Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
Sölvhólsgata 7
101 Reykjavík
Reykjavík, 31. maí 2021
Umsögn um borgarlínuna – forkynningu á vinnslutillögu fyrir breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 og Reykjavíkur 2010-2030
Áætlanir um borgarlínu þurfa að taka mið af þörfum fatlaðs fólk með tilliti til rasks á framkvæmdartíma og svo aðgengis að borgarlínunni. Samkvæmt ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna urm réttindi fatlaðs fólks á fatlað fólk að geta farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það velur og vera tryggt hindrunarlaus aðgangur að hinu efnislega umhverfi.
Rask á framkvæmdartíma
Stórvirkar og langvinnar framkvæmdir valda óneitanlega óþægindum sem þarf að lágmarka eftir megni, en það er ekki ásættanlegt að þær brjóti á réttindum fólks. Í öllum áætlunum þarf að tryggja það að fólk komist sinnar leiðar og verði ekki fyrir heilsutjóni. Meðal annars þarf að tryggja að
- bílastæði hreyfihamlaðra séu í hindrunarlausri leið og ekki meiri fjarlægð en 25 m frá aðalinngangi, sbr. 6.2.4. gr. byggingarreglugerðar.
- umferðaröryggis sé gætt, s.s. að hjáleiðir fyrir gangandi vegfarendur séu ekki þveraðar af þungaflutningum byggingarefna.
- að gönguleiðir séu hindrunarlausar og hugað sé að leiðarlínum fyrir blinda og sjónskerta.
- að loft- og hljóðmengun verði innan eðlilegra marka.
Í fylgiskjali koma fram athugasemdir ÖBÍ varðandi áætlanir þessu tengdu í Hamraborg í Kópavogi. Samkvæmt þeim átti að fækka bílastæðum hreyfihamlaðra og færa þau á jaðar framkvæmdarsvæðisins, sem hvoru tveggja mun vera brot á löggjöf. Þá er ljóst að hávaði og loftmengun mun hafa mikil neikvæð áhrif á íbúa og þjónustu á svæðinu.
Aðgengi að borgarlínunni
Við hönnun og frágang þarf að gæta þess að koma til móts við fólk með ólíkar skerðingar og að ákvæði algildrar hönnunar verði til grundvallar á öllum stigum. Meðal annars þarf að huga að því að
- umferðarleiðir verði hindrunarlausar. Að hreyfihamlaðir einstaklingar komist án óþæginda og af eigin rammleik á og frá biðstöð, upp í og úr vagni. Að leiðarlínur verði í gönguleið fyrir blinda og sjónskerta.
- tengingar við annan fararmáta verði greiðar, s.s. að strætóbiðstöðvum og bílastæðum.
- umferðarleiðir verði upphitaðar og vetrarþjónusta verði bætt með tilliti til aðgengis fatlaðs fólks að borgarlínunni.
- upplýsingar á biðstöð séu framsettar með þarfir fatlaðs fólks í huga. Hægt verði að fá upplýsingar í síma, t.d. um komu næsta vagns. Biðstöðvar verði greinilega merktar. Biðstöðvar verði kynntar á skjá og með hljóði í vögnum.
- nægilegt framboð verði á bekkjum með handstoðum.
- fjarlægð frá heimili eða þjónustu verði innan eðlilegra marka. Mælingar með loftlínu eru ekki ásættanlegar í því samhengi.
Þróunin hefur verið sú að almennings bílastæðum hefur mjög fækkað að undanförnu. Hreyfihamlað fólk hefur fundið mjög áþreifanlega fyrir því, en það má ekki gleymast að það hefur oft ekki um annan kost að velja en einkabílinn. Ef fjarlægðarmörk og aðrar aðgengiskröfur eru virt munu margir geta nýtt sér borgarlínuna og aðrar almenningssamgöngur í framtíðinni, en góðar tengingar verða að vera til staðar m.a. við almennings bílastæði og bílastæði hreyfihamlaðra. Hreyfihamlað fólk sem ekki notar hjólastól og önnur fyrirferðarmikil hjálpartæki getur oft notað almennings bílastæði en er sérstaklega háð því að fjarlægðir milli staða séu innan við 25 metrar, eins og kveðið er á um í byggingarreglugerð. Þá verður það að koma fram að það má búast við því að ásókn í stæðiskort hreyfihamlaðra muni aukast mjög ef fækkun almennra stæða heldur áfram.
Málefnahópur ÖBÍ um aðgengi vill eiga virkt samtal um borgarlínuna og vera til ráðgjafar um þarfir fatlaðs fólks. Bent er á leiðbeiningar ”Algild hönnun utandyra” sem málefnahópurinn gaf út vorið 2017, sem ættu að gagnast í þessari vinnu.
