Skip to main content
AtvinnumálNPAUmsögn

Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum (vinnutími starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð). 590. mál.

By 25. apríl 2022september 1st, 2022No Comments

Velferðarnefnd Alþingis
Austurstræti 8-12
150 Reykjavík

Reykjavík, 25. apríl 2022

Umsögn ÖBÍ við frumvarp til laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum (vinnutími starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð), 590. mál.

Öryrkjabandalag Íslands fagnar því að loks skuli hvíldarvaktir aðstoðarfólks í NPA vera varanlega lögfestar. Tekið undir umsögn NPA miðstöðvarinnar, dags. 25. apríl 2022, um frumvarpið og sérstaklega hvað varðar tilvísanir í rannsóknir og kannanir sem varða málið og mikilvægt er að kynna sér í tengslum við fyrirhugaða lagasetningu. Helstu athugasemdir ÖBÍ snúa að 2. tölulið 1. greinar frumvarpsins sem væri að mati okkar betra að orða með almennari hætti og ekki skilgreina tímabil of þröngt, heldur gefa aðilum vinnumarkaðarins svigrúm til að finna hvað hentar hverju sinni.

Nánar um 2. tl. 1. greinar:

Hvað varðar afmörkum tímabils hvíldar, gengur greinin lengra en það fyrirkomulag sem þegar er í gildi skv. sérkjarasamningi Eflingar og NPA miðstöðvarinnar. Sérkjarasamningurinn er ítarlegur og sérsniðinn að þessari tegund starfa. Í honum er t.d. sólarhringsvakt skilyrt við að aðstoðarfólk fái að lágmarki átta klukkustunda hvíld á tímabilinu 22:00 til 10:00 með að hámarki tveimur rofum sem hvort um sig er að hámarki 15 mínútur. Þessi tímaafmörkun er tiltölulega nýleg þrenging sem tók gildi um síðastliðin áramót, en áður var ekkert tímabil skilgreint. Frumvarpið sem hér er til skoðunar leggur hins vegar til grundvallar skilgreiningu á næturvinnutíma sem er þrengri:

Næturvinnutími: Tímabil sem ekki er skemmra en sjö klukkustundir og skal ná yfir tímabilið frá miðnætti til klukkan fimm að morgni.

Um nánari afmörkun tímabilsins fer samkvæmt samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins.
Ef stuðst er við ofangreinda skilgreiningu þýðir það að hvíld verður að fara fram á tímabilinu 22:00 til 7:00. Þetta myndi m.a. þýða að allir notendur þjónustunnar þyrftu að vera komnir upp í rúm fyrir miðnætti en núverandi fyrirkomulag gefur þeim aðeins meiri sveigjanleika þar sem þeir geta farið að sofa á bilinu 10:00-02:00 innan gildandi hvíldarvaktafyrirkomulags. Hér er gott að árétta að ein af mikilvægustu og fallegustu hliðum NPA fyrirkomulagsins er einmitt að fatlað fólk hafi meira um að segja hvernig það hagar sínu daglega lífi, svo sem hvenær það fer að sofa og er því með frumvarpinu verið að þrengja það frelsi talsvert umfram þær takmarkanir sem þegar hafa verið settar með kjarasamningum.

Að mati ÖBÍ er óþarft og óskynsamlegt að lögfesta frekari takmarkanir en þær sem í gildi eru samkvæmt sérkjarasamningnum. Slíkar þrengingar ganga jafnvel lengra en kröfur aðstoðarfólks og stéttarfélaga þeirra og geta auk þess valdið raski og álagi fyrir fatlaða einstaklinga með NPA. Rannsóknir og kannanir sem vísað er til í umsögn NPA miðstöðvarinnar við frumvarp þetta sýna að mikil ánægja er með það fyrirkomulag sem hefur verið í þróun með kjarasamningsviðræðum aðila. Í þeim viðræðum hefur nú þegar verið tekist á við þær áskoranir sem hafa komið upp. Þess vegna leggur ÖBÍ til að fallið verði frá tillögu um að lögfesta sérstaklega atriði er varða tímabil og fjölda rofa þar sem kjarasamningar um þessi atriði hafa verið í þróun og gerðir í mikilli sátt undanfarin ár.
Auk þess er fjallað um það í kjarasamningnum að aðstoðarfólk sem er á slíkum hvíldarvöktum fái að minnsta kosti sólarhrings vaktafrí á milli sólarhringsvakta og þannig er tryggt að viðkomandi starfsfólk geti ávallt hvílst á milli slíkra vakta. Það er líka vert að taka fram að nú þegar stytting vinnuvikunnar gengur í gildi á þessum störfum, þá er hámarksfjöldi vakta á fjögurra vikna tímabili alls sex sólahringsvaktir á hvern starfsmann í fullu starfi, sem þýðir að á 28 daga vinnutímabili eru 22 frídagar. Þessi staðreynd er líklega meðal ástæðna þess að svo mikil ánægja mælist í rannsóknum meðal aðstoðarfólks í NPA.

Eins og fyrr segir er í sérkjarasamningnum tryggt að um a.m.k. 8 klukkustunda hvíldartímabil sé að ræða, sem einungis megi rjúfa með að hámarki tveimur stuttum rofum. Þeirri undanþágu sem hér er lagt til að lögfesta er því ekki hægt að líkja við fyrirkomulag þar sem ekki væri um neina hvíld að ræða, eða litla sem enga, sem sannarlega myndi geta valdið „heilsutjóni til lengri eða skemmri tíma” fyrir starfsfólk, eins og segir er um í greinargerð. Eins og fyrirkomulagið er í dag er því gert ráð fyrir umtalsverðri hvíld á vöktum og miklum frítíma á milli vakta.

Á grundvelli alls ofangreinds er lagt til að undanþáguheimildin verði orðuð með almennari hætti sem svipar til þess orðalags sem var í 9. bráðbirgðaákvæði laga nr. 46/1980. Til dæmis með því að kveða á um að undanþágan sé bundin við samkomulag aðila vinnumarkaðarins um skilyrði á hvíldaraðstöðu, lengd hvíldartíma og fjölda og lengd rofa sem heimil eru á slíkum hvíldartíma. Þess ber að geta að í frumvarpinu er mælt fyrir um reglugerðarheimild þar sem setja má ítarlegri reglur en lögin kveða á um og kjarasamningar taka ekki nægilega vel á.

Um 4. ml. 3. tl. 2. gr.

Við yfirlestur hljóma tilvísanir í eftirlit Vinnueftirlits ríkisins frekar kaldranalegar og stofnanalegar í ljósi þess að vinnustaðirnir sem um ræðir eru heimili fatlaðs fólks. Þetta kallar auk þess á skoðun á því hvort slíkar eftirlitsheimildir ættu t.d. að fara fram í samráði/samstarfi við réttindagæslu fatlaðs fólks, með tilliti til persónuverndar og friðhelgi einkalífs og fjölskyldu.

Um 2. gr.

Þegar samráð er haft við fatlað fólk skal haft í huga að það sé ekki í miklum minnihluta í slíku starfi og þegar sú endurskoðun sem greinin boðar fer fram er mikilvægt að ásamt hagsmunasamtökum fatlaðs fólks komi umsýsluaðilar með NPA þjónustu einnig að slíku samráði, enda liggur mikil þekking á framkvæmd þjónustunnar á því sviði. Þá er vert að skoða hvort í þessari endurskoðun ætti að fara fram mat á því hvort þörf sé á umfangsmeiri frávikum frá skilyrðum laganna við þjónustu á heimilum fatlaðs fólks.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Katrín Oddsdóttir, lögfræðingur