Skip to main content

Ályktanir

2021

Ályktun aðalfundar ÖBÍ 15. og 16. október 2021

Aðalfundur Öryrkjabandalagsins skorar á þingmenn að sýna hugrekki og dug til að rétta hlut fatlaðs fólks.

Stór hluti fatlaðs fólks býr við efnislegan skort, þ.e. fátækt, sem opinberaðist þjóðinni í rannsókn Vörðu í haust. Fram til þessa hefur skort mjög á pólitískan vilja til að takast á við vandamálið. Lengur verður ekki beðið, staðan er grafalvarleg og algerlega óviðunandi. Það sæmir okkur ekki sem þjóð að sitja lengur með hendur í skauti.

Við erum tilbúin, hvað með ykkur?

Ekkert um okkur án okkar!

Aðalfundur samþykkti einnig aðra ályktun um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og valkvæðan viðauka við samninginn. Ályktunin er svohljóðandi:

Ríkið lögfesti tafarlaust samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og valkvæðan viðauka við samninginn

Aðalfundur ÖBÍ krefst þess að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur um leið og Alþingi kemur saman á 152. löggjafarþingi 2021.

Samningurinn kveður á um grundvallarmannréttindi fatlaðs fólks í heiminum. Réttindin sem felast í skjalinu hafa þó enn ekki verið tryggð hér á landi enda gerist það ekki fyrr en samningurinn hefur verið lögfestur. Þangað til á fatlað fólk á Íslandi ekki þau réttindi sem felast í samningnum. Þessu hafa íslenskir dómstólar slegið föstu, nú síðast með dómi Landsréttar 7. október sl. þar sem borgari átti ekki rétt til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) þrátt fyrir ákvæði samningsins, einkum 19. gr. hans.

Íslenska ríkið hefði átt að klára lögfestingu samningsins fyrir mörgum árum síðan. Ef íslenska ríkið hefur raunverulegan vilja til þess að tryggja fötluðu fólki jafnan rétt og jöfn tækifæri óháð fötlun verður að lögfesta samninginn án frekari tafa.

Ekkert um okkur án okkar!

Greinargerð

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var undirritaður af hálfu íslenska ríkisins 30. mars 2007. Samningurinn var fullgiltur 23. september 2016 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 23. október sama ár, sbr. auglýsingu nr. 5/2016 í C-deild Stjórnartíðinda. Í þingsályktuninni sem samþykkt var af fulltrúum allra stjórnmálaflokka á Alþingi sagði:

„Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem undirritaður var af hálfu Íslands 30. mars 2007. Þá ályktar Alþingi að valkvæður viðauki við samninginn skuli einnig fullgiltur fyrir árslok 2017.“

Í greinargerð með þingsályktuninni sagði um fullgildingu viðaukans:

„Lagt er til að auk samningsins verði viðauki hans einnig fullgiltur. Viðaukinn felur í sér mikilvægar réttarbætur fyrir fatlað fólk, annars vegar kvörtunarleið fyrir einstaklinga til nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og hins vegar leið fyrir nefndina til að rannsaka alvarleg eða kerfisbundin brot gegn samningnum, með samþykki viðkomandi aðildarríkis.“

Þegar ríki verður aðili Samningsins ber það skyldu til „að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar“ (4. gr. Samningsins).

Íslenskir dómstólar hafa litið svo á að Samningurinn hafi ekki réttaráhrif á Íslandi fyrr en hann hefur verið lögfestur, þ.e. hann gerður að lögum frá Alþingi. Á Íslandi hefur fjöldi alþjóðlegra mannréttindasáttmála verið lögfestur og má sem dæmi nefna Mannréttindasáttmála Evrópu.

Með dómi Hæstaréttar Íslands 25. október 2018 í máli nr. 106/2017 var skýrt kveðið á um að Samningurinn hefði ekki lagagildi og kvæði þannig ekki á um íslenskar lagareglur fyrr en við lögfestingu. Í dóminum sagði m.a.: „Eins og áður greinir hefur Ísland undirritað og fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en ekki leitt ákvæði hans í lög hér á landi. Þegar af þeirri ástæðu geta dómkröfur áfrýjenda í málinu ekki náð fram að ganga á grundvelli ákvæða þess samnings.“

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur („Sáttmáli Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis“) 30. nóvember 2017 sagði meðal annars:

„Ljúka þarf lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) og breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks. Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður innleiddur.“

Með þingsályktun Alþingis 3. júní 2019 var ríkisstjórninni falið að undirbúa lögfestingu Samningsins. Í þingsályktuninni kom fram að frumvarp um lögfestingu Samningsins skyldi lagt fyrir Alþingi eigi síðar en 13. desember 2020. Ríkisstjórnin lagði ekki fram slíkt frumvarp á kjörtímabilinu og hefur ekki veitt skýringar eða fært fyrir því rök.

