101 Reykjavík
Reykjavík, 28. maí 2021
Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæðum um tilgreinda séreign (lágmarkstryggingavernd o.fl.) 700. mál – þingskjal 1179.
Vísað er til frumvarps fjármála- og efnahagsráðherra um breytingu á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæðum um tilgreinda séreign, sbr. 700. mál á 151. löggjafarþingi 2020-2021. Af hálfu Öryrkjabandalags Íslands er athugasemd gerð við að bandalagið hafi ekki fengið frumvarpið sent til umsagnar þrátt fyrir að efni þess varði hagsmuni öryrkja. Um leið óskar ÖBÍ eftir því að koma eftirfarandi ábendingum á framfæri við efnahags- og viðskiptanefnd af þessu tilefni.
Eins og fram kemur í hjálagðri skýrslu um kjör lífeyrisþega leiðir af samspili laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og laga nr. 90/2003 um tekjuskatt við lög nr. 100/2007 um almannatryggingar og lög nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, að öryrkjar sem eru með á bilinu 100.000 til 400.000 krónur á mánuði frá lífeyrissjóðum halda eftir um 10-11.000 krónum í auknar ráðstöfunartekjur af hverjum 50.000 krónum sem þeir fá aukalega frá lífeyrissjóði eftir skerðingar og skatt.
Með því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar eru ekki gerðar breytingar á þessu fyrirkomulagi heldur er þessum óhóflegu skerðingum, sem gera að nánast engu þann ábata sem öryrkjar geta haft af því að hafa aflað sér lífeyrisréttinda í lífeyrissjóði, viðhaldið. ÖBÍ ítrekar athugasemdir sínar við þetta fyrirkomulag og hvetur til þess að það verði tekið til gagngerrar endurskoðunar samhliða þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu.
Í frumvarpinu er lagt til að sá hluti lífeyrissparnaðar sem sé tilkomin vegna tilgreindrar séreignar komi ekki til skerðingar á lífeyrisgreiðslum almannatrygginga. Úttekt séreignasparnaðar/viðbótarlífeyrissparnaðar skerðir almennt ekki bætur skv. lögum um almannatrygginga eða félagslega aðstoð. Hins vegar skerðir útgreiðsla séreignasparnaðar sérstöku framfærsluuppbótina sem greidd er örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum skv. 2. mgr. 9. greinar laga nr. 99/2007. Tekjuskerðingin er 65%. Ef örorkulífeyrisþegi tekur út 400.000 kr. séreignasparnað er tekjuskerðing vegna úttektarinnar tæp 260.000 kr. til viðbótar við 129.000 kr. staðgreiðslu af úttektinni.
Þann 30.3.2020 voru samþykkt lög á Alþingi nr. 25/2020, þar sem þessu var breytt tímabundið með bráðabirgðaákvæði sem gilti til 1. janúar 2021. Ákvæðið hefur ekki verið framlengt. ÖBÍ leggur ríka áherslu á útgreiðslna alls séreignasparnaðar/viðbótar-lífeyrissparnaðar skerði ekki sérstaka framfærsluuppbót né aðra greiðsluflokka sem greiddir eru skv. lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 og lögum um félagslega aðstoð nr. 99/2007.
Verði frumvarpið að lögum munu lífeyrisgreiðslur almannatrygginga til einstaklinga skerðast að jöfnu vegna lífeyristekna sem lífeyrisþegi hefur úr lífeyrissjóðum, nema vegna tilgreindrar séreignar og viðbótariðgjalds til séreignarsparnaðar. Í gildandi lögum skerðast lífeyrisgreiðslur almannatrygginga ekki ef lífeyrisþegi fær greiðslur til að mynda úr frjálsri eða bundinni séreign sem myndast af lágmarksiðgjaldi til lífeyrissjóða.
Í 1. grein frumvarpsins er lagt til að upphafsviðmiðunaraldur þegar réttindaávinnsla til ellilífeyris hefst, sem nú er frá 16 ára aldri, verði hækkaður í 18 ár. Samkvæmt greinargerðinni með frumvarpinu er það til samræmis við réttindaávinnslu til ellilífeyris í lögum um almannatryggingar. ÖBÍ bendir á að í 17.gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 er miðað við 16 ára aldur og ávinnast full réttindi með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Ekki er ljóst hvort breytingartillaga um hækkun upphafsviðmiðunaraldur eigi einnig að ná til örorkulífeyris. ÖBÍ leggur til að halda upphafsaldrinum óbreyttum til að einstaklingar haldi réttindum sínum. Um leið minnir ÖBÍ á að skattskylda hefst á 16. aldursári.
ÖBÍ telur einnig rétt að minna á ítrekaðar athugasemdir sínar við ákvæði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 129/1997 þar sem réttur til framreiknings örorkulífeyris úr lífeyrissjóði er takmarkaður ef orkutap er talið eiga rætur að rekja til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna. Við þetta ákvæði, sem almenn samstaða er um að felur í sér verulega tímaskekkju og frávik frá nútímaviðhorfum til fíknisjúkdóma, verður ekki lengur unað. ÖBÍ hvetur efnahags- og viðskiptanefnd eindregið til þess að gera breytingar á frumvarpinu í þá veru að niðurlag 2. mgr. 15. gr. laga nr. 129/1997 falli brott, enda felst í því bein og ólögmæt mismunun í garð einstaklinga sem haldnir eru fíknisjúkdómum sem leitt hafa til orkutaps.
Atvinnulausir og öryrkjar sem ekki eru á vinnumarkaði1 geta ekki nýtt sér úrræði séreignarsparnaðar til afborgunar við fyrstu íbúðarkaup eða til niðurgreiðslu íbúðarláns. Eingöngu einstaklingar á vinnumarkaði hafa tækifæri á því að greiða í séreignarsparnað og nýta þannig þau úrræði sem séreignarsparnaðurinn býður upp á. Hlutfall öryrkja í leighúsnæði er hærra en annarra hópa og er fer sparnaður þeirra dvínandi.
Vegna þessa aðstöðumunar er vert að skoða að veita lífeyrisþegum skattaafslátt ef þeir nýta þann séreignarlífeyrissparnað sem þeir geta tekið út til að endurfjármagna íbúðarlán, t.d. til að viðhalda eigninni.
Að síðustu telur ÖBÍ rétt að minna á þær athugasemdir sem bandalagið hefur áður gert við þá framkvæmd lífeyrissjóða að skerða greiðslur til sjóðfélaga vegna greiðslu barnalífeyris á grundvelli laga nr. 100/2007. Með þessari framkvæmd, sem tekin var upp einhliða og að óbreyttum lögum, er gengið á rétt þeirra barna sem barnalífeyrir er greiddur vegna. Nauðsynlegt er að tekið verði á þessu með lagabreytingu.
ÖBÍ leggur áherslu á að markmið frumvarps af því tagi sem hér liggur fyrir hlýtur að vera að stuðla að eðlilegra og réttlátara lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn, jafnt þá sem hafa skerta starfsorku sem aðra. Fyrirliggjandi frumvarp tekur ekki á því misrétti sem felst í núverandi kerfi og stuðlar þannig ekki að þessu markmiði.
ÖBÍ er reiðubúið að senda fulltrúa sína á fund nefndarinnar til að skýra ábendingar sínar nánar og svara spurningum nefndarmanna.
Ekkert um okkur án okkar.
f.h. ÖBÍ,
formaður ÖBÍ
- Minnisblað, dags. 20.4.2021.
- Lífeyriskerfið – Skýrsla II: Kjör lífeyrisþega