150 Reykjavík
Reykjavík, 3. desember 2020
Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um þingsályktunartillögu um menntastefnu fyrir árin 2020-2030, þingskjal 310-278. mál.
Afar mikilvægt er að stjórnvöld móti skýra stefnu í menntamálum. ÖBÍ fagnar því að í tillögunni sé tekið fram að allir eigi að hafa jöfn tækifæri til náms því allir geti lært og allir skipta máli, það á að vera leiðarljósið í menntamálum á Íslandi.
A.1. Nám við allra hæfi.
Það er jákvætt og löngu tímabært að tekin sé upp sú stefna að skólar og aðrar menntastofnanir taki mið af þörfum, getu og hæfni sérhvers nemanda og vinni út frá styrkleikum og áhuga hvers og eins í stað þess að nemendur eigi að passa inn í „kassa“ skólakerfisins.
A.2. Menntun um allt land
Búseta á ekki að hefta möguleika til náms en dæmi eru um að fjölskyldur fatlaðra barna hafi neyðst til að flytja búferlum í þeim tilgangi að fá nauðsynlegan stuðning fyrir barn sitt í skólakerfinu. Gleðilegt er að nýta eigi tæknina til að tryggja nám óháð búsetu en í mörgum tilfellum er hægt að veita ýmsa faglega þjónustu í gegnum netið, til að mynda talþjálfun. Í 24. grein Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF) kemur fram að aðildarríkin eigi að tryggja:
A.4. Snemmbær stuðningur
ÖBÍ fagnar því að lögð sé áhersla á snemmbæran stuðning. Lengi hefur verið barist fyrir því að börn fái stuðning og þjónustu um leið og þörf skapast. Of langir biðlistar eftir greiningum, sem hefur til þessa verið forsenda stuðnings, veldur því að börn hafi ekki fengið viðeigandi stuðning og hafa þar af leiðandi misst af tækifærum til náms og þroska sem dregur úr möguleikum þeirra í framtíðinni. Börn á landsbyggðinni líða sérstaklega fyrir skort á þjónustu þar sem í mörgum tilfellum er ekki boðið upp á greiningar í heimabyggð. Framboð af sérmenntuðum fagaðilum er einnig oft af skornum skammti og því eru auknar líkur á að möguleikar þeirra barna til náms skerðist verulega.
Til þess að ná þessu markmiði þarf að stórauka aðkomu og samstarf fagfólks í skólakerfinu, þar má til að mynda nefna þroskaþjálfa, iðjuþjálfa, talmeinafræðinga og sálfræðinga. Auk þess þarf að auka stuðning við nemendur sem á honum þurfa á að halda. Í 24. grein SSRF kemur fram:
B.1. Kennaramenntun og nýliðun
Ekki er nægjanlegt að mótaðar verði leiðir til að koma í veg fyrir kennaraskort. Til þess að kennaramenntun styðji við menntastefnuna verður að innleiða aukna áherslu á skóla fyrir alla, mikilvægi faglegrar samvinnu, auka þekkingu á fötlunum og röskunum, mikilvægi einstaklingsbundinnar námskrár, viðeigandi aðlögunar, notkunar óhefðbundinna tjáskiptaleiða og einstaklingsmiðaðra kennsluaðferða. Kennarar eru fyrirmyndir og því mikilvægt að þeir séu ekki einsleitur hópur heldur endurspegli það samfélag sem við búum í með tilliti til t.d. fötlunar, kyns, kynhneigðar og uppruna. Í 24. grein SSRF kemur fram að:
B.5. Fjölbreytileiki
ÖBÍ tekur heilshugar undir það að menntakerfi framtíðar kalli á aukna nýsköpun, mikla samvinnu og aðkomu fólks með fjölbreytta sérþekkingu við mótun menntakerfisins.