Með dómi Landsréttar 7. október 2021 í máli nr. 226/2021 kom skýrt fram sú afstaða að einstaklingur hefði ekki átt rétt til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. Í dómi Landsréttar er ekki minnst á Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

2020

Ályktun málefnahópa ÖBÍ um húsnæðismál og sjálfstætt líf, 27. nóvember 2020

Ungt fólk á hjúkrunarheimilum

Alvarlegar athugasemdir eru gerðar við stöðu fatlaðs fólks undir 67 ára aldri sem er vistað gegn vilja sínum á hjúkrunarheimilum eða sjúkrahúsum.
  • Sveitarfélög þurfa að fylgja lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 (hér eftir vísað í lög nr 38/2018) sem samþykkt voru fyrir tveimur árum, en ekki sveigja þau til eftir eigin geðþótta og beina fötluðu fólki inn á stofnanir.
  • Stjórnvöld verða að stöðva kvótasetningu og tímatakmarkanir á þjónustu sem veitir fötluðu fólki sjálfstæði og reisn svo sem NPA samninga eða aukna þjónustu heim.

Í dag eru 147 einstaklingar undir 67 ára á hjúkrunarheimilum, samkvæmt tölum frá Landlækni. Af þeim eru 52 einstaklingar á aldrinum 25 -59 ára sem bendir til þess að þetta sé viðvarandi og alvarlegt vandamál. Hjúkrunarheimili eru hugsuð fyrir eldri borgara og henta yngra fólki afar illa auk þess sem stefnt hefur verið að því opinberlega að afstofnanavæða búsetu fatlaðs fólks.

Við innlögn á hjúkrunarheimili og aðrar sjúkrastofnanir má gera ráð fyrir því að sjálfstæði, mannréttindum og lífsgæðum einstaklings sé fórnað. Í nýlegu áliti Umboðsmanns Alþingis (nr. 9897/2018) er að finna gott dæmi um þetta. Þar er staðfest að stjórnvöld hafi ekki virt sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs einstaklings og að dvöl á hjúkrunarheimili geti takmarkað persónufrelsiathafnafrelsi og friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu með ýmsum hætti.

Við höfum vitneskju um að sveitarfélög  og sjúkrastofnanir beini fólki markvisst inn á hjúkrunarheimili í stað þess að standa við sínar skuldbindingar og veita fötluðu fólki aukna þjónustu heim eða NPA samninga. Svo virðist sem að fólki sé ráðið frá því að sækja um NPA þjónustu og þess vegna verða biðlistar ekki lengri en þeir þó eru. Afleiðingin verður þá sú að minni yfirsýn er yfir þörfina. Þá virðist skorta fjölbreyttari úrræði sem og framtíðarsýn og framtíðarskipulag í málefnum fatlaðra þegar kemur að stoðþjónustu og húsnæðisöryggi.

Í dag býr fjöldi fatlaðs fólks við þessar aðstæður auk þess sem vitað er um einstaklinga sem hafa þurft að dvelja langdvölum gegn vilja sínum inn á sjúkrahúsi í bið eftir plássi á hjúkrunarheimili og verið synjað um aukna umönnun heima,  ekki kynnt NPA þjónusta eða hún tengd kvóta eða tímatakmörkunum. Samkvæmt tölulegum upplýsingum frá LSH eru núna sex einstaklingar undir 67 ára aldri í innlögn að bíða eftir plássi á hjúkrunarheimili vegna skorts á heimaþjónustu eða NPA og allir verið yfir 100 daga á spítalanum og allt upp í 600 daga. Hér er átt við árafjölda án heimilis en mörg hjúkrunarheimili synja yngra fólki einnig ítrekað um þjónustu.

Í lögum nr. 38/2018 kemur skýrt fram að fatlað fólk eigi rétt á bestu þjónustu sem unnt er að veita til að koma til móts við þarfir þess. Einnig segir að þjónustan skuli fela í sér nauðsynlegan stuðning svo fatlað fólk geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og lifað sjálfstæðu lífi á eigin forsendum. Lög nr. 38/2018 kveða á um að farið skuli eftir ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks við framkvæmd þeirra. Samningurinn segir að fötluðu fólki skuli tryggð mannleg reisn, sjálfræði og sjálfstæði. Þá kveða lögin á um að fötluðu fólki skuli standa til boða þjónusta sem er nauðsynleg til þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar og komið sé í veg fyrir félagslega einangrun þess. Í þessu felst meðal annars réttur til: sjálfstæðs heimilishalds; samfélagslegrar þátttöku; menntunar og atvinnu; félagslífs, tómstunda- og menningarlífs og fjölskyldulífs. Þannig veita lög nr. 38/2018fötluðu fólki tækifæri til að lifa innihaldsríku lífi og taka þátt í samfélaginu til jafns við aðra.

Við krefjumst þess að sveitarfélög geri ekki fatlað fólk að bitbeini sínu um aukið fjármagn frá ríkinu heldur standi við sínar skuldbindingar og fylgi settum lögum. Það er með öllu óásættanlegt að sveitarfélögin þrengi að réttindum fatlaðs fólks með ólögmætum hætti. Þá skulu yfirvöld fjölga úrræðum og sveigjanleika svo fatlað fólk geti átt sitt heima með sömu reisn og aðrir.  Stofnanavæðing gegn vilja fatlaðs fólks er svartur blettur á íslensku samfélagi sem á að heyra fortíðinni til.

