Skip to main content
Umsögn

407. mál. Húsnæðisbætur (heildarlög)

By 2. júní 2020No Comments
Alþingi
Nefndasvið
Austurstræti 8-12

150 Reykjavík

Reykjavík, 22.1.2016 

Efni:   Umsögn Öryrkjabandalags Íslands um frumvarp til laga um húsnæðisbætur, þingskjal 565 – 407. mál.  

Almennar athugasemdir

Frumvarp um húsnæðisbætur er mjög umfangsmikið en við yfirferð þess kom ýmislegt í ljós sem þarfnast nánari skoðunar. Hér verður greint frá fyrstu viðbrögðum bandalagsins við frumvarpinu, en ÖBÍ áskilur sér rétt til þess að skila inn ítarlegri umsögn um frumvarpið og einstakar greinar þess síðar.

Fyrirkomulag stuðnings við leigjendur varðar stóran hóp örorkulífeyrisþega. Um  fjórðungur þeirra, sem fær greiddar húsaleigubætur eru örorkulífeyrisþegar. Frá 2007 hefur hlutfall örorkulífeyrisþega og langveikra á leigumarkaði hækkað mun meira en annarra, sbr. fylgiskjal 1

Húsaleigubætur hafa lækkað að raungildi

Upphæðir húsaleigubóta eru lágar og vantar mikið upp á að þær feli í sér raunverulega kjarabót fyrir þá sem þurfa mest á þeim að halda. Lágar tekjur takmarka enn fremur mjög möguleika fólks á að festa kaup á eigin húsnæði.

Því voru vonir bundnar við að nýtt kerfi húsnæðisbóta myndi bæta hag þeirra sem eru með verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað, þ.e. leigjenda sem greiða meira en 40% af ráðstöfunartekjum sínum í kostnað vegna húsnæðis.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til lækkunar höfuðstóls húsnæðisskulda náðu ekki til fólks á leigumarkaði, þó svo að efnahagshrunið hafi einnig haft veruleg áhrif á lífskjör þeirra. Húsaleiga á almennum markaði fylgir gjarnan hækkun vísitölu neysluverðs og á það einnig við um félagslegt leiguhúsnæði. Húsaleigubætur hafa hins vegar lækkað mjög að raungildi á undanförnum árum, sem ekki eru vísitölutryggðar. Frá apríl 2008 hafa grunnfjárhæðir húsaleigubóta aðeins hækkað í tvígang og samtals um 3.000 kr.

Tillaga ÖBÍ að ákvæði um hækkanir fjárhæða og viðmiða

ÖBÍ leggur áherslu á að í lögin verði sett ákvæði um að grunnfjárhæðir og frítekjumörk fyrir húsnæðisbætur fylgi hækkunum vísitölu neysluverðs. Í frumvarpinu sem hér er til umsagnar vantar mikið upp á að tekið sé á þessum þáttum. Ákvæði frumvarpsins um árlega endurskoðun eru mjög óljós og gefa mikið svigrúm fyrir ákvörðunarvald ráðherra (sjá nánar undir umfjöllun um 15., 16. og 17 gr. frumvarpsins).

Tillaga:

Lagt er til að eftirfarandi ákvæði verði sett inn í frumvarpið: Grunnfjárhæð húsnæðisbóta og fjárhæðir frítekju- og eignamarka skulu í upphafi hvers árs taka breytingu í réttu hlutfalli við mismun á vísitölu neysluverðs við upphaf og lok næstliðins tólf mánaða tímabils. 

Frítekjumörk, reiknistuðlar og grunnfjárhæðir í frumvarpinu eru of lágar. Frítekjumörkin fyrir einstakling skv. frumvarpinu eru 2.700.000 kr. (heildarárstekjur) eða um 150.000 kr. hærri en tekjuviðmið í núverandi húsaleigubótakerfi og voru ekki hækkuð við endurflutning frumvarpsins. Þessar viðmiðanir sem og reiknistuðlar fyrir fjölda heimilismanna (sjá umfjöllun um 16. gr. frumvarpsins) þyrftu að hækka umtalsvert til að húsnæðisstuðningur við tekjulága leigjendur hækki að raungildi.

