. apríl 2021
ÖBÍ er sammála því að skoða þurfi alvarlega stöðu drengja í skólakerfinu út frá mörgum hliðum og finna orsakir þess að drengjum líður sífellt verr í skólakerfinu. Full ástæða er þó til þess að rýna einnig í stöðu stúlkna og leggur ÖBÍ það til að það verði gert samhliða þessari vinnu. ÖBÍ styður þingsályktunartillöguna og vonast til þess að hún verði samþykkt og afraksturinn verði fjármögnuð aðgerðaráætlun sem fela í sér lausnir sem tryggja vellíðan og menntun allra barna.
Þingsályktunartillagan styður við heimsmarkmið 4, menntun fyrir alla.
ÖBÍ er heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi og samanstendur af 42 aðildarfélögum sem öll eru hagsmunasamtök ólíkra fötlunarhópa og er samanlagður félagafjöldi þeirra 30.000 manns.
ÖBÍ gerir alvarlegar athugasemdir við það að fá hvorki umsagnarbeiðni um þingsályktunartillöguna né vera talin upp ásamt þeim aðilum sem samráð á að hafa við varðandi vinnu við aðgerðaráætlunina.
Rétt er að minna á að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.
Ekkert um okkar, án okkar!
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Þórdís Viborg, verkefnastjóri hjá ÖBÍ