Ályktun aðalfundar ÖBÍ – 2. og 3. október 2020

Við skilum skömminni til ríkisstjórnarinnar

Í þrjú ár hefur ríkisstjórn Katrínar, Bjarna og Sigurðar Inga ákveðið að auka fátækt fatlaðs og langveiks fólks í stað þess að bæta kjör okkar. Sístækkandi hópur öryrkja býr við sárafátækt. Það veldur aðalfundi Öryrkjabandalags Íslands miklum vonbrigðum að um áramótin 2020-2021 verði munurinn á örorkulífeyri og lágmarkslaunum orðinn kr. 86.000.

Frá árinu 2007 hefur bil á milli örorkulífeyris og lágmarkslauna stöðugt breikkað. Í valdatíð núverandi ríkisstjórnar hefur ekkert verið gert til að bregðast við þessari kjaragliðnun, heldur þvert á móti hefur bilið breikkað enn meira, þrátt fyrir að ríkisstjórnin segist vinna í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, hvar efst á blaði er að útrýma fátækt. Nú þegar Bjarni hefur lagt fram sitt síðasta fjárlagafrumvarp á kjörtímabilinu er enga breytingu að sjá.

Aðalfundur Öryrkjabandalagsins krefst þess að ríkisstjórnin endurskoði afstöðu sína gagnvart lífskjörum fatlaðs og langveiks fólks og bæti kjör okkar án tafar. Skömm ríkisstjórnarinnar er að halda okkur í fátækt og skýla sér á bakvið Covid og slæmt efnahagsástand.

Fátækt er afleiðing skammarlegra pólitískra ákvarðana. Ekkert um okkur án okkar!

Greinargerð:

Í rúman áratug hefur stöðugt dregið í sundur með lágmarkslaunum og örorkulífeyri. Í fjárlögum hverju sinni er lífeyrir almannatrygginga hækkaður í samræmi við forsendur þeirra, sem eru ekkert annað en spá. Sjaldan ef nokkurn tímann gengur sú spá eftir, þrátt fyrir það er aldrei horft yfir sviðið og lífeyrir leiðréttur til samræmis við hvað raungerðist, líkt og við ákvörðun þingfararkaups, þar sem launaþróun er skoðuð fyrir næstliðið ár. Ári síðar eru lögð fram ný fjárlög, byggð á nýrri spá, og sagan endurtekur sig. Bilið breikkar og fátækt eykst.

Ályktun stjórnar ÖBÍ – 30. apríl 2020

Stjórn Öryrkjabandalags Íslands hvetur ríkisstjórnina til að falla nú ekki í gamlar skotgrafir í baráttunni sem framundan er við efnahagslegar afleiðingar Covid-19 faraldursins. Engan má skilja eftir í fátækt, hvað þá sárafátækt. Í kjölfar fjármálakreppunnar árið 2008 var gengið svo langt í niðurskurði í velferðarkerfinu, að skaðinn sem varð er enn óbættur.

Þær fordæmalausu aðstæður sem við lifum nú, kalla á nýja hugsun og nálgun við viðfangsefnin, þar sem velferð fólks verður að vera í fyrirrúmi. Með hækkun örorkulífeyris til samræmis við lágmarkslaun, vinnum við okkur hraðar út úr þeim þrengingum sem nú blasa við.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem þegar eru ljósar, ná lítið sem ekkert til öryrkja. Sinnuleysi síðasta áratugar um kjör öryrkja má ekki halda áfram í skjóli núverandi kreppu. Það er því brýnt að grípa strax til þeirra aðgerða sem forða fólki frá sárri fátækt og er eðlileg krafa á ríkisstjórn sem í samstarfssáttmála sínum ætlaði að styrkja sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Nú munar um 80 þúsund krónum á örorkulífeyri og lágmarkslaunum og útlit er fyrir að kaupmáttur lífeyris minnki enn frekar, eftir að hafa nánast staðið í stað á kjörtímabili núverandi ríkisstjórnar. Þetta má ekki gerast í því verðbólguskoti sem nú ríður yfir.

Í rúmt ár hefur samtal við ráðherra forsætis-, fjármála- og félagsmála engu skilað og í ár hafa sömu ráðherrar ekki orðið við beiðni Öryrkjabandalagsins um fundi. Ríkisstjórn sem vinnur að útrýmingu fátæktar verður að horfast í augu við vandamálið og hefja viðræður við okkur nú þegar um lausn vandans. Lausn sem ekki getur falist í öðru en lífeyri sem tryggir mannsæmandi líf.

Tími efnda er núna.

Greinargerð

Í okkar hópi er viðkvæmasta fólkið í samfélaginu. Fólk sem er viðkvæmt fyrir líkamlega, sálrænt, félagslega og fjárhagslega. Ástandið bitnar illa á mörgum sem eru með undirliggjandi langvinna sjúkdóma, kvíðaraskanir, einhverfu, ADHD svo fátt eitt sé nefnt. Margir hafa brugðið á það ráð að fara í sjálfskipaða einangrun til að verjast veirunni.

