Skip to main content
Umsögn

Umsögn Sjálfsbjargar og ÖBÍ um frumvarp til nýrra umferðarlaga (15. mars 2018)

By 25. júní 2019No Comments
Lógó ÖBÍ á bréfsefniSamgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
Sölvhólsgötu 7
101 Reykjavík
 
 

Reykjavík 15. mars 2018

Efni: Umsögn um frumvarp til nýrra umferðarlaga

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur lagt fram drög að frumvarpi til nýrra umferðarlaga, mál nr. S-21/2018. Sjálfsbjörg lsh. og Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) gera eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið.

Ósamræmi í skilgreiningum

Eins og fram kemur í 4. mgr. 2. gr. gilda ákvæði umferðarlaga um gangandi vegfarendur einnig um þann sem sjálfur ekur hjólastól eða samsvarandi tæki. Þannig er hjólastólanotandi í raun skilgreindur sem gangandi vegfarandi. Í skilgreiningu í c—lið, 26. tölul. 3. gr., fellur hjólastóll sem er ekki hannaður til hraðari aksturs en 15 km á klst. hins vegar undir ákvæði um reiðhjól. Í umferðarlögum eiga mismunandi ákvæði við um gangandi vegfarandur og reiðhjólaumferð. Sem dæmi má nefna að gangandi vegfarendur eiga að ganga gegnt umferð, þ.e. við vinstri vegarbrún miðað við gönguátt, sbr. 14. gr.,  en hjólreiðafólk og vegfarendur sem leiða reiðhjól eða létt bifhjól að fara með akstursstefnu, þ.e. meðfram hægri vegarbrún, sbr. 14. og 41. gr. Hér er því óvissa um hvorum megin götu hjólastólanotendur eiga að vera.

Í 2. mgr. 48. gr. segir:

„Enginn má stjórna eða reyna að stjórna ökutæki ef hann vegna veikinda, hrörnunar, ellihrumleika, ofreynslu, svefnleysis eða neyslu áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna eða af öðrum orsökum er þannig á sig kominn að hann er ekki fær um að stjórna ökutækinu örugglega.“

Ef hjólastóll er skilgreindur sem reiðhjól og þar með ökutæki, sbr. 26. og 41. tölul. 3. gr., þá er hjólastólanotendum óheimilt að neyta áfengis eða nota ákveðin lyf þannig að færni þeirra til að stjórna hjálpartækinu skerðist. Samkvæmt 109. gr. er einnig hægt að gera vélknúinn hjólastól upptækan, sem ökutæki, hafi eigandi þess gerst sekur um nota hann ölvaður. Það er vitaskuld jafn fráleitt og ef fólki væri óheimilt að ganga eftir að hafa neytt áfengis eða tekið inn lyf þannig að göngugetan skerðist.

Mikilvægt að benda á að hjólastólar eru fyrst og fremst hjálpartæki, en ekki ökutæki frekar en útlimir gangandi vegfarenda. Þá eru jafnvel öflugustu hjólastólar ekki hraðskreiðari en maður á rösku skokki.

Sú skilgreining sem fellir hjólastóla undir reiðhjólaákvæði laganna kom í umferðarlög með lögum nr. 13/2015 sem fólu í sér innleiðingu EES gerða. Skilgreining hjólastóls sem reiðhjóls var þó ekki að finna í hinum innleiddu EES gerðum heldur var um að ræða að höfundar frumvarpsins töldu nauðsynlegt að taka af allan vafa um hvers konar vél- eða rafknúin ökutæki skyldu teljast til reiðhjóla í skilningi laganna, sbr. skýringar við 1. gr. frumvarpsins. Í þeirri innleiddu EES gerð sem hér á við, tilskipun 2002/24/EB er hins vegar sérstaklega tiltekið að hún taki ekki til hjálpartækja fatlaðra.

Lagt er til að ákvæði umferðarlaga um gangandi vegfarendur eigi jafnan við um hjólastólanotendur og að hjólastólar falli ekki undir skilgreiningu reiðhjóla.

Auðkenni fatlaðs fólks

Í 4. grein er talað um almenna aðgæsluskyldu. í 2. mgr. segir: „Sérstaka tillitssemi skal sýna börnum, öldruðum og þeim sem bera auðkenni fatlaðs fólks eða eru sýnilega sjón- eða heyrnarskertir, fatlaðir eða sjúkir þannig að hái þeim í umferðinni. Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um auðkenni fatlaðs fólks.“ Í k.-lið 35. gr. er einnig talað um „…vegfaranda sem ber auðkenni sjónskertra“.

Það er gott að brýna fyrir ökumönnum að sýna börnum, öldruðum og fólki með fötlun sérstaka tillitssemi eins og hér er gert. En það er í hæsta máta fráleitt að tala um auðkenni í því samhengi. Hvernig ætlar ráðherra að auðkenna fatlað fólk með ákvæðum í reglugerð og hvernig auðkenni á fatlað fólk að bera?

Lagt er til að allt tal um auðkenni verði aflagt í umferðarlögum. Í staðinn má tala um að sýna sérstaka tillitssemi fólki sem er fatlað, sjón- eða heyrnarskert eða sjúkt þannig að sýnilega hái því í umferðinni.

Skilyrði til að mega stjórna ökutæki.

Í 4. mgr. 59. gr. segir: „Ráðherra getur sett reglur um að veita megi fötluðum manni, sem er fullra 15 ára, ökuskírteini til að mega stjórna hægfara vélknúnu ökutæki sem er sérstaklega hannað fyrir fatlað fólk.“

Þetta er undarlegt ákvæði og ekki er að sjá að sambærileg ákvæði séu í gildi annars staðar á evrópska efnahagssvæðinu.

Lagt er til að ákvæðið sé tekið úr úr lögunum og öll áform um að setja sérstakar reglur um að setja aldurstakmark fyrir notendur hægfrara vélknúinna ökutækja sem eru sérstaklega hönnuð fyrir fatlað fólk séu lögð til hliðar.

Gjaldtaka og takmarkanir á notkun negldra hjólbarða

Í 4. mgr., 85. gr.  segir:

Sveitarstjórn er heimilt að ákveða gjald allt að 20.000 kr. vegna notkunar negldra hjólbarða á nánar tilteknum svæðum, fyrir ákveðið tímabil eða ákveðin skipti, að höfðu samráði við Vegagerðina. Utan tímabils er notkun negldra hjólbarða á vélknúnum ökutækjum óheimil.

Beinlínis er gert ráð fyrir því í reglum um gerð og búnað ökutækja að fatlað fólk sé á nelgdum hjólbörðum og það vel nelgdum.

Í þessu sambandi benda á að í reglugerð (822/2004) um gerð og búnað ökutækja segir: 16.101 Ökutæki fyrir hreyfihamlaða.

(1)   Hámarksfjöldi nagla í hverjum hjólbarða bifreiðar fyrir hreyfihamlaða má vera 150, óháð stærð hjólbarðans.

Lagt er til að umrætt ákvæði verði ekki fest í umferðarlög, en en til vara að hreyfihamlaðir ökutækjaeigendur verði undanþegnir þessu ákvæði.

Að lokum

Að gefnu tilefni vilja undirritaðir taka það fram að við undirbúning lagasetningargerðar eins og þessarar ber að hafa virkt samráð við fatlað fólk frá fyrstu stigum, sbr. Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það var ekki gert.

Ekkert um okkur án okkar!

Virðingarfyllst,

f.h. Sjálfsbjargar lsh.
Bergur Þorri Benjamínsson, formaður 
 
f.h. Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ)
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður
Stefán Vilbergsson, verkefnastjóri