Skip to main content
AðgengiHúsnæðismálUmsögn

Reglur um tímabundið húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar

By 12. september 2023september 18th, 2023No Comments

„ÖBÍ hvetur Reykjavikurborg til að sýna gott fordæmi, gera úrbætur í aðgengismálum í húsnæði á vegum borgarinnar og að algild hönnun verði leiðarstef við kaup og/eða leigu á nýjum íbúðum.“

Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka um reglur um tímabundið húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar.

ÖBÍ réttindasamtök telja mikilvægt að einstaklingum sem ekki eiga í nein hús að venda sé tryggt öruggt þak yfir höfuðið. Staðan í húsnæðismálum er afar slæm og því brýnt að bregðast skjótt við svo enginn þurfi að hefja fasta búsetu í tjaldi. Markmið borgarinnar um sérstakt tímabundið húsnæði, til að bregðast fljótt við húsnæðisvanda einstaklinga sem þurfa skjóta úrlausn sinna mála, svo sem einstaklinga sem forða þarf úr tilteknum aðstæðum er skref í rétta átt. Við lestur á reglunum má þó finna ýmislegt sem þarfnast úrbóta, þá sérstaklega er varðar lokun á tímabundnu húsnæði og verklag við úthlutun. ÖBÍ leggur því fram eftirfarandi tillögur og athugasemdir við fyrirhugaða reglugerð Reykjavíkurborgar.

1.

Í 2. gr. reglnanna er farið yfir skilgreiningu á sérstöku tímabundnu húsnæði. Þar kemur fram að úrræðið sé tímabundið úrræði meðan verið er að leita að varanlegum búsetukosti. Eðli málsins vegna eru slík úrræði óstöðug og tilfallandi þar sem húsnæðið getur verið sett á fót sem tilraunaverkefni eða tímabundið leiguhúsnæði. Slíkt getur valdið því að einstaklingur getur orðið berskjaldaður að nýju eftir vikur eða mánuði og gert að sækja um aftur. Jafnframt er tekið fram í 3. gr. reglnanna að einungis sé hægt að skila inn umsókn um sérstakt tímabundið húsnæði meðan slíkt húsnæði er í rekstri. ÖBÍ telur þessa útlistun óskýra og þörf á frekari útskýringum.

Skýrt orðalag og viðmið er lykillinn að árangursríkum lögum og reglugerðum. Í 12. gr. reglnanna segir að Félagsbústaðir eða Reykjavíkurborg annist frágang leigusamninga, en í drögunum er engin greinagerð af hálfu borgarinnar um hver eigi frumkvæðið að því að setja á laggarnir slíkt tilraunaverkefni. Hver beri ábyrgð á að tryggja framboði sérstaks tímabundins húsnæðis og rekstur þess. Nú þegar er í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og lögum um húsnæðismál 44/1998 að sveitarfélög skuli tryggja framboð af húsnæði og að sveitarfélögin beri ábyrgð á að leysa húsnæðisþörf fólks sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun. Því skýtur það skökku við að í 20. gr. reglnanna um starfslok tímabundins húsnæðis segir að leigutökum húsnæðisins skal tilkynnt um að fyrirhugað sé að ljúka starfsemi tímabundna húsnæðisins, án þess útlista hvað taki við.

ÖBÍ leggur til að Reykjavíkurborg skýri verklag í reglunum og tryggi íbúum sem tilkynnt er um fyrirhugaða lokun tímabundins húsnæðis viðeigandi húsaskjól í samræmi við lög nr. 40/1991 og lög nr. 44/1998. Það væri ótækt ef Reykjavíkurborg myndi vísa viðkvæmum hópi fólks á götuna fyrir þær sakir einar að búa í óöruggu húsnæðisúrræði.

2.

Í 29. gr. segir að áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar hefur heimild til að veita undanþágu frá reglum þessum ef sérstakar málefnalegar ástæður liggja fyrir og umsækjandi fer fram á það með sérstakri beiðni til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar innan fjögurra vikna frá því honum barst vitneskja um ákvörðun.

ÖBÍ telur þennan sveigjanleika jákvæðan og gefi einstaklingum tækifæri til að ítreka rökstuðning sinn um húsnæðisþörf og greina betur frá aðstæðum. ÖBÍ telur brýnt að umsækjendur séu meðvitaðir um þessa heimild og fái viðeigandi leiðbeiningar um framsetningu erindisins. Jafnframt er mikilvægt að tryggja jafnræði við veitingu undanþágu og forðast geðþóttamat. Fái umsækjandi A undanþágu frá ákveðinni reglu vegna sérstakra málefnalegra ástæðna ber áfrýjunarnefnd að taka það til greina í ákvörðun sinni í máli B sem kemur fram með samskonar ástæður.

ÖBÍ leggur til að Reykjavíkurborg bæti við 29. gr. reglnanna að ráðgjafi umsækjanda sem fær höfnun beri að upplýsa um undanþáguheimild áfrýjunarnefndar og tímamörk jafnframt því að leiðbeina viðkomandi við gerð erindis og rökstuðnings. Einstaklingar sem sækja um tímabundið húsnæði er fólk í viðkvæmri stöðu og ekki hægt að ætlast til að það þekki réttindi sín. Jafnframt leggur ÖBÍ til að Reykjavíkurborg taki fram í 29. gr. reglnanna að áfrýjunarnefnd beri að horfa til fyrri ákvarðana, meta samskonar aðstæður og rökstyðja niðurstöðu sína.