    1. Í einangrun verður allt erfiðara. Heilsufarsáhyggjur og félagsleg einangrun hefur mikil áhrif á geð fólksins en ekki síður fjárhagurinn. Allir aðdrættir verða dýrari  og erfiðir. Framfærslulífeyrir verður verri og var bágur fyrir. Matarkostnaðurinn eykst, tekjur til annarra hluta minnka. Margir sjá fram á að þurfa að velja milli nauðsynja þ.e. læknisþjónusta eða matar, lyfja eða leigu. Í sumum tilfellum bitnar ástandið einnig á börnum og skerðir lífsgæði þeirra.
    2. Fatlað fólk og öryrkjar eru í viðvarandi áhættu um félagslega einangrun og hún eykst til muna um þessar mundir. Í þeim hópi eru margir sem eru ólíklegir til að bera sig eftir aðstoð. Stjórnvöld hafa unnið að því að koma til móts við áhættuhópa s.s. fólks með geðraskanir. Ýmis úrræði eru fyrir hendi. Í ástandi eins og nú varir skiptir miklu að kynna þau úrræði vel innan áhættuhópanna.

Aðgerðir verða að koma til, er styrkja efnahag fólksins og hækka þarf framfærslulífeyri!  Þá er upplagt að stíga fyrr þau skref sem áformuð hafa verið varðandi aukna kostnaðarþátttöku hins opinbera í heilbrigðisþjónustu, þar með talið tannlækningum, lyfjum og endurhæfingu. Að auki er mikilvægt að fólk fái handleiðslu á félagslegum og fjárhagslegum grunni þegar ástandinu linnir.

Kynna þarf sérstaklega og á vandaðan hátt aðgengi fólks að úrræðum sem draga úr hættu á að viðkvæmir hópar fólks einangri sig. Oftast sökum ótta, kvíða eða efnahagslegra erfiðleika. Hlutir sem voru erfiðir fyrir verða óbærilegir í ástandi eins og nú varir.

2019

Ályktanir aðalfundar ÖBÍ 4. og 5. október 2019

Kjör örorkulífeyrisþega

Enn eitt árið eykst gjáin milli örorkulífeyris og lágmarkslauna. Það er ömurlegt að við Íslendingar höfum ákveðið að sumum okkar skuli haldið í sárafátækt lífið á enda. Þó forsætisráðherra vilji ekki biðja fátækt fólk að bíða eftir réttlætinu, bíður það enn. Aðalfundur Öryrkjabandalagsins skorar á þjóðina að beita sér fyrir því að biðinni ljúki nú þegar. Það veit enginn hver þarf næst að reiða sig á smánarlegan örorkulífeyri.

Greinargerð

Fáir eru á lágmarkslaunum til lengri tíma og atvinnuleysisbætur eiga eingöngu að vera skammtímaúrræði þar til fólk kemst aftur í vinnu. Engu að síður er öryrkjum gert að lifa langtímum saman, jafnvel alla ævi, á tekjum sem eru langtum lægri en bæði lágmarkslaun og atvinnuleysisbætur. Á árinu 2008 skildu leiðir lágmarkslauna og óskerts örorkulífeyris. Í dag er örorkulífeyrir  70 þúsund kr. lægri en lágmarkslaun. Í því fjárlagafrumvarpi sem liggur nú fyrir Alþingi er enga breytingu að sjá og því mun bilið aukast enn eða í 86 þúsund kr. á mánuði á næsta ári.

Í umræðu um stefnuræðu fyrrverandi forsætisráðherra í september 2017 sagði núverandi forsætisráðherra að ekki eigi að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu. Hún sagði ríkisstjórnina gera ráð fyrir að öryrkjar og aldraðir hokruðu áfram og byggju við skammarleg kjör. Katrín Jakobsdóttir hefur haft tvö ár til að standa við þessi orð sín. Fólk í fátækt bíður enn.

Ekkert um okkur án okkar!

Atvinnuþátttaka örorkulífeyrisþega

Aðalfundur Öryrkjabandalagsins skorar á ríkisstjórnina að láta af núverandi tekjuskerðingum gagnvart atvinnutekjum öryrkja, sem gera ekkert nema letja til þátttöku á vinnumarkaði, og taka frekar upp jákvæða hvata til að afla tekna. Þannig vinna allir.

Greinargerð

Í tíu ár hafa lífeyrisgreiðslur til öryrkja verið skertar vegna tekna þeirra (króna á móti krónu, nú 65 aurar á móti hverri krónu) og frítekjumark vegna atvinnutekna ekki hækkað.

Í nýlegri skýrslu Kolbeins Stefánssonar um fjöldaþróun örorkulífeyrisþega kemur fram að samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru 28,5% örorkulífeyrisþega starfandi árið 2017, þar af voru 37,6% í fullu starfi. Þessar tölur sýna svo ekki verður um villst að meginþorri örorkulífeyrisþega vilja vera virkir þátttakendur á vinnumarkaði en er í raun gert erfitt fyrir, því atvinnutekjur þeirra verða nánast að engu eftir skerðingar.

