Skip to main content
AtvinnumálNPAUmsögn

456. mál, aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum (vinnutími starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð)

By 15. mars 2021september 1st, 2022No Comments
Nefndasvið Alþingis

Velferðarnefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 10. mars 2021

Umsögn Öryrkjabandalags Íslands um frumvarp til laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum (vinnutími starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð), 456. mál.

Öryrkjabandalaginu hefur borist til umsagnar frumvarp félags- og barnamálaráðheyrra um breytingu á lögum nr. 56/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum (vinnutíma starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð). Frumvarpið framlengir það vinnufyrirkomulag sem hefur verið við lýði hjá aðstoðarfólki notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) um árabil um rýmri vinnutíma og sofandi vaktir.

Öryrkjabandalagið styður frumvarpið og leggur mikla áherslu á að það verði samþykkt. Hvað varðar frekari rök og rannsóknir vísar ÖBÍ til umsagnar NPA-Miðstöðvarinnar, dags. 10. mars 2021, og tekur undir þau sjónarmið sem þar koma fram um mikilvægi þess að undanþágu sem felst í sólahringsvöktum NPA aðstoðarfólks verði haldið inni. Er sérstaklega tekið undir þau rök sem fram koma í umsögn NPA Miðstöðvarinnar hvað varðar rannsóknir sem sýna ánægju NPA aðstoðarfólks með fyrirkomulagið sem er í raun ein af grundvallarforsendum þess að þjónustuformið gangi upp.

ÖBÍ tekur undir með umsögn Landssamtakanna Þroskahjálp, varðandi mikilvægi þess að vandað sé til verka sem og samráðs við fatlað fólk, eins og mælt er fyrir um að skuli gert í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í ljósi þess er sérstaklega athugunarvert að fulltrúar fatlaðs fólks séu ekki meðal þeirra sem sitja í nefnd sem skipuð var á haustmánuðum 2019 skv. lögunum eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu.

Mikilvægt er að mati ÖBÍ að umfjöllunarmálum frumvarpsins verði komið í varanlegt form sem fyrst, svo notendur NPA þjónustu og starfsmenn þeirra búi ekki við óöryggi um hver áramót.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu, f.h. ÖBÍ
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