Sérstakar húsaleigubætur

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi hvað varðar sérstakar húsaleigubætur. Sveitarfélögunum er því áfram í sjálfsvald sett hvort þau greiða þær eða ekki. Væntingar ÖBÍ stóðu til þess að réttur einstaklinga til sérstakra húsaleigubóta, til viðbótar við húsnæðisbætur, yrði lögfestur. Með því móti yrði tryggt jafnræði íbúa landsins óháð því í hvaða sveitarfélagi viðkomandi býr og óháð búsetuformi eða því hver leigusalinn er. Sérstakar húsaleigubætur eru mikilvægur stuðningur við leigjendur sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður og knöpp lífskjör. Ef hópur þeirra sem fær sérstakar húsaleigubætur er greindur eftir atvinnustöðu eru örorkulífeyrisþegar langsamlega stærsti hópurinn eða 37,6% samkvæmt skýrslu um útgreiðslu húsaleigubóta.[1]

 

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins

Um 2. gr. Markmið.

Ekki verður séð að markmið laganna að lækka húsnæðiskostnað hjá efnaminni leigjendum með greiðslu húsnæðisbóta náist með frumvarpi þessu og þá sérstaklega þegar litið er til stöðu lífeyrisþega og þeirra sem búa fleiri saman á heimili,  sbr. töflu og umfjöllun um 15. gr. og 16. gr. frumvarpsins.

Útreikningur húsnæðisbóta í frumvarpinu miðast við fjölda og tekjur heimilismanna óháð aldri og fjölskyldugerð. Með því móti er komið í veg fyrir að heimili missi greiðslur við það eitt að ungmenni verði 18 ára. Hér er um að ræða skref í þá átt að gera ungmennum kleift að búa áfram í foreldrahúsum eftir 18 ára aldur, þó svo að tekjur og eignir ungmennisins komi inn í útreikning húsnæðisbóta. Dæmi eru um að heimili lágtekjufólks verði af umtalsverðum greiðslum við 18 ára aldur ungmennis.

Auk viðbótar við húsaleigubætur falla aðrar greiðslur tengdar börnum niður. Slíkt getur skapað mikinn vanda hjá lágtekjufólki.[2] 

Í núgildandi lögum um húsaleigubætur eru tekjur barna umsækjenda sem eru 20 ára og eldri meðtaldar við útreikning. Í frumvarpinu er lagt til að miða við tekjur og eignir ungmenna við 18 ára aldur, sem er afturför. Líta skal til þess flest börn eru í framhaldsskóla til 20 ára aldurs. 

Tillaga:

Lagt er til að húsnæðisbætur verði greiddar áfram þar til börn og ungmenni, sem eru án vinnu og búa hjá öðru foreldri eða báðum, hafi náð 25 ára aldri, samanber skilgreiningu á börnum á heimili (e. dependent children) sem EUROSTAT og Hagstofa Íslands notar. 

Um 5. g. Framkvæmdaaðili

Framkvæmdaraðila er skv. frumvarpinu ætlað að meta hvort einstaklingur/umsækjandi búi sannarlega þar sem hann er með skráð lögheimili. Hvergi kemur fram hvernig mat á því hvar viðkomandi búi sannarlega eigi að fara fram.

Ákvörðunarvald um lögheimili og skráningu í sambúð er hjá Þjóðskrá Íslands skv. núgildandi lögum. Þjóðskrá er það stjórnvald sem best er til þess fallið að taka slíkar ákvarðanir. Enginn sérstakur rökstuðningur er færður fyrir því í athugasemdum frumvarpsins hvers vegna lagt er til að framkvæmdaaðili fái slíkt ákvörðunarvald. Þvert á móti er gagnrýnivert að stjórnvaldi er veitt vald til þess að leggja upp forsendur ákvörðunar og taka þær í sömu málum.

