Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Reykjavík, 14. maí 2018
Um samþættingu við aðrar stefnur og áætlanir
Í III. kafla ályktar Alþingi að „náið samráð milli ráðuneyta, stofnana ríkisins, sveitarfélaga, atvinnulífs og borgarasamfélags sé mikilvægt við framkvæmd byggðastefnu.“
Byggðaáætlunin tengist öðrum opinberum áætlunum svo sem geðheilbrigðisáætlun og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks, og þurfa þær að fylgjast að.
Mikilvægt er að samráð við ÖBÍ verði virkt á tímbilinu og samtökunum verði boðið að tilnefna fulltrúa í stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál, sbr. b-lið.
Um einstaka liði í aðgerðaáætlun
Nú voru á síðasta ári sett ný lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017, sem felldu þar með úr gildi lög nr. 73/2017 og reglugerð um fólksflutninga í landi, nr. 528/2002.
Þá var innleidd ESB reglugerð nr. 181/2001 um réttindi farþega í hópbifreiðum. Með þessari gildistöku fylgja auknar kröfur á sérleyfishafa um aðgengi fyrir fatlað fólk að hópferðabílum og samgöngumiðstöðvum.
Skv. 10. gr. ESB gerðarinnar er flutningsaðilum gert skylt að „taka tillit til þessara þarfa, þar sem því verður við komið, þegar teknar eru ákvarðanir um búnað í nýjum eða nýlega endurnýjuðum ökutækjum með fyrirvara um gildandi löggjöf eða framtíðarlöggjöf um tæknilegar kröfur varðandi hópbifreiðar.“ Sama gildri um byggingu eða endurbætur á samgöngumannvirkjum.
Það mun fela í sér að frá 1. júní 2017, þegar lög nr. 28/2017 tóku gildi, er flutningsaðilum óheimilt að kaupa inn ný ökutæki nema að þau séu aðgengilega búin fyrir fatlað fólk. Útboð og samningar þurfa að taka mið af því.
Hér þurfa ábyrgðar- og framkvæmdaraðilar að eiga virkt samráð við ÖBÍ.
Samráð
Í öllum málum sem snerta hagsmuni fatlaðs fólks ber stjórnvöldum að kalla Öryrkjabandalag Íslands að borðinu á fyrstu stigum, enda segja einkennisorð samtakanna: Ekkert um okkur án okkar.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