Summary
„Það er óumdeilt að fíknivandi er langvinnur sjúkdómur sem leiðir oft til fötlunar. Öll úrræði til skaðaminnkunar draga úr líkum á að svo verði. ÖBÍ – réttindasamtök hvetja því eindregið til að frumvarp þetta verði samþykkt svo fljótt sem auðið er.“
„Ýmis ákvæði í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks áskilja að einstaklingum með fíknivanda séu tryggð ákveðin réttindi og má þar nefna 12., 15., 25., og 28. gr. samningsins.“
Nefndarsvið Alþingis
B.t. Velferðarnefndar
Austurstræti 8-10
101 Reykjavík
13. október 2022
Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, með síðari breytingum (afglæpavæðing vörslu neysluskammta)
ÖBÍ – réttindasamtök fagna því að aftur sé verið að leggja fram frumvarp um afglæpavæðingu vörslu neysluskammta og styður þær breytingar á löggjöfinni sem þar eru lagðar fram. Jafnframt tekur ÖBÍ heilshugar undir mikilvægi þess að annars vegar kaup og hins vegar varsla á neysluskömmtum verði afglæpavætt. Til stuðnings mikilvægis þess vísast til sameiginlegrar yfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um að brýnt sé að útrýma allri mismunun í heilbrigðisþjónustu. Í yfirlýsingunni eru aðildarríkin hvött til að afglæpavæða neyslu og vörslu neysluskammta vímuefna.
Tryggja þarf rétta þjónustu, á réttum stað og á réttum tíma
Frumvarpið felur í sér mikilvægt skref að mannúðlegri stefnumótun og réttarbót. Það leikur enginn vafi á því að nálgast þarf málefni einstaklinga sem glíma við erfiðleika sökum neyslu og misnotkunar vímuefna sem heilbrigðisvanda. Fólk með fíknivanda á oft við margþættan vanda að stríða, til að mynda heilsubres og veika félagslega stöðu, þar með talið heimilisleysi, og áfallasögu af ýmsu tagi. Tryggja þarf að einstaklingar með fíknivanda hafi aðgang að viðeigandi heilbrigðisþjónustu, félagslegri þjónustu og viðbragðsþjónustu. Einstaklingar sem glíma við vímuefnavanda verða að geta leitað sér aðstoðar án ótta við afleiðingar, til dæmis að neysluskammtar þeirra verði gerðir upptækir og/eða að vera handteknir vegna ólögmæts athæfis.
Réttur sérhvers manns er að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er án mismununar af nokkru tagi og því er mikilvægt að tryggt sé að fólk fái og hafi aðgang að bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Rétturinn á bestu mögulegu heilsu er meðal mikilvægustu grunnmannréttinda og því mikilvægt skilyrði fyrir möguleika fólks á því að njóta annarra mannréttinda.
Bæði innlend löggjöf og fjöldi alþjóðlegra mannréttindasamninga áskilja að rétturinn til bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sé tryggður. Má þar nefna Stjórnarskrá Íslands lög nr. 33/1944, lög nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga, samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna, Mannréttindasáttmáli Evrópu, alþjóðasamningurinn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, samningurinn um afnám allrar mismununar gagnvart konum og samningurinn um réttindi barnsins.
Tryggja þarf mannúðlega nálgun og stefnumótun
Mikil þörf er á aukinni skaðaminnkandi stefnumótun til framtíðar. Stefnumótunin felst fyrst og fremst í því að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum neyslu ávana- og vímuefna, til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild. Fólk með fíknivanda ætti að nálgast af nærgætni, virðingu og með skaðaminnkun að leiðarljósi. Núverandi refsistefna eykur á jaðarsetningu vímuefnaneytenda sem ýtir undir aukinn fíknivanda. Afglæpavæðing vörslu neysluskammta er einn mikilvægasti þátturinn í því að ná árangri í skaðaminnkun.
Auk þess er brýnt að komið verði á fót úrræðum á borð við gagnreyndar forvarnir, fræðslu, viðhalds- og meðferðarúrræði ásamt réttindavernd og réttindaaukningu fyrir vímuefnaneytenda.
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
Ýmis ákvæði í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks áskilja að einstaklingum með fíknivanda séu tryggð ákveðin réttindi og má þar nefna 12., 15., 25., og 28. gr. samningsins.
• 12. gr. áréttar réttinn á að einkstaklingar með fíknivanda séu viðurkenndir hvar sem er sem aðilar að lögum.
• 15. gr. skyldar aðildarríkin til að gera allar ráðstafanir í því skyni að koma í veg fyrir ómannúðlega eða lítillækkandi meðferð eða refsingu.
• 25. gr. áskilur að aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé tryggt.
• 28. gr. Skyldar aðildarríkin til að viðurkenna réttinn til félagslegrar verndar án allrar mismununar.
Að öllu framansögðu bendir ÖBÍ á að það er óumdeilt að fíknivandi er langvinnur sjúkdómur sem leiðir oft til fötlunar. Öll úrræði til skaðaminnkunar draga úr líkum á að svo verði. ÖBÍ – réttindasamtök hvetja því eindregið til að frumvarp þetta verði samþykkt svo fljótt sem auðið er.
Ekkert um okkur án okkar!
Virðingafyllst,
Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður ÖBÍ
Bára Brynjólfsdóttir lögfræðingur ÖBÍ