Skip to main content
AðgengiHúsnæðismálSRFFUmsögn

Stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036. 563. mál.

By 3. júní 2022október 6th, 2022No Comments
Yfirlitsmynd yfir Reykjavík, vetur

Nefndasvið
Austurstræti 8-10
101 Reykjavík

Reykjavík 3. júní 2022

Umsögn ÖBÍ um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036

ÖBÍ fagnar því að fyrir liggi stefnumótandi byggðaáætlun en bendir jafnframt á að fatlað fólk er um 15% þjóðarinnar. Ísland hefur skuldbundið sig til að undirgangast ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, SRFF, og þar með „að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,“ sbr. b-lið, 1. mgr., 4. gr. SRFF.

Lögð er áhersla á að unnið verði að innleiðingu SRFF í áherslu C. um að stuða að sjálfbærri þróun byggða um land allt. Þó er aðeins einu sinni minnst á samstarf við hagsmunasamtök fatlaðs fólks í áætluninni, undir aðgerð A.4. Velferðarnet.

Nánast allar áherslur í aðgerðaáætlun snerta mjög hagsmuni fatlaðs fólks, hvort sem um er að ræða búsetu-, húsnæðis-, heilbrigðis-, félagsþjónustu-, mennta-, aðgengis-, samgöngu- eða upplýsingamál, stafræna þróun, nýsköpun eða annað. ÖBÍ væntir þess að leitað verði til bandalagsins um samstarfs um þessi mál og þá er vert að ræða mögulega aðkomu ÖBÍ að stýrihópi Stjórnarráðsins um byggðamál.

Ábendingar um sértækar áherslur

Æskilegt er að bæta við sérstakri aðgerð um skipan og störf aðgengisfulltrúa í sveitarfélögunum til að fylgjast með að framkvæmdir uppfylli aðgengisþarfir fatlaðs fólks og benda á það sem þarf úrbóta við, sem oft fellur undir úthlutunarskilmála fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs. ÖBÍ tók að sér að aðstoða sveitarfélögin við skipun aðgengisfulltrúa í aðgerð A.3 í framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017-2021 og hefur haldið því áfram með þeim árangri að í dag eru aðgengisfulltrúar starfandi í 44 af 64 sveitarfélögum landsins. Aðgerð um aðgengisfulltrúa inn í byggðaáætlun myndi veita stuðning við þá áherslu og vera sveitarfélögunum hvatning til að hlúa að þessari nýju stöðu.

Brýnt er að íbúar sveitarfélaganna hafi aðgang að sérfræðiþjónustu sbr. áherslur aðgerð A.6. Það á ekki síst við um reglubundna hæfingu og endurhæfingu á borð við sjúkraþjálfun og sálfræðiþjónustu. Þá eru dæmi um að fólk missi endurhæfingarlífeyri við það að eini fagaðilinn á svæðinu flytji á brott.

Samkvæmt aðgerð A.10 á að þróa áfram almenningssamgöngur milli byggða. Samkvæmt nýrri úttekt ÖBÍ telst engin biðstöð á hringveginum uppfylla aðgengisviðmið. Þó er engin áætlun farin af stað með uppbyggingu þeirra og minnkandi fjármagn veitt til samgöngumála samkvæmt fjármálaáætlun. Mikilvægt er að sjá fljótt aðgerðir til að bæta þar úr enda er stefna stjórnvalda að 90% biðstöðva verði aðgengilegar fötluðu fólki árið 2024.

Í aðgerð C.5 er rætt um fjölgun nýbygginga, sérstaklega á köldum svæðum. Setja þarf upp sjóð að norrænni fyrirmynd svo að einstaklingar sem búa í óaðgengilegu húsnæði vegna sinnar fötlunar geti fengið styrk til að breyta húsnæði sínu til að gera það aðgengilegra þannig að þeir geti áfram búið í húsnæðinu sínu en þurfi ekki að flytja búferlum. Einnig er nauðsynlegt að í boði séu styrkir og/eða lán til húsfélaga til að bæta aðgengi að húsnæði fyrir fatlað fólk, svo sem til að setja upp lyftu í sameign. Aðgengilegt húsnæði minnkar þörf fyrir byggingu hjúkrunarheimila og því auðveldara sem einstaklingurinn á með að sækja sér þjónustu út fyrir heimilið þeim mun minna er álagið á heimaþjónustuna.

Í aðgerð C.6 er nefnt að húsnæðisáætlanir sveitarfélaga verði á stafrænu formi. Ekkert er talað um hvernig aðgengið verði að þeim. ÖBÍ telur að mikilvægt sé að aðgengi að húsnæðisáætlununum sé gott þannig að allur almenningur geti kynnt sér þær með auðveldum hætti.

Af gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum SSRF, enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Stefán Vilbergsson, verkefnastjóri
Valdís Ösp Árnadóttir, verkefnastjóri