Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
Sölvhólsgötu 7
101 Reykjavík
20. desember 2021
Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðis- og mannvirkjastofnun og lögum um skráningu og mat fasteigna (mannvirkjaskrá)
Við breytingu á lögum um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) og lögum um skráningu og mat fasteigna er mikilvægt að sérstaklega verði þess gætt að ferli er varðar nýbyggingar sem og breytingar á eldra húsnæði verði gagnsætt. Hinn almenni borgari verður að geta fylgst með því að byggingarleyfi séu afgreidd með eðlilegum hætti, að eftirlit sé virkt og að undanþágur og leyfi fyrir breytingum séu ekki veittar án gilds rökstuðnings sem byggður er á heimild í lögum. Því er nauðsynlegt að breytingasaga húsnæðis og undanþágur verði skráðar í mannvirkjaskrá. Mikilvægt er að breytingar, samþykktir og beiðnir frá verktökum séu færðar inn jafnóðum í mannvirkjaskrá svo hægt sé að bregðast við ef fólk er með athugasemdir. Gott væri einnig ef að tímastimplaðar athugasemdir væru aðgengilegar.
Ákvarðanir byggingarfulltrúa verða að vera aðgengilegar sem og rökstuðningur er liggur að baki ákvarðananna. ÖBÍ sendi fyrirspurn til byggingarfulltrúans í Reykjavík og fékk þau svör að ekki sé sérstaklega haldið utan um þær greinargerðir sem leggja þarf fram ef eigendur eldri mannvirkja telja sig ekki geta bætt aðgengi fyrir fatlað fólk við breytingar. Því er ekki hægt að greina hvort afgreiðsla þeirra erinda hafi verið á faglegum grunni.
Það að mannvirkjaskráin verði gagnsæ er liður í neytendavernd. Það er mikilvægt fyrir einstaklinga sem eru að kaupa húsnæði að geta séð hvernig staðið hefur verið að málum er varðar húsnæðið. ÖBÍ leggur til að til verði kæruleið.
Af gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,