Í umræðunni hefur verið rætt um að  vaxta- og húsaleigubætur verði sameinaðar í eitt kerfi húsnæðisbóta. Í frumvarpinu er lagt til að það verði ekki gert að svo stöddu. Því er spurt hvort ekki hafi komið til álita að húsnæðisbætur, eins og vaxtabætur, eigi að heyra undir ríkisskattstjóra.

Um 8. gr. Mánaðarlegar greiðslur húsnæðisbóta

ÖBÍ tekur undir athugasemd við 10. gr. fyrra frumvarpsins í umsögn Leigjendaaðstoðar Neytendasamtakanna (dags.14.8.2015) um að farsælast væri að allir aðilar að húsaleigusamningi/ meðleigjendur geti valið að sækja um húsnæðisbætur, hver og einn fyrir sig. Það getur skapað margvísleg vandamál ef einn aðili á að skipta húsnæðisbótum á milli meðleigjenda.

Enn fremur er sanngjarnt og eðlilegt að hver og einn geti valið að vera metinn út frá sínum eigin en ekki samanlögðum tekjum.

Um 9. gr. Skilyrði húsnæðisbóta

ÖBÍ leggur til þá breytingu á frumvarpinu að meðleigjendur eigi val um að sækja um hver í sínu lagi. Með því móti er réttur einstaklingsins virtur og sú ábyrgð er ekki lögð á umsækjendur að nauðsynlegar upplýsingar frá meðleigjendum liggi fyrir hverju sinni. 

ÖBÍ tekur undir athugasemdir í umsögn Leigjendaaðstoðarinnar við fyrra frumvarpið við c) lið ákvæðisins. Í hópi lífeyrisþega eru ófáir einstaklingar sem búa einir og leigja herbergi, þar sem þeir hafa einfaldlega ekki efni á öðru húsnæði. Vandséð er hvers vegna þessi hópur er undanskilinn rétti til húsnæðisbóta, auk þess sem það er í ósamræmi við markmið laganna um að lækka húsnæðiskostnað til efnaminni leigjenda. Húsnæðisbætur til þessa hóps gætu verið lægri, enda ódýrara að leigja herbergi en íbúð.

Jákvætt er að taka út skilyrði um að skyldleiki leigusala og leigjenda geti komið í veg fyrir að leigjandi geti átt rétt á húsnæðisbótum.

Um 10. gr. Undanþága frá skilyrðum um búsetu

Jákvætt er að fallið er frá skilyrði um að nám sé stundað í öðru sveitarfélagi og að undanþágur frá skilyrðum um búsetu sem fram koma undir lið a), b) og c) séu lögfestar.

Í 2. mgr. ákvæðisins er ennfremur að finna jákvæða breytingu frá núgildandi lögum, um að foreldrar eða forsjáraðilar, sem ekki búa saman, geti átt rétt á húsnæðisbótum vegna barns, að uppfylltum skilyrðum um lágmarkstíma á ári. Mikilvægt er að koma til móts við foreldra sem hafa farið á mis við húsnæðisstuðning sökum þess að lögheimili barns er skráð hjá hinu foreldrinu.

Um 15 gr. Heimild til upplýsingaöflunar

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að húsnæðisstuðningur verði ekki greiddur fyrr en skriflegt samþykki umsækjanda um öflun upplýsinga liggi fyrir. Ekki verður séð hvers vegna slíkt ákvæði er talið nauðsynlegt þegar hægt er að fá niðurstöðu með öðrum hætti. Einfaldasta leiðin gæti verið sú að hafa útgreiðslur á hendi ríkisskattstjóra og byggja upp kerfið með sama hætti og vaxtabótakerfið.

