Félagsmálaráðuneytið
Skógarhlíð 6
105 Reykjavík
Reykjavík, 24. júní 2020
Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands um drög að stefnu um barnvænt Ísland, mál nr. 109/2020.
ÖBÍ fagnar því að unnið sé að stefnu þar sem hugað er að ólíkum þörfum einstaklinga og stuðlar að jöfnum tækifærum barna og ungmenna til þátttöku án mismunar af nokkru tagi.
Ábendingar varðandi tillögur:
1. Samræming þátttöku, hagsmunamats og innleiðingar réttinda barna
Gleðilegt er að innleiða eigi sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins innan stjórnsýslunar þvert á allar stofnanir og stjórnsýslustig. Lagt er til að einnig verði horft til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF) við innleiðinguna og er vísað í 7. gr. SSRF „ aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fötluð börn fái notið fullra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við önnur börn“.
2. Lagabreytingar og alþjóðlegar skuldbindingar er varða börn
Tryggja á samræmi milli Barnasáttmálans og íslenskrar löggjafar. Lagt er til að SSRF verði einnig lagður til grundvallar í endurskoðun laganna.
4. Fullgilding þriðju valfrjálsu bókunarinnar við Barnasáttmálann
Mikilvægum áfanga í réttindum barna verður náð með því að tryggja aðgengi barna að kvörtunarferli Barnaréttarnefndarinnar. Tryggja þarf að ferlið taki tillit til mismunandi tjáskiptaleiða og sé auðskiljanlegt og aðgengilegt.
6. Fræðsla um þátttöku og réttindi barna
Setja á saman 3ja ára fræðsluáætlun í þeim tilgangi að efla þekkingu t.d. lögreglu, heilbrigðisstarfsfólks, starfsfólks dómstóla, lögmanna, félagsráðgjafa, starfsfólks á vettvangi skóla og frítíma sem og kjörnum fulltrúum á hagnýtum gildum og skyldum sem Barnasáttmálanum fylgja. Lagt er til að SSRF verði einnig með í fræðsluáætluninni.
8. Farsældarmælaborð – tölfræði um velferð og réttindi barna á Íslandi
Skortur er á tölfræði um fötluð börn á Íslandi. Lagt er til að mælaborðið taki saman tölfræðigögn um fötluð börn með markvissum hætti til að hægt sé að sjá raunverulega stöðu fatlaðra barna í íslensku samfélagi.
10. Samráðsvettvangur barna og ungmenna við stjórnvöld á Íslandi
Jákvætt er að stofna eigi samráðsvettvang þar sem börnum gefst tækifæri á að taka þátt í virku samráði við stjórnvöld. Fram kemur að markvisst eigi að ná til jaðarsettra og viðkvæmra hópa barna. Tryggja þarf að samráðsvettvangurinn sé aðgengilegur öllum hópum barna og er vísað í 29. gr. SSRF „ vinna skal ötullega að mótun umhverfis þar sem fatlað fólk getur tekið virkan og fullan þátt í opinberri starfsemi, án mismununar og til jafns við aðra, og hvetja til þátttöku þess í opinberri starfsemi“.
11. Samráðsgátt stjórnvalda og aðgengi barna að upplýsingum
Því ber að fagna að samráðsgátt stjórnvalda eigi að vera aðgengileg börnum og ungmennum. Fram kemur að upplýsingar verði settar fram með einföldu orðalagi en huga þarf að öðrum aðgengisþáttum. Í 21. gr. SSRF er lögð sú skylda á aðildarríkin að tryggja að fatlað fólki geti nýtt sér rétt sinn til tjáningar- og skoðanafrelsis og „láta fötluðu fólki í té upplýsingar sem almenningi eru ætlaðar í aðgengilegu formi og með aðgengilegri tækni sem hæfir einstaklingum með mismunandi fötlun“.
12. Barnvæn sveitarfélög
Stefnt er að því að öll sveitarfélög á Íslandi hefji markvissa innleiðingu Barnasáttmálans á næstu tíu árum og samhliða því verði þróaður innleiðingarstaðall verkefnisins. Lagt er til að við þróun staðalsins verði lögð áhersla á stöðu fatlaðra barna og réttinda þeirra.
Ekkert um okkur án okkar!
Þuríður Harpa Sigurðardóttir
Formaður Öryrkjabandalags Íslands