C.1. Læsi
Það er rétt að læsi er lykill að lífsgæðum og eflir þátttöku í lýðræðissamfélagi. Mikilvægt er að horfa til þess að tjáskiptaaðferðir eru mismunandi og er nauðsynlegt að koma til móts við þá sem notast við óhefðbundnar tjáskiptaleiðir, tala táknmál og lesa punktaletur. Í 24. grein SSRF kemur fram að aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafnir, meðal annars að:
C.2. Framþróun íslenskunnar
ÖBÍ fagnar því að íslenska og íslenskt táknmál eigi að vera notað á öllum sviðum samfélagsins og framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi verði tryggð. Til að ná því markmiði þarf að stórefla táknmálskennslu og auka til muna námsefni fyrir heyrnarlausa nemendur og bæta aðgengi heyrnarskertra nemenda að námi. Í 24. grein SSRF kemur fram að aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafnir, meðal annars að
C.4. Starfs-, iðn- og tækninám
ÖBÍ fagnar því að leggja eigi aukna áherslu á starfs-, iðn- og tækninám og að námið þróist í takt við áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar. Mikilvægt er að koma til móts við þarfir fatlaðs fólks sem áhuga hafa á þessum námsleiðum með því að veita þeim viðeigandi aðlögun. Sérstaklega mætti horfa til fólks með þroskahömlun og fjölga starfsbrautum sem hafa að leiðarljósi að veita nemendum sérhæfða þjálfun á þeirra áhugasviði. Með því móti geta þeir nemendur aukið starfsmöguleika sína, nýtt styrkleika sína og tekið þátt í samfélaginu á eigin forsendum.
C.7. Stafræn tilvera
Ánægjulegt er að þjálfa eigi nemendur í upplýsinga-, miðla- og tæknilæsi, auka þekkingu á persónuvernd og læra um örugg stafræn samskipti. Sérstaklega mikilvægt er að fræða fatlaða nemendur um persónuvernd þar sem reynslan sýnir að fatlað fólk er oft krafið um ítarlegri persónulegri upplýsingar en ófatlað fólk. Fræðsla um ábyrga nethegðun og örugg stafræn samskipti er mikilvæg sérstaklega í ljósi þess að fatlað fólk er í aukinni hættu varðandi misnotkun og ofbeldi á netinu.
C.8. Menntun alla ævi
Mikilvægt er að allir hafi aðgang að menntun óháð æviskeiði og hafi tækifæri til að bæta við sig þeirri menntun sem þarf til að takast á við örar breytingar í atvinnulífinu. Tryggja þarf aðgengi allra að símenntun og því brýnt að úrræði eins og Fjölmennt og Hringsjá fái fjármagn og tækifæri til þess að laga sig að breyttum aðstæðum í samfélaginu. Einnig þarf að tryggja að fólk sem fatlast og getur af þeim orsökum ekki nýtt það nám sem það hefur þegar aflað sér fái tækifæri til menntunar á öðru sviði með viðeigandi aðlögun. Í 24. grein SSRF kemur fram að aðildarríkin skulu tryggja:
D.1. Heilsuefling
Góð líðan skiptir miklu máli í lífinu og er afar mikilvægt að nemendum stafi ekki ógn af andlegu, líkamlegu, kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi, áreitni og einelti. Að lenda í ofbeldi af einhverju tagi getur haft gríðarlegar afleiðingar og því brýnt að taka slík mál föstum tökum um leið og þau skapast. . ÖBÍ leggur einnig til að setja fram fræðsluáætlun varðandi fatlanir og raskanir í því skyni að breyta viðhorfum starfsfólks og samnemenda.
D.2. Geðrækt
ÖBÍ tekur undir það að sóknarfæri til að efla geðheilsu eru einna mest í æsku. Undanfarin ár hefur verið gríðarlegt ákall frá nemendum og samfélaginu öllu um betri geðheilbrigðisþjónustu og nauðsynlegt er að stórbæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu í skólakerfinu.
D.4. Náms- og starfsráðgjöf
Náms- og starfsráðgjöf er nauðsynleg til þess að nemandi geti fengið aðstoð við að taka ákvarðanir varðandi námsmöguleika og framtíð. Leggja verður áherslu á að náms- og starfsráðgjafar veiti nemendum fullnægjandi upplýsingar um rétt sinn varðandi stuðningsúrræði á öllum skólastigum en dæmi eru um að fatlaðir nemendur hætti í skóla vegna skorts á upplýsingum eða komist að því seint á námsferlinum hvaða úrræði standa þeim til boða. Í 4. grein SSRF kemur fram að aðildarríkin skulu tryggja:
D.5. Rödd nemenda
ÖBÍ er sammála því að meira sé hlustað á nemendur og að áhrif þeirra verði aukin innan skólakerfisins. Það er sérstakt fagnaðarefni að auk Barnasáttmálans eigi að innleiða Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks inn í skólastarf og býður ÖBÍ sig fram til samstarfs um hvernig best er að koma að þeirri framkvæmd. Í 7. grein SSRF kemur fram að aðildarlöndum beri að:
D.6. Vellíðan allra
Gott er að hamingja og vellíðan allra eigi að vera í öndvegi og tryggja eigi að enginn sé undanskilinn. Til þess að þetta reynist ekki einungis falleg orð á blaði verður að fylgja ítarleg aðgerðar- og fræðsluáætlun. ÖBÍ hvetur til þess að slík áætlun verði gerð í fyrsta áfanga menntastefnunar.