Um 16. gr. og 17. gr. Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta og skerðing þeirra vegna tekna

Í skýrslu vinnuhóps um húsnæðisbætur á vegum velferðarráðuneytisins er meðal annars að finna reiknistuðla, sem sýna hvernig húsnæðiskostnaður þróast með fjölda heimilismanna. Við gerð stuðlanna nýtti vinnuhópurinn samræmda skilgreiningu Eurostat á heildarhúsnæðiskostnaði og gögn úr lífskjararannsókn Hagstofu Íslands. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að „lagt er til að húsnæðisbætur taki mið af þeim stuðlum“, þ.e. ofangreindum stuðlum úr skýrslu vinnuhópsins. Stuðlarnir í frumvarpinu fyrir heimili með fleiri en einn einstakling eru hins vegar lægri en stuðlarnir sem vinnuhópurinn reiknaði út. Í töflu 1 er að finna samanburð á stuðlunum:

Tafla 1. Samanburður á stuðlum í skýrslu vinnuhóps og frumvarpinu

 

Vinnuhópur um húsnæðisbætur

Frumvarp um húsnæðisbætur

 

Fjöldi heimilismanna

Stuðull

Breyting

Stuðull

Breyting

Stuðull í frumvarpinu er lækkaður um:

1

1

 

1

 

–           

2

1,4

0,4

1,2

0,2

0,2

3

1,7

0,3

1,45

0,25

0,25

4

2,0

0,3

1,65

0,2

0,35

5

2,1

0,1

1,75

0,1

0,35

6 eða fleiri

2,2

0,1

–           

0,45

 

Sökum þess að grunnfjárhæðir húsnæðisbóta eru margfaldaðar með stuðlunum, verða lægri stuðlar til þess að tekjuskerðing er mun meiri en ella, þ.e. hjá öllum heimilum með fleiri heimilismenn en einn. Í athugasemdum við 15. gr. frumvarpsins segir að ástæðan fyrir því að ekki þótti fært að fara að öllu leyti eftir stuðlunum í skýrslu vinnuhópsins sé að lögð hafi verið áhersla á að jafna stuðning við leigjendur við húsnæðisstuðning í vaxtabótakerfinu. Með því móti er jafnað niður á við og kemur það verr niður á fjölmennari heimilum.

Reiknistuðlar húsnæðisbóta, sem vinnuhópur um húsnæðisbætur lagði fram, byggja á útreikningum á kostnaðarþróun heimila eftir fjölda heimilismanna. Í frumvarpinu er hins vegar ekki varpað ljósi á það út frá hvaða útreikningum stuðlarnir eru útbúnir eða ákvarðaðir eða hvaða gögn liggja hér að baki. ÖBÍ sendi því fyrirspurn til velferðarráðuneytisins í júní sl. um útreikning reiknistuðlanna í frumvarpinu. Í svarbréfi velferðarráðuneytisins, dags. 17. nóvember 2015, segir að með hliðsjón af því fjármagni sem til var að dreifa í umræddum málaflokki þótti ekki fært að fara að öllu leyti eftir þeim stuðlum sem lagðir voru til í skýrslu vinnuhóps um húsnæðisbætur.

Eðlilegra væri að forgangsraða í þágu efnaminni leigjenda í samræmi við yfirlýst markmið frumvarpsins.

Mjög lítill munur er á stuðlum fyrir einstakling (1) og þar sem tveir eru í heimili (1,2). Kostnaðarauki vegna húsnæðis fyrir tvo einstaklinga umfram einn er meiri en 0,2, sbr. útreikninga vinnuhópsins. Af þessu leiðir að hjón eða sambýlisfólk hafa ekki hag af því að búa saman. Tekjuskerðingar hefjast er heildartekjur tveggja eru einungis 20% hærri en heildartekjur einstaklings. Útfærsla í frumvarpinu veldur því að stuðullinn hækkar mjög lítið við hvern viðbótar heimilismann. Til að mynda er stuðullinn fyrir fjóra heimilismenn einungis 1,65 eða 0,65 hærri en fyrir einstakling.  

