Reykjavík, 21. apríl 2020
Fyrr á árinu tilkynnti Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra að hann hyggðist mæla fyrir lagabreytingum um að flokkun sorps verði samræmd á landsvísu.
Málefnahópur ÖBÍ um aðgengi styður þær fyrirætlanir og leggur áherslu á mikilvægi þess að sorp sé flokkað á sama hátt og að uppröðun flokkunaríláta sé jafnan eins á landsvísu til að auðvelda fötluðu fólki s.s. blindu og sjónskertu, þroskahömluðu fólki og fólki með hverskonar heilaskaða. Samræmd uppröðun myndi gagnast öllum, í dag eru flokkunarílát einungis aðgreind með litum, sem auðvitað virka ekki fyrir blint fólk.
Í dag er engin umgjörð um samræmingu við sorpflokkun og það fer eftir þjónustuaðila hvað má fara í tunnurnar og hvaða litir tákna hvað.
Það er ruglingslegt fyrir flesta að reyna að átta sig á mismunandi flokkunarreglum eftir því hvar einstaklingur er staddur á landinu, en fyrir blint og sjónskert fólk er það sérstaklega erfitt óháð því hvar það er statt. Litaflokkun gagnast því ekki og þar sem ílátin eru jafnan ekki aðgreind með öðrum hætti og raðast upp eftir hentisemi verður flokkun sorps miklum erfiðleikum háð.
Málefnahópur ÖBÍ um aðgengi leggur til að ekki aðeins verði flokkun sorps, þ.e. hvað fer í hvaða tunnu, samræmd á landsvísu heldur einnig að skylt verði að raða upp sorpílátum með sama hætti alls staðar þar sem sorp er flokkað, alls staðar á landinu.
Þetta á meðal annars við um tunnur við heimili, grenndargáma, á vinnustöðum, í verslunum og veitingahúsum og í sumarbústaðarhverfum.
Einfaldast er að miða við að almennt sorp sé til vinstri, svo komi tunnur fyrir flokkun eftir algengi, svo sem pappír, plast, gler og málmar, ávallt í sömu röð.
Um leið og málefnahópur ÖBÍ um aðgengi hvetur ráðherra til að útfæra þessar kröfur í fyrirhuguðum lagabreytingum um flokkun sorps eru fulltrúar hópsins tilbúnir að koma nánar að þeirri vinnu.
Við bendum á 8. gr. um vitundarvakningu og 9. gr. um aðgengi í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sérstaklega markmiðin um ábyrga neyslu og framleiðslu og sjálfbærar borgir og samfélög.
Ekkert um okkur án okkar!
F.h. málefnahóps ÖBÍ um aðgengi
Virðingarfyllst,