Jákvæðir hvatar til þátttöku á vinnumarkaði ættu að vera fyrsta skref í stað kerfislægra þvingana í formi starfsgetumats, enda eru örorkulífeyrisþegar best fallnir til að meta eigin starfsgetu.

Jafnframt er ljóst að stjórnvöld þurfa að ganga á undan með góðu fordæmi og bjóða upp á störf, vinnutíma við hæfi og viðeigandi aðlögun á vinnumarkaði og leggja þar með línuna fyrir almenna vinnumarkaðinn.

Lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) hvetur Alþingi til þess að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eigi síðar en á haustþingi 2020.
Greinargerð 

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var samþykktur á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þann 13. desember 2006. Samningurinn hefur það markmið að tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og að jöfnu allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við aðra.

Íslenska ríkið varð aðili að samningnum með fullgildingu 20. september 2016. Í ríkjum, sem gera skýran greinarmun á þjóðarétti og innanlandsrétti, er nauðsynlegt, til að tryggja rétt einstaklinga innanlands, að lögfesta samninga. Íslenska kerfið byggir á slíkri aðgreiningu. Fullgilding nær þess vegna, því miður, ein og sér, ekki að tryggja fötluðu fólki á Íslandi fyllilega þau réttindin sem í samningnum felast. Lögfesting myndi t.a.m. tryggja að einstaklingar gætu byggt rétt sinn á samningnum með beinum hætti fyrir dómstólum.

Löggjafinn er meðvitaður um þessa stöðu og samþykkti, þann 3. júní 2019, þingsályktun þar sem ríkisstjórninni var falið að leggja fram frumvarp, sem hafi það að markmiði að samningurinn skuli lögfestur, fyrir Alþingi eigi síðar en 13. desember 2020.  Samþykki ályktunarinnar var mikilvægt og jákvætt skref í mannréttindabaráttu fatlaðs fólks.

Ríkisstjórnin er hvött til þess að vinna hratt og örugglega að málinu og tryggja að frumvarpið verði lagt fram innan gefins tímaramma. Alþingi er hvatt til þess að samþykkja frumvarpið án tafar þegar það kemur fram.

Lögfesting samningsins mun tryggja öllu fötluðu fólki á Íslandi raunverulega mannréttindavernd.

Mikilvægi mótunar stefnu í endurhæfingarmálum

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 4. og 5. október 2019 ályktar um að mikilvægt sé að fólk hafi gott aðgengi að læknisfræðilegri endurhæfingu.

Aðalfundurinn krefst þess að heilbrigðisráðherra flýti boðuðu starfi varðandi mótun stefnu í endurhæfingu, án þess þó að gæði þeirrar vinnu skerðist. Skýr stefna í endurhæfingu á að vera það leiðarljós sem notað er við innkaup slíkrar þjónustu. Fundurinn varar við gerræðislegum vinnubrögðum sem nú virðast uppi um kaup á þjónustu sjúkraþjálfara. Mikilvægar kerfisbreytingar verða að vera unnar í samráði við hagsmunaaðila, kröfur og útboðsgögn vel unnin og tími til þess að vinna verkefnið fyrir hendi. Fundurinn skorar á heilbrigðisráðherra að móta stefnuna fyrst og skoða svo kerfisbreytingu í innkaupum og/eða mótun nýrra samskipta þjónustuveitenda og innkaupa á þjónustunni.


Ályktun stjórnar ÖBÍ vegna búsetuskerðinga TR,  21. febrúar 2019

Stjórnvöld hafa viðurkennt að stór hópur örorkulífeyrisþega, yfir þúsund manns, hafi verið hlunnfarinn um yfir hálfan milljarð króna árlega, með ólöglegum útreikningi búsetuhlutfalls. Þetta byggir á áliti Umboðsmanns Alþingis sem birti álit um málið í júní 2018 og eins og áður segir hafa stjórnvöld nú loks viðurkennt brotin. Enn hefur samt sem áður ekkert gerst og hinar ólögmætu skerðingar eru enn framkvæmdar. Ljóst er að þessi framkvæmd TR á búsetuskerðingum hefur staðið í a.m.k. áratug. Það þýðir að sá hópur örorkulífeyrisþega, sem verður fyrir skerðingum vegna fyrri búsetu í aðildarríkjum EES, hefur orðið af um fimm milljörðum króna auk vaxta á þessu tímabili.

Stjórn Öryrkjabandalags Íslands krefst þess að stjórnvöld stöðvi strax hina ólögmætu skerðingu og greiði örorkulífeyrir miðað við réttan útreikning búsetuhlutfalls frá og með 1. mars næstkomandi.

Stjórn Tryggingastofnunar ríkisins skuldar því fólki sem lent hefur í þessum skerðingum opinbera afsökunarbeiðni. Skaðinn verður aldrei bættur að fullu en fyrsta skrefið er að greiða til baka hverja krónu sem tekin hefur verið af örorkulífeyrisþegum.