Til að koma til móts við hlutfallslega hærri húsnæðiskostnað heimilis þegar fleiri búa saman þarf því að hækka stuðlana fyrir fjölda heimilismanna umfram einn, sbr. útreikninga vinnuhóps um húsnæðisbætur.

Frítekjumörk of lág

Frítekjumörk skv. frumvarpinu eru einfaldlega of lág til að ná markmiði laganna skv. 2. gr. þ.e. að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda með greiðslu húsnæðisbóta.  Í raun bætir frumvarpið litlu við húsnæðisstuðning þess hóps sem því er ætlað að ná til og því minna eftir því sem fjölskyldumeðlimirnir eru fleiri, sbr. dæmin hér að neðan.

Frumvarpið er endurflutt án þess að gera ráð fyrir hækkun frítekjumarka, sem eru áfram 2.700.000 kr. í árstekjur eða 225.000 kr. á mánuði og án þess að hækka  grunnfjárhæð (372.000 kr. á ári eða 31.000 kr. á mánuði). Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál frá 28.5.2015, segir að húsnæðisbætur, þ.e. grunnfjárhæð og frítekjumark verða hækkaðar á árunum 2016 og 2017, en þær hækkanir  koma ekki fram í frumvarpinu.

Frítekjumörkin eru 225.000 kr. á mánuði eða um 20 þús. kr. undir lágmarkslaunum sem samið var um á árinu 2015. Ef taka ætti mið af umsömdum lágmarkslaunum þyrfti frítekjumark fyrir einstakling að vera 3.120.000 kr. fyrir árið 2016 að viðbættum orlofs- og desemberuppbótum. Auk þess er vert að geta þess að tekjur lægsta tekjufimmtungs fyrir árið 2014 var um 280.000 kr. sem sýnir enn og aftur hvað fríterkjumarkið er lágt.

Frítekjumörkin eru enn fremur það lág að lífeyrisþegar, sem eru eingöngu með lífeyri almannatrygginga sér til framfærslu, myndu fá skertar húsnæðisbætur, sbr. dæmin hér að neðan sem sýna breytingar á húsnæðisstuðningi á árinu 2016 ef frumvarpið yrði að lögum óbreytt. Dæmin eru reiknuð út frá heildartekjum á árinu 2016 og að ekki sé tekið tillit til fjölda heimilismanna sbr. 31. gr. frumvarpsins (Gildistaka). Í útreikningum í frumvarpinu var hins vegar reiknað út frá árstekjum 2015. Undir lífeyrisþegi falla elli-, örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar.

Dæmi 1. Lífeyrisþegi, barnlaus

Lífeyrisþegi sem býr einn og er ekki með neinar aðrar tekjur en lífeyrisgreiðslur frá TR (tekjur við framfærsluviðmið[3]) myndi fá 28.687 kr. á mánuði í húsnæðisbætur.  Húsnæðisstuðningur myndi hækka úr 22.000 kr. í 28.687 kr. eða um 6.687 kr. á mánuði.

Dæmi 2. Hjón – bæði lífeyrisþegar, barnlaus

Hjón, bæði lífeyrisþegar og með engar aðrar tekjur en lífeyrisgreiðslur frá TR (tekjur við framfærsluviðmið[4]), myndu fá 20.220 kr. á mánuði í húsnæðisbætur. Húsnæðisstuðningur myndi lækka úr 22.000 kr. í 20.220 kr. eða um 1.780 kr. á mánuði.

Dæmi 3. Hjón – bæði lífeyrisþegar með 1 barn

Hjón, bæði lífeyrisþegar og með engar aðrar tekjur en lífeyrisgreiðslur frá TR (tekjur við framfærsluviðmið), myndu fá 27.970 kr. á mánuði í húsnæðisbætur ef þau eru með eitt barn. Húsnæðisstuðningur myndi lækka úr 36.000 kr. í 27.970 kr. eða um 8.030 kr. á mánuði.