E.1. Ábyrgð og samhæfing þjónustukerfa
Lengi hefur verið ákall á aukna samvinnu kerfa og eru ýmis tákn um breytingar í jákvæða átt. Mörg frumvörp liggja fyrir Alþingi sem miða að því að samþætta þjónustu við börn og er það vel. Til þess að stuðningskerfin virki á sem bestan hátt fyrir nemandann verður að stórefla alla faglega þjónustu og samvinnu. Með það að markmiði að veita hverjum og einum nemanda tækifæri til að þroska hæfileika sína og styrkleika og geta með því móti aflað sér góðrar menntunar og tekið þátt í samfélaginu á eigin forsendum.
E.2. Aðalnámskrár sem styðja við menntastefnu
Það er jákvætt að aðalnámskrá eigi að endurspegla menntastefnuna og tryggja eigi þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist. Ánægjulegt er að í boði eigi að vera fjölbreytt námsgögn sem taki mið af möguleikum stafrænnar miðlunar og margbreytileika nemenda. Framleiðsla á námsgögnum fyrir fatlaða nemendur hefur verið af skornum skammti og því gleðilegt að til standi að breyta því til batnaðar. Í því ástandi sem samfélagið býr við núna í COVID-19 faraldrinum sjáum við að hægt er að koma til móts við nemendur með tækninni. Nemendur sem hafa fötlunar sinnar vegna ekki getað stundað skólann fá viðeigandi aðlögun og geta sumir hverjir loksins fengið upptökur af kennslustundum sem þeir geta nýtt sér þegar þeim hentar. Tækifærin til að gefa öllum möguleika á námi á því formi og aukinn sveigjanleiki er fyrir hendi og því ber að fagna og nýta eftir faraldurinn. Þó er mikilvægt að hafa í huga að hlúa þarf sérstaklega að þessum hópi þegar kemur að samskiptum og félagsfærni. Þekkt er að nemendur með fatlanir og raskanir eru í aukinni hættu á félagslegri einangrun og er nauðsynlegt að skólakerfið bregðist við því með skipulögðum hætti.
E.4. Væntingar til nemenda
Ánægjulegt er að menntakerfið eigi að bjóða upp á sveigjanleika og veita öllum nemendum viðeigandi stuðning í námi og leik. Til að ná því markmiði verður að stórauka fræðslu, stuðning og mannafla í skólakerfinu.
E.5. Væntingar til foreldra
Vissulega er rétt að samstarf milli heimilis og skóla sé mikilvægt. Hins vegar búa ekki öll börn við þær aðstæður að foreldrar hafi getu til að taka ábyrgð á námi barna sinna. Sumir foreldrar hafa ekki burði til að aðstoða börn sín við heimanám eða að berjast fyrir réttindum þeirra varðandi stuðningsúrræði. Réttur barns til menntunar á eigin forsendum á að vera á ábyrgð skólayfirvalda en ekki foreldra.
E.6. Stöðugar umbætur og gæðastarf
ÖBÍ er sammála því að efla þurfi mat á skóla- og fræðslustarfi. Skoða þarf ítarlega hvernig gæðum í skólastarfi er skipt. Tölfræði varðandi fötluð börn er af skornum skammti og því ánægjulegt að safna eigi upplýsingum um gæði skólastarfs.
E.7. Skilvirk ráðstöfun fjármuna
ÖBÍ tekur undir það að menntakerfið þurfi að vera vel fjármagnað enda menntun ein forsenda farsældar barna til framtíðar. Tryggja þarf nægt fjármagn fyrir stoðþjónustu og einstaklingsbundnar kennsluaðferðir til að gefa öllum börnum raunverulega jöfn tækifæri til náms. Í menntastefnunni er lögð áhersla á jöfn tækifæri sem er afar jákvætt og gott veganesti fyrir framtíðina. Til þess að tryggja að efndir fylgi fögrum fyrirheitum er nauðsynlegt að fylgja stefnunni vel eftir, hafa regulegt eftirlit og samráð við börn, hagsmunasamtök, foreldrasamtök og aðra aðila sem málið varðandi innleiðingu stefnunar.
Afar ánægjulegt er að innleiða eigi að Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks inn í skólastarf. ÖBÍ fagnar framkomu þingsályktunartillögunar og hvetur til þess að hún verði samþykkt.
Ekkert um okkur án okkar.