Skip to main content
AlmannatryggingarHúsnæðismálKjaramálUmsögn

Almannatryggingar og húsnæðisbætur (mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu)

By 7. júní 2023ágúst 23rd, 2023No Comments

„Skortur á íbúðarhúsnæði og hátt verðlag er landlægt vandamál sem bitnar mest á tekjulægri hópum samfélagsins. Stjórnsýslan þarf að ganga ákveðin til verka, samstilla aðgerðir og tryggja sjálfbæra uppbyggingu á íbúðarhúsnæði til frambúðar.“

Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um húsnæðisbætur (mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu), þskj. 1973, mál 1155.

ÖBÍ – réttindasamtök telja mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna verðbólgu vera skref í rétta átt. Í frumvarpinu eru lagðar fram ýmsar fjármagnarðar breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um húsnæðisbætur sem vert er að styðja við. Mikilvægt er að horfa heildrænt á þessi tvö kerfi og tryggja að hækkanir komi ekki niður á þeim sem minnst mega sín í formi skerðinga eða kröfu um endurgreiðslu Þó skref stjórnvalda eru í rétta átt eru þau því miður stutt, gangurinn hægur og en er langt í land. Því vill ÖBÍ koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum.

I.

  • Lífeyrisgreiðslur almannatrygginga verði hækkaðar strax um að lágmarki 6% til að mæta launaþróun og að lágmarki hækkun vísitölu neysluverðs.
  • Tekjuskerðingar atvinnutekna á framfærsluuppbót verði afnumdar. Helsta ástæða ofgreiðslna og krafna örorku- og endurhæfingarlífeyristaka hjá TR eru skerðingar á framfærsluuppbótinni, en hún skerðist frá fyrstu krónu. Því til viðbótar má árétta að svo eigin markmið stjórnvalda um aukna atvinnuþátttöku örorkulífeyristaka náist þurfa þessi sömu stjórnvöld að draga verulega úr tekjutengingum TR.
  • Eingreiðslur greiddar á röngu tímabili verði sjálfkrafa teknar út fyrir sviga í staðgreiðsluskrá skattsins.

Fatlað fólk þarf iðulega að reiða sig á greiðslur og stuðning hins opinbera og er það ein af grunnskyldum sérhvers alþingismanns að hafa það í huga. Lífeyrisþegar eru í sömu stöðu og þau sem falla undir lög nr. 79/2019 þar sem þeir semja ekki um hækkanir lífeyris, hafa ekki verkfallsrétt og eru í raun upp á stjórnvöld komin hvað varðar breytingar á lífeyrisgreiðslum. Í 4. gr. þeirra laga er ákvæði um hækkun til þeirra sem falla undir lögin. Áætlun um fjárheimildir til málefnasviðsins „Örorka og málefni fatlaðs fólks“ í Fjármálaáætlun eru til að mæta áætlaðri 2,5% fjölgun en horft er fram hjá verðbólguþróunin. Uppsöfnuð 12 mánaða verðbólga í mars 2023 er 9,8% og því um helmingi hærri en spá og forsendur fjárlaga ársins 2023. Verðbólguspá fjármálaáætlunarinnar er brostnar miðað við stöðuna innan- og utanlands í dag. Áhrif verðbólgu bitnar verst á lágtekjufólki sem ver stærstum hluta ráðstöfunartekna í húsnæði og nauðsynjar. Fatlað fólk ber ekki ábyrgð á þeirri þennslu sem hefur myndast í efnahagslífinu og á húsnæðismarkaði. Því er brýnt að stjórnvöld beini öllum aðhaldsaðgerðum í rétta átt, tryggi fötluðu fólki viðunandi framfærslu og sveigjanleika undan skerðingum svo það geti lifað áhyggjulausu lífi.

II.