Dæmi 4. Hjón – bæði lífeyrisþegar með 2 börn.

Hjón, bæði lífeyrisþegar og með engar aðrar tekjur en lífeyrisgreiðslur frá TR (tekjur við framfærsluviðmið), myndu fá 34.170 kr. á mánuði í húsnæðisbætur ef þau eru með tvö börn. Húsnæðisstuðningur myndi lækka úr 44.500 kr. í 34.170 kr. eða um 10.330 kr. á mánuði.

Dæmi 5. Hjón – bæði lífeyrisþegar með 3 börn.

Hjón, bæði lífeyrisþegar og með engar aðrar tekjur en lífeyrisgreiðslur frá TR (tekjur við framfærsluviðmið), myndu fá 37.270 kr. á mánuði í húsnæðisbætur ef þau eru með þrjú börn. Húsnæðisstuðningur myndi lækka úr 50.000 kr. í 37.270 kr. eða um 12.730 kr. á mánuði.

Dæmi 6. Einstætt foreldri, lífeyrisþegi, með eitt barn undir 18 ára aldri

Lífeyrisþegi sem býr með barni sínu og er ekki með neinar aðrar tekjur en lífeyrisgreiðslur frá TR (tekjur við framfærsluviðmið) myndi fá 34.887 kr. á mánuði í húsnæðisbætur. Húsnæðisstuðningur myndi lækka úr 36.000[5] kr. eða um 1.113 kr. á mánuði.

Dæmi 7. Einstætt foreldri, lífeyrisþegi, með tvö börn undir 18 ára aldri

Lífeyrisþegi sem býr með börnum sínum og er ekki með neinar aðrar tekjur en lífeyrisgreiðslur frá TR (tekjur við framfærsluviðmið) myndi fá 42.637 kr. á mánuði í húsnæðisbætur. Húsnæðisstuðningur myndi lækka úr 44.500[6] kr. eða um 1.863 kr. á mánuði.

Dæmi 8. Einstætt foreldri, lífeyrisþegi, með þrjú börn undir 18 ára aldri

Lífeyrisþegi sem býr með börnum sínum og er ekki með neinar aðrar tekjur en lífeyrisgreiðslur frá TR (tekjur við framfærsluviðmið) myndi fá 49.197 kr. á mánuði í húsnæðisbætur. Húsnæðisstuðningur myndi lækka úr 50.000[7] kr. eða um 803 kr. á mánuði.

Undir mati á áhrifum frumvarpsins segir orðrétt: „Verði frumvarpið að lögum verður húsnæðisstuðningur við leigjendur almennt aukinn verulega.“ Niðurstöðurnar úr dæmunum sýna hvernig frumvarpið kemur við tekjulága lífeyrisþega á leigumarkaði.  Ef frumvarpið nær fram að ganga óbreytt mun húsnæðisstuðningur til þeirra lækka umtalsvert á árinu 2016.

Í nýrri skýrslu UNICEF Réttindi barna á Íslandi: Börn sem líða efnislegan skort[8] kemur m.a. eftirfarandi fram:

a) Börn sem eiga foreldra sem eru í hálfu starfi eða minna eru margfalt líklegri til að líða skort en börn þeirra sem vinna meira.

b) Börn leigjenda eru mun líklegri til að líða skort á öllum sviðum. Tæplega 9.000 börn líða skort á sviði húsnæðis á Íslandi.

c) Mestur skortur árið 2014 mældist hjá börnum foreldra í lægsta tekjubilinu. 22,5% barna á Íslandi sem eiga foreldra í lægsta tekjubilinu líða skort á sviði húsnæðis.

d) Hátt hlutfall barna einstæðra foreldra á Íslandi líður skort á sviði húsnæðis: Alls 25,9% þeirra. Það er miklu hærra hlutfall en hjá öðrum heimilisgerðum.

