Skip to main content
Umsögn

513. mál. Sjúkratryggingar (sálfræðimeðferð). 22. mars 2019

By 24. júní 2019No Comments
Velferðarnefnd Alþingis
Nefndasvið
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
 

Reykjavík, 22. mars 2019

 

Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um breytingu á lögum  um sjúkratryggingar,  (sálfræðimeðferð).

ÖBÍ styður frumvarpið, enda hefur bandalagið lagt mikla áherslu á að sálfræðiþjónusta verði felld undir kerfi greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu. 

Sálfræðimeðferð er lykilþáttur í meðhöndlun ýmissa sjúkdóma og áfalla og er mikilvæg forvörn gegn alvarlegri sjúkdómum. Það er brýnt að fólk með einkenni geðraskana eða sem glímir við aðra andlega eða sálræna erfiðleika hafi greiðan aðgang að sálfræðiþjónustu, en líka fólk sem glímir líkamlega erfiðleika sem þarf oft að vinna á einkennum kvíða og þunglyndis sem geta ágerst ef ekkert er að gert. Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu á fólki að bjóðast sálfræðiþjónusta frekar en lyfjagjöf, sem er dýrt úrræði sem ræðst ekki að rótum vandans.

Meðan sálfræðiþjónusta er utan greiðsluþátttökukerfis er hún ekki raunhæfur kostur fyrir þorra fólks og alls ekki fyrir þá hópa sem eru í mestum áhættuvanda, svo sem örorkulífeyrisþegar, ungt fólk og láglaunafólk.

Það liggur fyrir að fjölga sálfræðingum á heilsugæslustöðvum, svo að þangað sé hægt að sækja 1. stigs sálfræðiþjónustu og fjölga geðheilsuteymum. Það er jákvæð þróun en hún mun ekki duga til að ná utan um uppsafnaðan vanda og mæta þörfinni fyrir sálfræðiþjónustu í samfélaginu.

Fjárfesting í forvörnum og endurhæfingu skilar sér alltaf margfalt til baka í kassann, því það er fjárfesting í fólki og virkni. 

Ekkert um okkur án okkar!
 
Með vinsemd og virðingu,
Emil Thoroddsen
formaður málefnahóps ÖBÍ um heilbrigðismál
 

Umsögnin (PDF) á vef Alþingis