Stjórn ÖBÍ gerir kröfu um að TR greiði búsetuskertum örorkulífeyrisþegum hinar ólögmætu skerðingar tíu ár aftur í tímann. Ekki er hægt að réttlæta það að stjórnvöld valdi örorkulífeyrisþegum tjóni í tíu ár en greiði svo einungis tæplega helming þess tjóns til baka.

Vandræðagangur stjórnvalda í þessu máli er með ólíkindum. Tryggingastofnun og ráðuneytin vísa hvert á annað og halda þannig áfram þeim ljóta leik að skerða réttindi fólks í andstöðu við lög.

Ekkert um okkur án okkar!

2018

Ályktun stjórnarfundar ÖBÍ haldinn 10. október 2018 um starfsgetumat

Stjórn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) skorar á stjórnvöld að: Efla núverandi kerfi örorkumats í stað tilraunakennds starfsgetumats

ÖBÍ telur að núverandi kerfi örorkumats sé í grundvallaratriðum vel uppbyggt, sveigjanlegt og traust. Bandalagið vill efla það og draga úr tekjutengingum í stað þess að leggja út í þá tilraunastarfsemi sem fólgin er í starfsgetumati sem ekki hefur verið sýnt fram á að fái staðist.

Starfsgeta öryrkja er gjarnan afar sveiflukennd. Með tilkomu starfsgetumats í stað örorkumats er hætt við að öryrkjar lendi í alvarlegri afkomuóvissu. Þá þarf að hafa í huga að íslenskt atvinnulíf býður ekki upp á nægilega mörg og fjölbreytt störf við hæfi þeirra öryrkja sem treysta sér til að vinna. Almannatryggingar refsa öryrkjum fyrir atvinnuþátttöku með ósanngjörnum skerðingum. Starfsgetumat í stað núgildandi örorkumats er óraunhæft.

Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands 2018

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 5. og 6. október 2018, krefst þess að Alþingi breyti fjárlagafrumvarpi ársins 2019 og forgangsraði í þágu þeirra sem verst standa í íslensku samfélagi.

Stjórnvöld hafa sýnt á spilin. Nú hefur fjármálaráðherra lagt fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2019. Þar er gert ráð fyrir að greiðslur TR til örorkulífeyrisþega hækki um 3,4%. Á sama tíma er verðbólguspá 2,9%. Því er raunhækkun ekki nema 0,5% ef spár standast. Enn og aftur bregðast stjórnvöld þeim sem síst skyldi með því að afhenda fötluðu og langveiku fólki raunhækkun upp á 1.200 kr. á mánuði fyrir skatt.

Einstaklingur með óskertan örorkulífeyri hefur einungis 204.000 kr. til ráðstöfunar á mánuði eftir skatt. Þrátt fyrir lengsta hagvaxtarskeið sögunnar hafa örorkulífeyrisþegar ekki fengið leiðréttingu á sínum kjörum eins og aðrir hópar. Þvert á móti er stórum hópi örorkulífeyrisþega haldið í fátæktargildru með lága framfærslu og „krónu á móti krónu“ skerðingu auk þess sem frítekjumörk hafa verið óbreytt frá hruni.

Almenningur tók á sig kjaraskerðingu í kjölfar hruns 2008. Síðan þá hafa aðrir hópar samfélagsins fengið leiðréttingu á kjörum en ekki fatlað og langveikt fólk. Á tímabilinu 2010-2016 hækkaði þingfararkaup um tæp 600.000 kr. á mánuði á meðan örorkulífeyr-ir TR hækkaði einungis um 60.000 kr.

Það er öllum ljóst að „kjarabætur“ upp á 1.200 kr. eins og nú er lagt til, er blaut tuska í andlitið sér í lagi þegar haft er í huga að forsætisráðherra hefur í ræðu og riti lagt áherslu á að sporna gegn fátækt og ójöfnuði. Framkvæmdin er allt önnur.

Setjum manngildi ofar auðgildi – Skiljum engan eftir

Ályktun um aðgengismál

Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands haldinn 5. og 6. október 2018 um aðgengi fyrir alla

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 5. og 6. október 2018 ályktar um mikilvægi þess að aðgengi sé fyrir alla.

Samkvæmt íslenskum lögum og reglugerðum á að gæta þess sérstaklega að aðgangur fatlaðs fólks að manngerðu umhverfi sé til jafns við aðra. Þrátt fyrir skýr ákvæði um algilda hönnun í byggingarreglugerð er enn verið að byggja óaðgengilegt húsnæði og önnur mannvirki. Ábyrgðin liggur hjá hönnuðum, arkitektum, verktökum og byggingarfulltrúum sveitarfélaga sem eiga að hafa eftirlit með því að reglum sé framfylgt.

Þjóðin eldist og þörf fyrir aðgengilegt húsnæði og þjónustu mun aukast mikið á komandi árum. Mikill skortur er á aðgengilegu húsnæði, þar sem lítið var hugsað fyrir aðgengi fyrir alla á árum áður sem er höfuðástæða þess að þurft hefur að byggja aðgengilegt húsnæði sérstaklega fyrir fatlað fólk á öllum aldri.

