Skip to main content
AlmannatryggingarUmsögn

650. mál. Almannatryggingar (afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna)

By 9. júní 2021september 1st, 2022No Comments
Alþingi 
Nefndasvið 
Austurstræti 8-12 

150 Reykjavík 

Reykjavík, 1. júní 2021 

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands um frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 (afnám skerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna), þingskjal 1117 – 650. mál.   

ÖBÍ styður og leggur áherslu á afnám skerðinga elli-, örorku- og endurhæfingarlífeyris almannatrygginga vegna atvinnutekna. Frumvarp um afnám skerðinga vegna atvinnutekna þyrfti því að vera víðtækara og ná til allra lífeyrisþega. Örorkulífeyrisþegar eru á aldrinum (18-66 ára) þar sem atvinnuþátttaka fólks er hvað mest. Mikilvægt er að fólk, einnig þeir sem eru með skerta starfsgetu, fái tækifæri til atvinnuþátttöku og hagnist á atvinnuþátttöku sinni. Kanna þarf vel samfélagslegan ávinning af því að afnema skerðingar lífeyrisgreiðslna vegna atvinnutekna. Ætla má að atvinnuþátttaka lífeyrisþega muni aukast í kjölfarið og þar með einnig skatttekjur ríkissjóðs.  Með aukinni atvinnuþátttöku gætu örorkulífeyrisþegar bætt ráðstöfunartekjur sínar og auk þess náð að leggja meira fyrir í lífeyrissjóð og þar með bætt stöðu sína fyrir efri árin.  

Áhrif tekjuskerðingar vegna atvinnutekna  

Þrátt fyrir frítekjumark vegna atvinnutekna fyrir örorkulífeyrisþega, sem er 1.315.200 kr. á ári (fyrir skatt), eru tekjuskerðingar vegna atvinnutekna miklar og hafa í raun aukist verulega. Frítekjumarkið hefur verið óbreytt frá árinu 2009. Á meðan frítekjumarkið stendur í stað og laun á vinnumarkaði hækka, þá skila launahækkanir sér ekki til örorkulífeyrisþega. Ef frítekjumark vegna atvinnutekna hefði hækkað í samræmi við hækkun launavísitölu frá árinu 2009, þá væri frítekjumarkið 2.873.068 kr.1  á ári í stað 1.315.200 kr. nú eða tæp 240 þús kr. á mánuði í stað 109.600 kr.   

Auk þess skerða atvinnutekjur (fyrir skatt) framfærsluuppbótina frá fyrstu krónu. Tekjuskerðingar framfærsluuppbótar fór úr 100% í 65% 1. janúar 2019. Lækkun skerðingarhlutfallsins var skref í rétta átt, en tekjuskerðingar eru enn mjög miklar og jaðarskattar mjög háir. Þetta fyrirkomulag verður til þess að fólk getur ekki aukið ráðstöfunartekjur sínar þrátt fyrir að hafa tekjur annars staðar frá, s.s. atvinnu-, lífeyrissjóðs-, eða fjármagnstekjur. Upphæðir skerðinga og skatta renna til baka til ríkissjóðs, eins og sjá má á töflu 1. Fólki með mjög takmarkaða starfsgetu, er refsað grimmilega fyrir hvern vott til sjálfsbjargarviðleitni.  Tæp 30% öryrkja eru með einhverjar atvinnutekjur. Fyrir utan það að flækja kerfið allverulega er 65% tekjuskerðing frá fyrstu krónu á framfærsluuppbótina ávísun á fátækt.  

Tafla 1.  
Dæmi um skerðingu vegna atvinnutekja (2021)  

Framfærslu- 

Viðmið* 

Atvinnutekjur eftir frádrátt 

4% iðgjalds  

Skerðing 

Staðgreiðsla 

Til ráðstöfunar 

Heildartekjur fyrir skatt 

Skerðing og skattur 

276.762 

36.250 

240.512 

276.762 

36.250 

276.762 

48.000 

31.200 

41.533 

252.029 

324.762 

72.733 

*Greiðslur til öryrkja sem fékk fyrst mat 40 ára, engar aðrar tekjur, án heimilisuppbótar. 4% iðgjald er 2.000 kr.  

