Skip to main content
Umsögn

21. mál. Lögfesting Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. 10. október 2018

By 24. júní 2019No Comments
Alþingi
Nefndasvið
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Reykjavík, 10. október 2019
 

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) við tillögu til þingsályktunar um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þingskjal 21 – 21. mál.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) var gerður eftir að fræðimenn greindu frá því að fatlað fólk átti erfiðara með það en aðrir að fá að njóta réttinda sinna.[1] Tilgangur samningsins er einfaldlega að tryggja fötluðu fólki rétt sem það hefur nú þegar. Með samningum eru réttindi sem þegar eru til staðar í öðrum samningum löguð að hinum eðlilega margbreytileika fólks.
 
ÖBÍ fagnar innilega framkominni tillögu og undirstrikar mikilvægi þess að hún verði samþykkt.
 
Verði tillagan ekki samþykkt eru skýr rök fyrir því að með slíku aðgerðarleysi væri löggjafinn enn og aftur að neita fötluðu fólki um að njóta sjálfsagðra réttinda til jafns við aðra.

Rétturinn verður skýrari

Eins og rakið er í þingsályktunartillögunni er nauðsynlegt, til þess að fatlað fólk geti notið réttar síns til jafns við aðra hér á landi, að samningurinn verði lögfestur. Lögfestingin tryggir að fatlað fólk geti beitt samningnum fyrir dómstólum hér á landi. Öðrum leiðum sem beitt er með skýringaraðferðum lögfræðinnar fela ekki í sér eins trygga stöðu fyrir fatlað fólk hér á landi.

Lögfesting kemur vonandi í veg fyrir mistök síðustu ára

Eftir fullgildingu samningsins hafa lög verið sett hérlendis sem hafa haft það markmið að tryggja efnislegt samræmi á milli SRFF og íslensks réttar, m.a. með breytingu á lögræðislögum og með nýjum lögum um jafna stöðu á vinnumarkaði. Breytingarnar á lögræðislögunum komast því miður ekki nálægt því að vera í samræmi við samninginn. Með frumvörpum til laga um jafna stöðu á vinnumarkaði kom í ljós að ráðuneyti eru enn föst í úreltum hugmyndakerfum sem stangast á við ákvæði samningsins. Lögfestingin verður vonandi til þess að ráðuneyti og löggjafinnberi virðingu fyrir þeim skyldum sem ríkið er bundið af.
 

Aukinn trúverðugleiki á alþjóðavettvangi

Tekið er undir þau orð sem fram koma í þingsályktunartillögunni, að verði samningurinn lögfestur hér á landi þá muni það styrkja íslenska ríkið á alþjóðavettvangi. Ekki er vanþörf á þar sem íslenska ríkið hefur sýnt af sér fádæma skeytingarleysi gagnvart fötluðu fólki á alþjóðavettvangi. Það tók t.d. um 10 ár að fullgilda SRFF, valfrjálsi viðaukinn við SRFF hefur ekki verið fullgiltur, viðauki 12 við Mannréttindasáttmála Evrópu, sem á að tryggja jafnrétti við alla lagasetningu hefur heldur ekki verið fullgiltur. Endurskoðaður Félagsmálasáttmáli Evrópu frá árinu 1996, hefur heldur ekki verið fullgiltur. Einnig hefur tilskipun Evrópusambandsins um bann við mismunun 2000/78 ekki verið gerð að hluta að samningnum um EES.
 

Allt þetta sýnir að vilji ríkið njóta trúverðugleika á alþjóðavettvangi varðandi réttindi almennt og réttindi fatlaðs fólks, þá er af nægu að taka. Lögfesting samningsins yrði bæði mikilvægt og gott skref.

Tekið er undir ábendingarnar í þingsályktunartillögunni

Í þingsályktunartillögunni koma fram mikilvæg atriði sem taka ber undir.

Í fyrsta lagi er tekið undir mikilvægi þess að farið sé vel yfir tillögur og ábendingar sem berast Alþingi. Með samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks samþykktu aðildarríkin að þau væru skuldbundin til að greina og útrýma þeim samfélagslegu hindrunum sem valda því að fatlað fólk fær ekki notið réttinda sinna. Greining á hindrununum næst ekki án þess að rætt sé við fatlað fólk. Því er það algjör grundvallarskylda aðildarríkja að tryggja virkt samráð og beita sér fyrir útrýmingu þeirra hindrana sem þeim hefur (ítrekað) verið bent á.

Í öðru lagi er það ábending um skyldu ríkisins að setja á stofn sjálfstæða mannréttindastofnun til þess að tryggja mannréttindi og raunverulegt jafnrétti fólks. ÖBÍ tekur undir að það er algerlega nauðsynlegt að komið verði á sjálfstæðri mannréttindastofnun í samræmi við Parísarviðmiðin, en þau voru samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1993 og setja viðmið og leiðbeiningar um vinnu sjálfstæðra, innlendra mannréttindastofnana.[2]

Í þriðja lagi er ábending um að valfrjáls viðauki við samninginn verði fullgiltur. Viðaukinn felur í sér einstaklingsbundnar samskiptaleiðir til sérfræðinefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Jafnframt felur hann í sér að heimild sérfræðinefndarinnar til að gera sérstaka skoðun á framkvæmd samningsins verði hún áskynja um kerfisbundin brot á ákvæðum hans. Fullgilding valfrjálsa viðaukans myndi auka trúverðugleika íslenska ríkisins, jafnt innanlands sem á alþjóðavettvangi.

Í fjórða lagi má nefna að vandamál hafa komið upp varðandi þýðingu á SRFF. Að minnsta kosti fjórar ólíkar þýðingar hafa verið á mismunandi heimasíðum hjá stofnunum ríkisins. Engin þessara þýðinga er fullnægjandi. Þessi vandamál eiga þó ekki að verða til þess að lögfesting samningsins tefjist. 

Áskoranir í framhaldinu

SRFF er svokallaður „traite cadre“ sem felur í sér að einhver ákvæði samningsins verða að vera skýrð með öðrum lögum og skýringum, t.d. með almennum álitum nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.[3] Þetta felur í sér að ríki verða að vera vakandi fyrir því að tryggja þau réttindi sem felast í samningnum í sérstakri löggjöf. Lögfesting samningsins, eins nauðsynleg og hún er, felur þar með ekki í sér endanlegt lagalegt svar við því hvernig réttindin sem í honum felast verði tryggð með efnislegum hætti hér á landi.

Samantekt

ÖBÍ bendir á að hér er um mikilvægt mál að ræða og lýsir yfir fullum stuðningi við málið. Algerlega nauðsynlegt er að málið fái hraða afgreiðslu á þingi svo hægt sé að hefjast handa strax við gerð lagafrumvarps, svo markmið þingsályktunartillögunnar nái fram að ganga.

 

Ekkert um okkur án okkar!

Virðingarfyllst, 
Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

[1] Quinn G. and Degener T., Human Rights and Disability. The current use and future potential of United Nations human rights instruments in the context of disability. New York and Geneva: United Nations, 2002. <http://www.ohchr.org/Documents/Publications/HRDisabilityen.pdf>. Accessed. 16. August 2018.
[2] Parísarviðmiðin sjá slóð: https://www.ohchr.org/EN/ProfessionalInterest/Pages/StatusOfNationalInstitutions.aspx
[3] Coomara Pyaneandee, International Disability Law. A practical Approach to the United Nations Convention on the Rights of Persons with Disabilities, (2019, 6).


Umsögnin (PDF) á vef Alþingis