Örorkulífeyrisþegar eru líklegri en aðrir þjóðfélagsþegnar til að vera í leiguhúsnæði, og hefur hlutfall þeirra á leigumarkaði hækkað mun meira en annarra frá 2007. Auk þess er meginþorri örorkulífeyrisþega með tekjur í lægsta tekjubilinu (1-20%) og í minna en hálfu starfi. Er virkilega ætlunin með frumvarpinu að skerða kjör þessa hóps, sbr. dæmin hér að ofan?

Tillaga:

Til þess að raunverulega verði komið til móts við efnaminni leigjendur er lagt til að frítekjumark sé ekki lægra en 300.000 kr. og að húsnæðisbætur falli niður við svipaða upphæð og er í núverandi kerfi (við árstekjur 5.850.000 kr. eða 487.500 kr.) fyrir einstakling. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að húsnæðisstuðningur fyrir einstakling falli niður við árstekjur í kringum 7.330.000 kr. (rúmar 610 þús á mánuði).  Forgangsraða ætti frekar í þágu þeirra sem þurfa þess með að fá þennan stuðning.

Breytt tekjuhugtak leiðir til skerðinga hjá lífeyrisþegum

Ljóst er að sú breyting að allar skattskyldar tekjur heimilismanna 18 ára og eldri teljist til tekna og hafa áhrif á útreikning húsnæðisbóta mun koma illa við marga  lífeyrisþega. Í frumvarpinu er sú breyting rökstudd með því að aðrar greiðslur opinberra kerfa sem ætlaðar eru til framfærslu teljist til tekna (s.s. atvinnuleysisbætur og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga) og að breytingin sé gerð til að gæta jafnræðis.

Ofangreind breyting mun leiða til þess að tekjur skerða grunnfjárhæðir húsnæðisbóta til lífeyrisþega á leigumarkaði, sbr. dæmin hér að ofan, einnig þeirra sem eru með tekjur við framfærsluviðmið TR. Rannsóknir sýna að kjör þessa hóps eru oft á tíðum mjög bágborin og því mun þessi breyting koma illa við hópinn. Hér er enn og aftur jafnað niður á við. Í stað þess að finna leiðir til að efla stuðning við einstaklinga og fjölskyldur sem þurfa að treysta á atvinnuleysisbætur eða fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sér til framfærslu og eru á leigumarkaði, eru tekjutengingar auknar hjá lífeyrisþegum með þeim formerkjum að gæta jafnræðis þessara hópa. Í því sambandi er rétt að geta þess að staða þessara hópa er um margt ólík. Annars vegar er um að ræða úrræði sem er ætlað að vera tímabundin (s.s. atvinnuleysisbætur) og tímabundin neyðarúrræði (fjárhagsaðstoð sveitarfélaga). Hins vegar er um að ræða lífeyrisþega sem eru með framfærslu til lengri tíma, sem vegna aldurs eða afleiðinga sjúkdóma og slysa eru utan vinnumarkaðar eða með lágar atvinnutekjur.

Um 19. gr. Áhrif húsnæðiskostnaðar á grunnfjárhæðir húsnæðisbóta

Í frumvarpinu er lögð til sú jákvæða breyting að húsnæðisbætur geti numið að hámarki 75% af húsnæðiskostnaði (leiguverði), en í núgildandi lögum er hlutfallið 50%.

Lokaorð

Mikilvægt er að húsnæðisstuðningur við tekjulága leigjendur sé aukinn verulega í ljósi aðstæðna á leigumarkaði. Á meðan húsaleiga hefur hækkað verulega undanfarin ár, hafa húsaleigubætur lækkað umtalsvert að raungildi. Því er brýnt að kveðið sé skýrt á um í lögum að húsnæðisstuðningur hækki reglulega í samræmi við hækkun vísitölu neysluverðs, til að tryggja hag tekjulágra einstaklinga á leigumarkaði.