Okkar krafa er að lögum og reglum sé framfylgt þannig að aðgengi sé fyrir alla.

Ekkert um okkur án okkar!

Ályktun um kostnaðarþátttöku í heilbrigðisþjónustu

Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands haldinn 5. og 6. október 2018 um kostnaðarþátttöku í heilbrigðisþjónustu       

Í ljósi skýrra loforða ríkisstjórnarinnar um að draga úr kostnaði sjúklinga í heilbrigðiskerfinu ályktar aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) að lagðar verði fram frekari áætlanir um það hvar það eigi að gerast og hvenær.

Þegar hafa verið stigin fyrstu skref varðandi tannheilsu lífeyrisþega, en fátt annað liggur fyrir. Öryrkjabandalag Íslands leggur áherslu á eftirfarandi:

  1. Samningur um tannlæknakostnað lífeyrisþega verði fullfjármagnaður á árinu 2019 þannig að ríkið greiði 75% af kostnaði.
  2. Kostnaðarþátttaka í heilbrigðisþjónustu verði leiðrétt á árinu 2019 þannig að lífeyrisþegar greiði ekki meira en þriðjung af kostnaði almennra notenda.
  3. Lækka þarf kostnað sjúkratryggðra í greiðsluþátttökukerfum heilbrigðisþjónustu og lyfja, svo fólk fresti ekki eða sleppi því að sækja sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.
  4. Nauðsynlegir þjónustuþættir og lyf sem ekki falla undir núverandi greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu og lyfjum verði sett undir þök kerfanna.

Ályktun um kjaramál

Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands haldinn 5. og 6. október 2018 um kjaramál

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 5. og 6. október 2018, skorar á alla þingmenn að bæta kjör örorkulífeyrisþega með því að hafa áhrif á fjárlagagerð ríkisins fyrir árið 2019 með eftirfarandi hætti:

  • Hækka óskertan lífeyri almannatrygginga frá 1.1.2019 í 413.000 kr.
  • Afnema „krónu á móti krónu“ skerðingu sérstakrar framfærsluppbótar.
  • Draga verulega úr tekjuskerðingum í almannatryggingakerfinu.
  • Hækka persónuafslátt þannig að ekki verði greiddur tekjuskattur af tekjum undir 300.000 kr. á mánuði.
  • Setja lög til að koma í veg fyrir að lífeyrissjóðir skerði greiðslur til örorkulífeyrisþega vegna greiðslna úr almannatryggingakerfinu.

Ályktun um málefni barna

Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands haldinn 5. og 6. október 2018 um málefni barna

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ), haldinn 5. og 6. október 2018 skorar á stjórnvöld að:

  • Jafna tækifæri til náms og tryggja að nemendur með sérþarfir (stuðningsþarfir) fái þá lögbundnu þjónustu sem þeir eiga rétt á innan skólakerfisins.
  • Tryggja réttindi barna og gæta að því að hagur þeirra vegi þyngst í öllum ákvörðunum sem um þau eru tekin.
  • Tryggja að raddir barna fái aukið vægi innan kerfisins.
  • Tryggja heildstæða einstaklingsmiðaða þjónustu í leik- og grunnskólum.
  • Tryggja fötluðum börnum rétt til íþrótta- og tómstundaiðkunar til jafns við aðra.
  • Auka geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga og eyða biðlistum.

Ályktun um NPA

Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands haldinn 5. og 6. október 2018 um lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) 

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) fagnar innilega að réttur fatlaðs fólks til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) hafi verið lögfestur. NPA tryggir að fatlað fólk getur notið frelsis til jafns við aðra.

Ályktun um mannréttindavernd fatlaðs fólks

Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands haldinn 5. og 6. október 2018 um mannréttindavernd fatlaðs fólks

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) skorar á stjórnvöld að virða þá alþjóðasáttmála sem íslenska ríkið hefur undirgengist til að tryggja mannréttindavernd fatlaðs fólks. ÖBÍ leggur áherslu á eftirfarandi atriði:

  • Að Alþingi samþykki fyrirliggjandi þingsályktunartillögu um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í tillögunni kemur fram að lögfesta eigi samninginn eigi síðar en 13. desember 2019, á 13 ára afmælisdegi samningsins.
  • Að stjórnvöld fullgildi valfrjálsu bókunina við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. ÖBÍ fordæmir að það hafi ekki verið gert þrátt fyrir að Alþingi ályktaði þann 20. september 2016 að hún skyldi fullgilt eigi síðar en í árslok 2017.
  • ÖBÍ fagnar lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, þar sem kveðið er á um bann við mismunun á vinnumarkaði á grundvelli fötlunar. ÖBÍ harmar þó þá ákvörðun löggjafans að ekkert fjármagn hafi fylgt með lögfestingunni til að tryggja rétta framkvæmd laganna.

2017

Ályktun aðalfundar ÖBÍ um aðgengiseftirlit

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 20. – 21. október 2017, skorar á alla þingmenn sem munu taka sæti á Alþingi að loknum alþingiskosningum 28. október nk. að koma á aðgengiseftirliti.