  • Húsaleigubætur verði hækkaðar um 8% til að tryggja þeim sem höllustum fæti standa fjárhagslegt svigrúm.
  • Innleiða Carlsbergákvæðið sem algilt viðmið í deiliskipulagi sveitarfélaga með breytingum skipulagslögum, nr. 123/2010 (hagkvæmar íbúðir), þskj. 1698, mál 1052.
  • Tryggja þarf að að sveitarfélögin hækki tekju- og eignamörk sérstaks húsnæðisstuðnings í takt við hækkanir húsnæðisbóta
    ÖBÍ leggur til að hefja strax vinnu við endurskipulagningu á formi húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings í eitt stuðningskerfi á vegum ríkisins.
  • Ríki og sveitarfélög setji sér metnaðarfyllri markmið við uppbyggingu húsnæðis og byggi 41.000 íbúðir á næstu 10 árum til að mæta uppsafnaðri íbúðaþörf landsmanna.
  • Leigubremsa á alla núgildandi húsaleigusamninga íbúðarhúsnæðis til lok árs 2024.
  • Óheimilt verði að hækka fjárhæð leigu íbúðarhúsnæðis oftar en á 12 mánaða fresti og verði þá að hámarki heimilt að hækka hana í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs á tímabilinu.

Skortur á íbúðarhúsnæði og hátt verðlag er landlægt vandamál sem bitnar mest á tekjulægri hópum samfélagsins. Stjórnsýslan þarf að ganga ákveðin til verka, samstilla aðgerðir og tryggja sjálfbæra uppbyggingu á íbúðarhúsnæði til frambúðar.

Þegar litið er til rannsóknar á húsnæðismálum fatlaðs fólk (RHFF) sem unnin var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir ÖBÍ – réttindasamtök árið 2022, kemur í ljós að 58% fatlaðs fólks býr í eigin húsnæði sem er 20% minna en landsmenn alment samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. 70% fatlaðs fólks sem býr í eigin húsnæði var ekki með örorkumat þegar þau eignuðust húsnæði sitt samkvæmt RHFF.

Í RHFF kemur fram að 65% svarenda með 75% örorkumat fannst mjög eða frekar erfitt að fá leigt húsnæði á almennum markaði. Skortur á leiguhúsnæði og uppsprengt leiguverð spila þar lykilhlutverk og neyðir þann hluta fatlaðs fólks sem vill og getur búið sjálfstæðu lífi á almennum leigumarkaði inn á félagslegan leigumarkað. Þar er biðin eftir félagslegu leiguhúsnæði oft löng og strembin og dæmi eru um að fatlað fólk hafi neyðst til að flytja inn á ættingja eða orðið heimilislaust. Af þeim sem voru á biðlista eftir félagslegu húsnæði höfðu 58% verið á biðlista í 3 ár eða lengur. 41% þeirra sem voru á biðlista hjá Brynju leigufélagi höfðu verið á listanum í 3 ár eða lengur.

Rúmlega þriðjungur svarenda með 75% örorkumat sem sóttu um greiðslumat til kaupa á húsnæði fengu synjun samkvæmt RHFF. Því er þörf á að stofna sérstakan lánaflokk og taka upp sértækt greiðslumat fyrir fatlað fólk svo það eigi frekar kost á að eignast húsnæði. Ungt fólk hefur aldrei átt jafn erfitt með að eignast húsnæði eins og í dag og hvað þá ungt fatlað fólk á örorkulífeyri. Kannanir ÖBÍ á lífskjörum og stöðu fatlaðs fólks síðustu árin ítreka þá staðreynd.

Skýrt orðalag og viðmið er lykillinn að árangursríkum lögum og reglugerðum. Nú þegar er í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og lögum um húsnæðismál 44/1998 að sveitarfélög skuli tryggja framboð af húsnæði og að sveitarfélögin beri ábyrgð á að leysa húsnæðisþörf fólks sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun.

Í dag sér Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) um greiðslur húsnæðisbóta fyrir landið allt en hvert sveitarfélag setur sínar eigin reglur um greiðslur sérstaks húsnæðisstuðnings. Hefja þarf strax vinnu við endurskipulagningu á formi húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings í eitt stuðningskerfi á vegum ríkisins. Slíkt er í samræmi við skýrslu starfshóps Innviðaráðaneytisins um húsnæðisstuðning frá 2022. Þjónustan þarf að fylgja einstaklingnum óháð búsetu. Því þarf ríkið að tryggja sveitarfélögum fjármag til að sinna lögbundinni þjónustu en jafnframt tryggja að sveitarfélögin þjónusti fatlað fólk í samræmi við Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ


Almannatryggingar og húsnæðisbætur (mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu). 1155. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 7. júní 2023