Reiknivél á heimasíðu TR var notuð til útreikning 

Vinnusamningar og „krónufall“ 

Örorkulífeyrir fellur niður ef einstaklingur er með tekjur annars staðar frá, t.d. atvinnutekjur yfir 413.962 kr. á mánuði. Ef atvinnutekjur fara yfir þá upphæð þarf örorkulífeyrisþegi að endurgreiða allar örorkulífeyrisgreiðslur á almanaksárinu. Ef viðkomandi er með vinnusamning, þá fellur samningurinn jafnframt úr gildi, sbr. dæmin hér að neðan.  

Dæmi 1.  

Einstaklingur var í starfi og fékk 400 þúsund krónur fyrir skatt í laun og eftir frádrátt iðgjalds. Eftir kjarasamningsbundna hækkun fóru laun hans yfir 414 þúsund með þeim  afleiðingum að örorkulífeyrir frá TR  féll niður og þar af leiðandi vinnusamningur öryrkja. Atvinnurekandinn réð starfsmanninn á þeim forsendum að vinnusamningur fylgdi. Starfsmaðurinn varð að velja um að vera sagt upp eða fara í lægra starfshlutfall. Í þessu tilfelli er ljóst að þau skilyrði sem sett eru fyrir vinnusamningi öryrkja skerða atvinnumöguleika sem og takmarka tækifæri til þess að vaxa í starfi og fá fyrir það sanngjörn laun.  

Dæmi 2.  

Reynslumikill og vel menntaður maður sem var að snúa aftur á vinnumarkað eftir veikindi fékk hlutastarf og sambærileg laun og aðrir á vinnustaðnum. Þröng skilyrði vinnusamnings öryrkja varð til þess að hann vinnur einungis nokkra mánuði á ári til þess að vera undir þeirri upphæð sem örorkulífeyrir fellur niður við. Með því móti á hann ekki möguleika á nýta starfsgetu sína, menntun og reynslu til fulls og er ekki fullgildur starfsmaður á vinnustaðnum.  

Jaðarskattur 

Eins og dæmið á undan sýnir (tafla 1) eru lífeyrisþegar að greiða tekjuskatt eins og aðrir auk þess sem atvinnutekjur skerða lífeyri og tengdar greiðslur frá almannatryggingum.  

Tafla 2.  
Dæmi um skatt og skerðingar af 200 þús kr. atvinnutekjum*  

Framfærslu- 

viðmið 

Atvinnutekjur eftir frádrátt 4% iðgjalds 

Skerðing 

Staðgreiðsla 

Til ráðstöfunar 

Heildartekjur 

fyrir skatt 

Skerðing og skattur 

276.762 

36.250 

240.512 

276.762 

36.250 

276.762 

192.000 

91.442 

69.715 

307.605 

474.762 

161.157 

* 4% iðgjalds er 8.000 kr. Útreikningur miðast við fyrsta mat við 40 ára aldur. Reiknivél á heimasíðu TR var notuð til útreikninga.  

Lokaorð  

Núverandi tekjuskerðingar í almannatryggingakerfinu taka af lífeyrisþegum möguleika þeirra til að bæta fjárhagsstöðu sína m.a. með atvinnutekjum. Núverandi tekjuskerðingar halda fjölda lífeyrisþegum í fátækt. Fólk sem er jaðarsett hefur minni möguleika til samfélagsþátttöku og þar af leiðandi minni möguleika til lífs til jafns við aðra. Það að halda fólki í fátækt er pólitískt val.  

Ekkert um okkur án okkar.  

 

Með vinsemd og virðingu, 

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi ÖBÍ  

 


Nánari upplýsingar um málið og feril þess