Alþingi
Nefndasvið
Austurstræti 8-12
150 Reykjavík
Reykjavík, 7. júní 2019
Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 (hækkun lífeyris) þingskjal 1345 – 844 mál.
ÖBÍ styður og leggur ríka áherslu á að lífeyri almannatrygginga verði hækkaður. Kjör örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega hafa dregist mjög aftur úr kjörum meginþorra landsmanna. Atvinnuleysisbætur, sem almennt eru hugsaðar sem tímabundin framfærsla, eru orðnar talsvert hærri en örorkulífeyrir sem oft á tíðum er framfærsla og jafnvel eina framfærsla fatlaðs og langveiks fólks til lengri tíma, jafnvel áratugum saman. Óskertur örorkulífeyrir er til að mynda ekki nema 247.183 kr. á mánuði eða 32.537 kr. lægri en atvinnuleysisbætur.
Hækkanir sem lagðar eru til í frumvarpinu eru skref í rétta átt, en þó er ljóst að 317.000 kr. á mánuði (fyrir skatt) dugar enn engan veginn til mannsæmandi framfærslu. Eftir skatt yrði upphæðin 256.347 kr.
Jákvætt skref ef lífeyrisþegum yrðu tryggðar krónutöluhækkanir sem samið var um í svonefndum lífskjarasamningi. Hérna er um að ræða hærri hækkanir (eða 24.000 kr. og 25.000 kr. á milli ára 2020-2022) en lífeyrisþegar hafa fengið á fjárlögum síðustu ár. Eðlilegra væri að örorkulífeyrir væri talsvert hærri en lágmarkslaun og til að teljast mannsæmandi framfærsla ætti hann að vera um 500.000 kr. Fatlað fólk ber oftast aukinn kostnað af fötlun sinni og eða veikindum.
Í frumvarpinu er ekki getið hvernig hækkanir á milli ára yrði útfærðar. Mun upphæðin leggjast á alla bótaflokka?
Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að samhliða breytingunum þurfi að draga úr vægi tekjuskerðingar vegna sérstakrar framfærsluuppbótar. Þetta er mjög almennt orðað og áréttað að draga þarf verulega úr tekjuskerðingum við útreikning lífeyris til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. ÖBÍ hefur stutt og lagt ríka áherslu á að frumvarp á þingskjali 54. – 54. mál um afnám „krónu á móti krónu“ skerðinga verði að lögum. Breytingin sem lögð er fram í því frumvarpi er ákaflega einföld og auðveld í framkvæmd, einfaldar framfærslukerfið, tryggir að innbyrðis tekjutengingar eru teknar út og nær til allra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega.
Ekkert um okkur án okkar.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir
Formaður ÖBÍ