Einnig þarf að hækka reiknistuðla og frítekjumörk frumvarpsins, svo það nái þeim tilgangi að lækka húsnæðiskostnað hjá tekjulágum leigjendum og á það sérstaklega við um heimili með fleiri en einum. Ef frumvarpið fer í gegnum með bráðabirgðaákvæði í 31. gr. (Gildistaka) um að ekki sé tekið tillit til fjölda heimilismanna á árinu 2016 mun það leiða til lækkunar húsnæðisstuðnings til einstæðra foreldra og hjóna með börn, sem eru lífeyrisþegar.

Með frumvarpinu er tekin upp harðari útfærsla tekjuskerðinga gagnvart lífeyrisþegum, sem bitnar á lífeyrisþegum með börn, en breyting þessi er gerð með tilvísun til aukins jafnræðis milli lágtekjuhópa. Ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt mun réttur örorkulífeyrisþega og barna þeirra, til húsnæðisstuðning verða skertur með afar grimmum hætti eins og sjá má á dæmum í frumvarpinu sjálfu og dæmum í umsögn þessari. Gengur slíkt þvert gegn tilgangi frumvarpsins og myndi bitna á börnum örorkulífeyrisþega, sem og öðrum börnum, sem nú þegar líða skort sbr. niðurstöður nýrrar skýrslu UNICEF. Er ætlun alþingismanna virkilega sú að skerða kjör þessa hóps?

Í þessari umsögn hefur aðeins verið drepið á fáeinum álitamálum sem upp hafa komið við yfirferð frumvarpsins. ÖBÍ áskilur sér rétt til að senda inn aðra og ítarlegri umsögn síðar.

Ekkert um okkur án okkar.

Með vinsemd og virðingu,

Ellen Calmon
Formaður ÖBÍ

[1] Skýrsla um útgreiðslu húsaleigubóta. Höfundur Kolbeinn Stefánsson. Skýrslan var unnin fyrir samráðsnefnd um framkvæmd laga og  reglugerða um húsnæðisbætur.

[2] Í skýrslu ÖBÍ Virkt samfélag er lagt til að heimilisuppbót skv. lögum um félagslega aðstoð verði greidd áfram til lífeyrisþega ef ungmenni 18-21 ára býr á  heimilinu og er með tekjur undir ákveðnu tekjubili. Dæmi eru um að ungmenni flytji að heiman við 18 ára aldur til að foreldri missi ekki heimilisuppbót og hefur það einnig leitt til þess að ungt fólk hverfi frá námi. http://www.obi.is/media/utgafa/Virkt-samfelag_net.pdf

[3] Heildarárstekjur með desember- og orlofsuppbót væri 3.045.186  kr. (fyrir skatt) fyrir árið 2016 skv. reiknivél TR.

[4] Samanlagðar heildartekjur hjóna bæði með lífeyri frá TR og engar aðrar tekjur eru 5.234.276 kr. með desember- og orlofsuppbót (fyrir skatt) fyrir árið 2016.

[5] Inni í þessari tölu eru 22.000 kr. húsaleigubætur og 14.000 kr. viðbót vegna fyrsta barns.

[6] Inni í þessari tölu eru 22.000 kr. húsaleigubætur og 14.000 kr. viðbót vegna fyrsta barns og 8.500 kr. viðbót vegna annars barns. 

[7] Inni í þessari tölu eru 22.000 kr. húsaleigubætur og 14.000 kr. viðbót vegna fyrsta barns og 8.500 kr. viðbót vegna annars barns og 5.500 kr. viðbót vegna þriðja barns.

[8]http://unicef.is/sites/unicef.is/files/atoms/files/unicef_rettindi_barna_efnislegur_skortur_medal_barna_0.pdf


Umsögnin (PDF) á vef Alþingis