3.

Brýnt er að sveitarfélög tryggi að allt húsnæði í þeirra eigu sé eins aðgengilegt og kostur er. Þegar litið er framhjá þörfum fatlaðs fólks þarf iðulega að fara í kostnaðarsamar úrbætur eða viðbætur og auka þjónustustig síðar meir. Í dag er meirihluti íbúðarhúsnæðis á Íslandi óaðgengilegur fötluðu fólki og þjóðin er skarpt að eldast. Fötlun gerist í samspili einstaklings og umhverfis, það er hlutverk stjórnvalda að sjá til þess að umhverfisþættir séu samkvæmt lögum reglugerðum. Að mati ÖBÍ er óásættanlegt ef einstaklingur sem óskar eftir tímabundnu húsnæðisúrræði á vegum Reykjavíkurborgar er hafnað á grundvelli skorts á viðeigandi aðgengi.

ÖBÍ hvetur Reykjavíkurborg til að sýna gott fordæmi, gera úrbætur í aðgengismálum í húsnæði á vegum borgarinnar og að algild hönnun verði leiðarstef við kaup og/eða leigu á nýjum íbúðum.

4.

ÖBÍ gerir verulegar athugasemdir er varða 5. kafla um forgangsröðun og úthlutun. Í kaflanum er stiklað á þeim atriðum sem hafa áhrif á forgangsröðun úthlutunar en hvergi tilgreina að biðlisti sé til staðar. Við lestur á reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði kemur orðið biðlisti víðsvegar fram í reglunum. Sem dæmi má nefna 4. gr. um skilyrði fyrir því að umsókn um almennt félagslegt leiguhúsnæði verði samþykkt á biðlista, 9. gr. um umsókn samþykkt á biðlista eftir sérstöku húsnæði fyrir fatlað fólk og í 11. gr. um skilyrði fyrir því að umsókn um húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir verði samþykkt á biðlista. Því skýtur það skökku við að Reykjavíkurborg sjái ekki ástæðu til að tilgreina orðið biðlisti í reglum um tímabundið húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar.

Mikilvægt er að einstaklingur sem hefur sent inn umsókn til stjórnvalds um lögbundið úrræði geti fengið upplýsingar um hvar umsókn hans er staðsett í kerfinu. Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr.37/1993 ber stjórnvaldi að skýra aðila máls frá fyrirsjáanlegum töfum. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.

Einnig er vert að skoða nánar úrskurð í máli nr. E-2712/2020 gegn Reykjavíkurborg frá árinu 2021, en þar segir:

„Eins og mál þetta liggur fyrir er þannig í raun ómögulegt að greina hvort þær úthlutanir fari málefnalega fram. Það er rétt hjá stefnda að það er án vafa erfiðleikum háð að ganga þannig frá biðlista að allir sem eru á biðlistanum fái sitt afgreiðslunúmer. Á hitt er hins vegar að líta að lögin, reglugerðin og reglur stefnda gera beinlínis ráð fyrir röðun, enda felst það í hugtakinu „biðlisti“.Umsækjendur sem ekki er raðað innbyrðis heldur eru flokkaðir margir saman eru ekki á lista. Má í þessum efnum vísa til nútímamálsorðabókar þar sem listi er skilgreindur sem „skrá eða upptalning yfir tiltekið efni sett fram með ýmsum hætti svo sem í stafrófsröð, tímaröð o.fl.“

ÖBÍ bendir á að Reykjavíkurborg hafi enn ekki gert viðeigandi breytingar á verkferlum sínum í kjölfar dómsúrskurðar í máli nr. E-2712/2020. Í dag getur einstaklingur sem óskar eftir upplýsingum um stöðu sína á biðlista eftir ákveðnu búsetuúrræði ekki fengið skýr svör. ÖBÍ hefur skilning á flókinni stöðu í húsnæðismálum vegna mikils skort á framboði íbúða og undirstrikar að þessi ábending er ekki krafa um að Reykjavíkurborg útvegi húsnæði hraðar heldur að borgin veiti umsækjendum skýr svör um stöðu sinna mála.

ÖBÍ leggur til að Reykjavíkurborg bæti við grein í reglugerð um tímabundið húsnæði sem tilgreinir að umsókn sem hljóti samþykki fari á biðlista ef ekkert húsnæði standi til boða á þeim tíma sem umsókn var samþykkt. Staðsetning umsóknar getur tekið mið af þeim atriðum sem koma fram í 9. gr. um forgangsröðun en að umsækjandi geti fengið upplýsingar um staðsetningu sína á biðlistanum sé þess óskað. ÖBÍ skorar á Reykjavíkurborg að gera samskonar úrbætur í öðrum húsnæðisúrræðum á vegum borgarinnar og stuðla þannig að öruggu aðgengi umsækjenda að viðeigandi upplýsingum og bættri stjórnsýslu í samræmi við gildandi lög.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ


Reglur um tímabundið húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar
Reykjavíkurborg, Tjarnargata 11, 101 Reykjavík
Umsögn ÖBí, 12. september 2023