Skip to main content
Umsögn

33. mál Almannatryggingar og félagsleg aðstoð (skerðingarlaus atvinnuþátttaka öryrkja)

By 10. febrúar 2020No Comments
Alþingi
Nefndarsvið
Austurstræti 8-12
150 Reykjavík
 Reykjavík 31. október 2019
 
Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð (skerðingarlaus atvinnuþátttaka öryrkja), 33. mál.
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks felur m.a. í sér rétt fatlaðs fólks til að fá ráðrúm til að afla sér lífsviðurværis með vinnu að eigin vali eða vinnu sem er þegin á frjálsan hátt á vinnumarkaði og í vinnuumhverfi sem fötluðu fólki stendur opið, er án aðgreiningar og er því aðgengilegt.
 
Samkvæmt rannsóknum er einungis þriðjungur örorkulífeyrisþega á vinnumarkaði þrátt fyrir að mun stærri hópur hafi löngun og getu til vera á vinnumarkaði.[1] Fólk nefnir ýmsar hindranir fyrir atvinnuþátttöku. Skerðingar lífeyris vegna atvinnutekna eru nefndar næst oftast sem algengasta hindrunin fyrir atvinnuþátttöku. Síðan 2009 hafa tekjutengingar í almannatryggingakerfinu aukist og frítekjumark vegna atvinnutekna öryrkja verið óbreytt. Á meðan frítekjumarkið stendur í stað og laun á vinnumarkaði hækka, þá skila launahækkanir sér ekki til örorkulífeyrisþega. Ef frítekjumark vegna atvinnutekna hefði hækkað í samræmi við hækkun launavísitölu frá árinu 2009, væri það rúmar 207.000 kr. kr. á mánuði í stað 109.600 kr. í byrjun árs 2019.
 
Í frumvarpinu er lagt til að heimila örorkulífeyrisþegum að afla sér atvinnutekna í tvö ár án þess að þær skerði tilgreinda fjóra bótaflokka, sem samanlagt eru meginuppstaða lífeyrisgreiðsla frá TR til örorkulífeyrisþega. ÖBÍ fagnar þessu frumvarpi og telur að það sé jákvætt og mikilvægt skref í átt að því að fjarlægja ósanngjarnar tekjutengingar í almannatryggingakerfinu og gera fötluðu fólki kleift að njóta fjárhagslegs ávinnings af atvinnuþátttöku sinni. Því ber þó að halda til haga að lausnir á þeim vanda sem snýr að tekjuskerðingum vegna atvinnutekna öryrkja þurfa að vera almennar og ná til lengri tíma en 2ja ára í senn á 10 ára tímabili. Því er lagt til að samhliða ákvæði um tilraun til starfa verði frítekjumark vegna atvinnutekna (1.315.200 kr. á ári) hækkað í samræmi við hækkun launavísitölu frá árinu 2009 og uppfært árlega.
 
Aðgengi fatlaðs fólks að vinnumarkaði þyrfti að bæta mikið samhliða því að draga úr tekjuskerðingum vegna atvinnutekna. Til að tryggja atvinnuþátttöku allra, á grundvelli jafnræðis þarf samfélagið allt að vinna að breytingum, þar með hinn opinberi- og almenni vinnumarkaður. Stjórnvöld hafa þá skyldu að vinna að inngildum vinnmarkaði fyrir alla (e. inclusive employment market). Aðgerðir þurfa að fylgja sem gera fötluðu fólki betur kleift að fá atvinnu við hæfi og vera á vinnumarkaði án þess að bera kostnað af atvinnuþátttöku sinni og geta aukið ráðstöfunartekjur sína með vinnuframlagi sínu.
 
Núverandi tekjuskerðingar í almannatryggingakerfinu gera örorkulífeyrisþegum mjög erfitt fyrir að reyna að bæta fjárhagsstöðu sína, m.a. með atvinnutekjum. Þær halda fólki í fátækt og á jaðri samfélagsins. Fólk sem er jaðarsett hefur minni möguleika til samfélagsþátttöku og þar af leiðandi á lífi til jafns við aðra. Það að halda fólki í fátækt er pólitískt val.
 
Ekkert um okkur án okkar!
 
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ

[1] Í niðurstöðum könnunarinnar Lífskjör og hagir öryrkja, sem var framkvæmd meðal örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega á Íslandi veturinn 2008-2009 töldu um 84% örorkulífeyrisþega það mjög mikilvægt að þeir hafi möguleika á launaðri vinnu.


 Umsögnin (pdf) á vef Alþingis