Umsögn ÖBÍ um tillögu til þingsályktunar um samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana
Leigubremsa
Að mati ÖBÍ er nauðsynlegt að stjórnvöld bregðist við versnandi stöðu heimilanna þegar kemur að húsnæði. ÖBÍ styður það að sett verði á leigubremsa á húsaleigu meðan óvissu ástand í heiminum varir í kjölfar covid og vegna árásar rússa á Úkraínu. Óskýrt er þó í þingsályktunartillögunni hver hófleg verðbólga er. Samkvæmt frétt ASÍ frá 29. ágúst 2022 miðar tillaga Dana að því að hækkanir á húsaleigu verði takmarkaðar við 4% á ári næstu tvö árin. ÖBÍ leggur til að miðað sé við ákveðna prósentu hækkun í stað óljóss mælikvarða sem „hófleg“ verðbólga er.
Á sama tíma og leigubremsa yrði sett á þarf að þrýsta á að rammasamningur ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða á árunum 2023 -2032 sem á að tryggja uppbyggingu íbúða í samræmi við þörf ólíkra hópa til að mynda tekju- og eignaminni, verði uppfylltur. Til að íslenskur leigumarkaður verði stöðugri þarf hlutfall félagslegra húsnæðisúrræða hjá sveitarfélögunum að hækka.
Vaxtabætur
Síðastliðin ár hefur mikil áhersla verið á að launafólk geti ráðstafað greiddum séreignarsparnaði til greiðslu inn á höfuðstól fasteignalána. Nauðsynlegt er að vaxtabótakerfið taki utan um þann hóp sem ekki hefur tök á að greiða í séreignarsparnað til að mynda fólk með örorku- og endurhæfingarlífeyri til framfærslu. Innan þess hóps eru mjög tekjulágir einstaklingar í eigin húsnæði og sem hafa setið eftir og fengið minni húsnæðisstuðning en þeir sem tekjuhærri eru. Greiðslubyrði lántaka hefur þyngst verulega og þá sérstaklega hjá þeim hópi sem tók óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum á þeim tíma sem stjórnvöld gáfu það út að nú væri lágvaxtaskeið hafið. Þær forsendur sem þessir lántakar settu sér eru algjörlega brostnar og eru mörg heimili með alltof háa greiðslubyrði. Hætta er á að þessi hópur muni þurfa selja eignirnar sínar á næstu misserum og fara þá jafnvel á leigumarkaðinn.
Barnabætur
ÖBÍ tekur heilshugar undir að barnabótakerfið verði styrkt og skerðingarmörk hækkuð til að mæta hækkunum á nauðsynjavörum fyrir fjölskyldur. Stór hópur innan fólks í fátækt eru einstæðir foreldrar á örorkulífeyri sem, fyrir utan óbærilegan kostnað tilverunnar, glíma við alvarlegan tekjuvanda þar sem tekjur þeirra duga engan veginn fyrir nauðsynlegum útgjöldum fjölskyldunnar. Barnabætur eru mikilvægur stuðningur við þennan hóp og aðrar barnafjölskyldur með lágar tekjur, en fatlaðir foreldrar eru að stórum hluta í hópi tekjulægri foreldra sem þurfa að treysta á barnabætur.
Skerðingarmörk fyrir barnabætur eru enn of lág eða rétt yfir lágmarkslaunum. Einnig þarf að hækka fjárhæðir barnabóta, en þær hækkuðu í byrjun árs 2022 um 5,7%, eftir að hafa verið óbreyttar frá árinu 2019. Í frumvarpi til fjárlaga 2023 er hvorki gert ráð fyrir hækkun fjárhæða né viðmiðunartekna barnabóta á sama tíma og útgjöld fyrir nauðsynjum s.s. mat og húsnæði hafa aukist verulega vegna verðbólgu. Barnabætur tekjulægstu fjölskyldna rýrna að raunvirði, þar sem fjárhæðir og tekjuviðmið eru óbreytt þrátt fyrir 9,3% ársverðbólgu (miðað við september 2022). Mjög mikilvægt er að fjárhæðir og skerðingarmörk verði uppfærð í samræmi við verðlag á sama hátt og krónutöluskattar.
Af gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi ÖBÍ
Valdís Ösp Árnadóttir, verkefnisstjóri ÖBÍ
Samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana. 11. mál. Þingsályktunartillaga. Umsögn ÖBÍ send 14. október 2022. Viðtakandi: Nefndasvið Alþingis. Efnahags- og viðskiptanefnd.