Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 4. og 5. október 2019 ályktar um að mikilvægt sé að fólk hafi gott aðgengi að læknisfræðilegri endurhæfingu.
Aðalfundurinn krefst þess að heilbrigðisráðherra flýti boðuðu starfi varðandi mótun stefnu í endurhæfingu, án þess þó að gæði þeirrar vinnu skerðist. Skýr stefna í endurhæfingu á að vera það leiðarljós sem notað er við innkaup slíkrar þjónustu. Fundurinn varar við gerræðislegum vinnubrögðum sem nú virðast uppi um kaup á þjónustu sjúkraþjálfara. Mikilvægar kerfisbreytingar verða að vera unnar í samráði við hagsmunaaðila, kröfur og útboðsgögn vel unnin og tími til þess að vinna verkefnið fyrir hendi. Fundurinn skorar á heilbrigðisráðherra að móta stefnuna fyrst og skoða svo kerfisbreytingu í innkaupum og/eða mótun nýrra samskipta þjónustuveitenda og innkaupa á þjónustunni.