Skip to main content
Umsögn

Tekjuskattur o.fl. (mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu). 678. mál.

By 23. maí 2022september 27th, 2022No Comments

Efni: Umsögn ÖBÍ um frumvarp um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um almannatryggingar og lögum um húsnæðisbætur (mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu). Fylgiskjal 1011- 678. mál.

Um 1. grein.

Greiðsla sérstaks óskattskylds barnabótaauka, 20 þúsund kr. er jákvætt og mikilvægt skref fyrir barnafólk, þó vissulega mætti upphæðin vera hærri.

Um 2. grein.

Hækkun lífeyris almannatrygginga á miðju ári er mjög þörf aðgerð sem gjarnan mætti beita oftar. Nauðsynin er sérstaklega rík nú sökum stigvaxandi verðbólgu síðustu mánaða og aftur til ársins 2021. Í fjárlögum 2021 var lífeyrir almannatrygginga hækkaður um 3,6% en ársverðbólga þess árs var 5,1%. Í fjárlögum 2022 var lífeyririnn hækkaður um 4,6% og var þá gert ráð fyrir 3,3% verðbólgu á árinu. Uppsöfnuð tólf mánaða verðbólga í apríl 2022 er 7,2% og því rúmlega helmingi hærri en spá og forsendur fjárlagaársins 2022 (3,3%) gerðu ráð fyrir. Verðbólga hefur farið vaxandi í hverjum mánuði frá ágúst síðastliðnum og ekki er útlit fyrir annað en að hún muni aukast næstu mánuði ársins og fara yfir 8% um mitt árið.

Matur, húsnæðiskostnaður og eldsneyti hefur hækkað um a.m.k. sama hlutfall, 7,2% auk annarrar nauðsynjavöru. Þessar verðhækkanir koma verst niður á tekjulágum, sem þurfa að verja mun hærra hlutfalli ráðstöfunartekna sinna til að reyna að standa undir nauðsynjum. Því er ljóst að 3% hækkun nær ekki að halda í við verðbólgu. Hérna er því um að ræða nauðsynlega lágmarksaðgerð, en betur má ef duga skal. Hækkun framfærsluviðmiðs um 3% í krónutölum er tæpar 8.400 kr. eða úr 279.886 kr. í 288.283 kr. á mánuði.

Frá 1. apríl sl. er greiddur 10.500 kr. hagvaxtarauki á taxta og mánaðarlaun, þ.á.m. lágmarkslaun. Með því eykst enn kjaragliðnunin margumrædda milli örorkugreiðslna og lágmarkslauna. Þeirri þróun verður að snúa við.

Örorkugreiðslur verði hækkaðar almennt til að leiðrétta vanáætlaða verðbólgu á árinu og svo verði örorkulífeyririnn (grunnlífeyririnn) hækkaður sérstaklega um sömu upphæð og lágmarkslaun eða 10.500 kr.

Fordæmi fyrir því að hækka lífeyri almannatrygginga í tengslum við kjarasamninga er t.d. árið 2011.

Um 3. grein. 

Samkvæmt leigukönnun sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) lét framkvæma árið 2021 hefur hlutfall leigu af ráðstöfunartekjum aukist á milli ára. Meðalhlutfall leigukostnaðar af ráðstöfunartekjum er 44% sem gefur til kynna mjög mikla greiðslubyrði vegna leigukostnaðar. Það er því nauðsynleg aðgerð að hækka grunnfjárhæð húsnæðisbóta líkt og lagt er til í frumvarpi þessu. Benda má á að grunnfjárhæð húsnæðisbóta hefur einungis verið breytt einu sinni síðan lögin voru sett og varð það með reglugerð nr. 1197/2017 sem tók gildi 1. janúar 2018. Þá hækkuðu grunnfjárhæðir húsnæðisbóta um 4,7%. Í reynd eru ákvæði um endurskoðun grunnfjárhæða skv. 16. gr. laganna og fjárhæða frítekjumarka skv. 17. gr. laganna samhljóða og því réttast að álykta að sömu forsendur og þar með sama hlutfallslega hækkun hefði átt að gilda fyrir hækkanir grunnfjárhæða eins og frítekjumarka. Miðað við það hefði hækkun grunnfjárhæða átt að vera um 53,3% til dagsins í dag en ekki bara 4,7%.

Þrátt fyrir ofangreint leggur ÖBÍ aðeins til að grunnfjárhæð húsnæðisbóta hækki um 15% í stað 10% til að halda í verðlag síðustu ára.

Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 75/2016 segir að við útreikning húsnæðisbóta skuli lækka grunnfjárhæðir skv. 2. mgr. 16. gr. um fjárhæð sem nemur 9% af samanlögðum árstekjum heimilismanna. Þrátt fyrir skýrt lagaákvæði þar um segir í 14. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 að lækka skuli grunnfjárhæð um sem nemur 11% af samanlögðum árstekjum heimilismanna. Skerðingarhlutfallið var hækkað með breytingarreglugerð nr. 1156/2019 sem tók gildi 1. janúar 2020. Þó það séu reglugerðarheimildir/-ákvæði í lögum nr. 75/2016 er varða grunnfjárhæðir og frítekjumörk þá er ekki að finna heimild til að breyta skerðingarhlutfallinu með reglugerð. Fyrirhuguð lagabreyting um að 11% skerðingarhlutfall gildi frá 1. janúar 2022 er því á skjön við skýrt núgildandi ákvæði laga nr. 75/2016 og felur í reynd í sér skerðingu afturvirkt. Ljóst er að þetta hefur mikla þýðingu fyrir þá sem eru yfir núverandi frítekjumörkum.

ÖBÍ bendir á að aðgerðir vanti fyrir fólk sem tók lán á lágum vöxtum undanfarin tvö ár vegna lækkana stýrivaxta Seðlabanka og lágra húsnæðislánavaxta viðskiptabankanna. Það er nauðsynlegt að koma til móts við þann hóp sem er með mjög lágar tekjur en náði samt að komast inn á eignamarkaðinn. Það fólk er nú með mun hærri greiðslubyrði en lagt var upp með vegna skarprar hækkunar stýrivaxta, verðbólgu og breytilegra vaxta hjá viðskiptabönkum. Ætla má að margir lendi í greiðsluerfiðleikum vegna þessa. Aðgerðir þyrftu að koma til handa þessu fólki t.d. með því að lengja í lánum þannig að eignamyndun verði minni svo að fólk haldi húsnæði sínu.

Að gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Bergþór Heimir Þórðarson, varaformaður ÖBÍ
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi ÖBÍ
Valdís Ösp Árnadóttir, verkefnastjóri ÖBÍ


Umsögnin var send til Nefndasviðs Alþingis 23. maí 2022