Ekkert um okkur án okkar!
f.h. málefnahóps ÖBÍ um aðgengismál
Ingveldur Jónsdóttir
formaður málefnahóps ÖBÍ um aðgengi
Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri
Fylgiskjal:
Kópavogsbær
Umhverfissvið – skipulags- og byggingardeild
Digranesvegi 1
200 Kópavogi
Reykjavík, 1. mars 2021
Athugasemdir við uppbyggingaráætlanir á Fannborgarreit og Traðarreit vestur
Fyrirhugaðar eru gríðarmiklar framkvæmdir á Fannborgarreit og Traðarreit vestur í Kópavogi undir kjörorðinu „Mannlíf í forgang.“ Um er að ræða framkvæmdir í miðjum íbúa- og þjónustukjarna, sem gert er ráð fyrir að standi yfir í 5-7 ár. Ekki er ólíklegt að framkvæmdartíminn lengist þó nokkuð miðað við áætlanir. Eftirfarandi athugasemdir eiga fyrst og fremst við ástand á svæðinu á framkvæmdartíma.
Á reitnum búa nú þegar á þriðja hundrað manns, margir hverjir aldraðir og fatlaðir. En þangað sækir einnig fjöldi fólks, sem einnig er að stórum hluta aldrað og fatlað, þjónustu daglega. Þarna má m.a. finna heilsugæslu, Hljóðbókasafnið, Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins, félagsmiðstöðina Gjábakka og mæðrastyrksnefnd Kópavogs. Þetta svæði er því afar viðkvæmt fyrir raski sem fylgir stórvægilegum byggingaframkvæmdum.
Erfitt er að gera sér í hugarlund að það verði vistlegt að búa á svæðinu meðan framkvæmdir standa yfir í hátt í áratug. Gríðarlegt niðurrif á byggingum mun bera með sér mikinn hávaða og loftmengun auk þungaflutninga á efni til og frá svæðinu, hávaða frá vinnuvélum, o.s.frv.
Bílastæði hreyfihamlaðra verða alls 10 talsins á framkvæmdartíma, skv. áætlunum sem kynntar hafa verið. Sex við Landsbanka og fjögur við Neðstutröð. Þau verða öll í jaðri svæðisins, alllangt frá áfangastað í mörgum tilfellum. Það er t.d. ljóst að leiðin frá bílastæðum hreyfihamlaðra að þjónustu Hljóðbókasafnins, Greiningarmiðstöðvar og félagsmiðstöðvarinnar Gjábakka er ekki innan við 25 m, sbr. ákvæði byggingarreglugerðar. Vegalengd frá bílastæðum að inngangi á Fannborg 9 verður hátt í fimm sinnum lengri en hámarksviðmið. Ofan á það leggst halli á stæðum og umferðarleið og umferð vinnuvéla sem skerðir aðgengi. Almenn stæði eru hins vegar rúmlega 140 talsins á fimm svæðum sem oftast eru mun nær þjónustu og íbúðum. Ekkert bílastæði hreyfihamlaðra er á þeim bílastæðareitum í áætlunum. Það blasir við á áætlunum að aðgengi fyrir fatlaða íbúa að heimilum sínum verður afar slæmt. Ekki lítur út fyrir að hægt verði að komast að íbúðum á 2. hæð í Fannborg 3, 5, 7 og 9 nema um tröppur.
Þá er vert að hyggja að því að Hamraborg er þegar þriðja stærsta strætóstoppistöðin á höfuðborgarsvæðinu og er mikilvæg í áætlunum um borgarlínu. Í áætlunum er gert ráð fyrir að talsverðri fjölgun íbúða, sem ætla má að verði eftirsóknarverðar vegna nálægðar við þessa mikilvægu samgönguæð. Einnig er líklegt að íbúar annarra sveitarfélaga muni kjósa að leggja bílum sínum á svæðinu og taka borgarlínuna til vinnu í borginni til að forðast umferðartafir. Nú þegar er skortur á almennum bílastæðum og bílastæðum hreyfihamlaðra á reitnum. Mikilvægt er að nægilegt framboð verði á þeim í áætlunum.
Samkvæmt upplýsingum frá bæjarfulltrúum verða byggingarleyfi ekki gefin út fyrr en fundist hefur ástættanleg lausn á bílastæðum og aðgengismálum og samkvæmt verkefnastjóra munu nýjar áætlanir verða kynntar innan skamms sem uppfylli kröfur um aðgengi, m.a. um hámarksfjarlægð að bílastæðum hreyfihamlaða og sem sýni fram á að ekki verði farið yfir ásættanleg mörk um loftgæði og hljóðvist. Þessi umsögn byggir hins vegar á þeim gögnum sem fyrir liggja.
Í nýjum áætlunum þarf m.a. að svara eftirfarandi spurningum:
- Hvar verða bílastæði hreyfihamlaðra staðsett svo að hámarksfjarlægð að aðalinngangi sé aldrei meiri en 25 m?
- Hvernig verður það tryggt að aðkomuleiðir að byggingum verði hindrunarlausar, m.a. af byggingarefnum?
- Hvernig verður það tryggt að íbúar og notendur þjónustu hafi tryggan aðgang að bílastæðum á framkvæmdartíma?
- Hvernig verður löggjöf um bæði loftgæði og hljóðvist virt á framkvæmdartíma?
Ekkert um okkur án okkar.
Fyrir hönd málefnahóps ÖBÍ um aðgengismál
Ingveldur Jónsdóttir
formaður málefnahóps ÖBÍ um aðgengi
Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri