Skip to main content
HúsnæðismálUmsögn

6. mál. Uppbygging félagslegs húsnæðis

By 18. febrúar 2022september 1st, 2022No Comments

Velferðarnefnd Alþingis
Austurstræti 8-12
150 Reykjavík

18. febrúar 2022

Umsögn ÖBÍ um tillögu til þingsályktunar um uppbyggingu félagslegs húsnæðis. Þingskjal 6 – 6. mál.

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) tekur undir þingsályktunar tillögu þessa. Mikill skortur er á félagslegu húsnæði um land allt sem löngu er orðið nauðsynlegt bregðast við. Leiguverð og húsnæðisverð hefur hækkað mikið síðastliðin ár, mikill húsnæðisskortur er á höfuðborgarsvæðinu. Lágtekjufólk hefur ekki efni á að kaupa húsnæði og leiga á almennum markaði er mjög há. Samkvæmt leigukönnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) 2021 greiða 70% örorkulífeyrisþega yfir 30% ráðstöfunartekna sinna í leigu. Af þeim hópi greiða tæplega 30% yfir 50% ráðstöfunartekna sinna í leigu.

Í 28. gr samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) er lögð áhersla á „rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara, þar á meðal viðunandi fæðis, klæða og húsnæðis“. Það felur meðal annars í sér að „tryggja fötluðu fólki aðgang að húsnæðiskerfi á vegum hins opinbera“. Einnig segir í 11 heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna að eigi síðar en árið 2030 geti allir orðið sér úti um fullnægjandi og öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði.

Til að stjórnvöld uppfylli samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður að marka skýra stefnu í húsnæðismálum fólks sem hefur lægstu tekjurnar. Langir biðlistar eru eftir félagslegu húsnæði hjá sveitarfélögum um land allt, Brynju-hússjóði ÖBÍ og Bjargi leigufélagi. Fatlað fólk bíður jafnvel svo árum skiptir eftir húsnæði. Sveitarfélög verða að stórauka framboð á húsnæði fyrir tekju- og efnalitlar fjölskyldur þar sem húsnæðisöryggi er ein af undirstöðum velferðar. Samkvæmt könnun HMS 2021 hefur hlutfall þeirra sem eru á leigumarkaði og telja sig ekki búa við húsnæðisöryggi aukist úr 16,1 í 18,9 prósent. Það hefur m.a. gríðarleg áhrif á börn að alast ekki upp við húsnæðisöryggi og þurfa að flytja jafnvel oft á milli hverfa eða sveitarfélaga. Mikilvægt er að vekja athygli á því að árið 2020 bjó um þriðjungur örorkulífeyrisþega á leigumarkaði en hlutfallið var mun lægra hjá fólki í fullu starfi á vinnumarkaði eða um 12%.

Samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga 40/1991 skulu sveitarstjórnir „eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.

Það er nauðsynlegt að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu myndi heildræna sýn og móti sameiginlega stefnu varðandi uppbyggingu félagslegs húsnæðis. Núna fer mikill meirihluti stofnfamlaga eða um 70% til húsnæðisuppbyggingar í Reykjavík. Gott væri að upplýsingar um núverandi fjölda félagslegra leiguíbúða verði aðgengilegri. Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga þurfa að vera skýrari til að hægt sé að átta sig á stefnu þeirra.

Að gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Valdís Ösp Árnadóttir, verkefnastjóri ÖBÍ