Þrátt fyrir að í lögum um mannvirki og byggingarreglugerð séu ákvæði um aðgengi fyrir alla og algilda hönnun er ekkert virkt eftirlit með því að þau ákvæði séu virt. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var fullgiltur síðastliðið haust, en enn komast eigendur mannvirkja upp með að reisa og breyta byggingum án þess að virða aðgengiskröfur. Málefnahópur ÖBÍ um aðgengi vill að komið verið á aðgengiseftirliti um allt land. Því verði sinnt af slökkviliðum landsins sem þegar sinna eldvarnareftirliti í öllum sveitarfélögum. Það hefur verið staðfest við málefnahópinn að slökkviliðin geti sinnt aðgengiseftirliti samhliða öðrum verkefnum. Hægt sé að beita dagsektum ef aðgengisstöðlum sé ekki fylgt eftir.

Ályktun aðalfundar ÖBÍ um atvinnu- og menntamál

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ), haldinn 20. – 21. október 2017, skorar á alla þingmenn sem munu taka sæti á Alþingi að loknum alþingiskosningum 28. október nk. að:
  • Auka atvinnutækifæri fatlaðs fólks og fólks með skerta starfsgetu þannig að hlutastörf við hæfi verði í boði.
  • Innleiða hvatningakerfi fyrir fyrirtæki og stofnanir til að ráða starfsfólk með skerta starfsgetu. Tryggt verði að viðeigandi hjálpartæki séu fyrir hendi.
  • Stofna opinberan lánasjóð fyrir fatlað fólk og örorkulífeyrisþega til að fjármagna kostnað til atvinnuuppbyggingar sem gæti stuðlað að aukinni atvinnuþátttöku þeirra.
  • Jafna tækifæri fatlaðs fólks til náms og tryggja að nemendur með sérþarfir fái þá lögbundnu þjónustu sem þeir eiga rétt á innan skólakerfisins.
  • Auka námsframboð fyrir eldri nemendur með sérþarfir.

Ályktun aðalfundar ÖBÍ um heilbrigðismál

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 20. – 21. október 2017, skorar á alla þingmenn sem munu taka sæti á Alþingi að loknum alþingiskosningum 28. október nk. að koma á gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu.

Stefna þarf að gjaldfrjálsri heilbrigðis- þjónustu, fyrst fyrir börn, langveika og öryrkja. Nú eru í gildi greiðsluþátttökukerfi fyrir lyf og fyrir heilbrigðisþjónustu, en sameiginleg greiðsluþök þeirra eru alltof há. Þau þarf að lækka hið fyrsta. Þar fyrir utan leggst margvíslegur annar kostnaður á sjúklinga. Þar má nefna sálfræðiþjónustu, ferðakostnað innanlands, tannlækna- þjónustu, tæknifrjóvganir og næringarráðgjöf sem þarf að setja undir greiðsluþak, og tryggja að gjaldskrár um endurgreiðslur vegna heilbrigðiskostnaðar, s.s. tannlækna- þjónustu, séu uppfærðar árlega m.t.t. launavísitölu og breytingu á vísitölu neysluverðs.

Ályktun aðalfundar ÖBÍ um kjaramál

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 20. – 21. október 2017, skorar á alla þingmenn sem munu taka sæti á Alþingi að loknum alþingiskosningum 28. október nk. að bæta kjör örorkulífeyrisþega með því að hafa áhrif á fjárlagagerð ríkisins fyrir árið 2018 með eftirfarandi hætti:
  • Hækka óskertan lífeyri almannatrygginga í 390.000 kr. fyrir skatt (framfærslu- viðmið án heimilisuppbótar).
  • Afnema krónu-á-móti-krónu skerðingu sérstakrar framfærsluppbótar með því að fella bótaflokkinn inn í tekjutrygginguna.
  • Afnema tekjuskerðingar í almannatryggingakerfinu.
  • Hækka persónuafslátt þannig að ekki verði greiddur skattur af tekjum undir 300.000 kr. á mánuði.
  • Setja lög til að koma í veg fyrir víxlverkun skerðinga á milli greiðslna úr lífeyrissjóðum og úr almannatryggingakerfinu.

Ályktun aðalfundar ÖBÍ um notendastýrða persónulega aðstoð

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 20. – 21. október 2017, skorar á alla þingmenn sem munu taka sæti á Alþingi að loknum alþingiskosningum 28. október nk. að lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð fyrir áramót, sbr. yfirlýsingu formanna allra flokka á Alþingi dags. 26. september 2017.

Krafan felur í sér að þjónustuformið sé fellt inn í núgildandi lög um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992, sem eitt meginform af þjónustu við fatlað fólk, og tryggt verði nægilegt fjármagn til að mæta þörf allra einstaklinga sem falla undir skilyrði umræddra laga.

Ályktun aðalfundar ÖBÍ um mannréttindavernd fatlaðs fólks

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ), haldinn 20. – 21. október 2017, hvetur alla þingmenn sem munu taka sæti á Alþingi að loknum alþingiskosningum 28. október nk. að tryggja að staðið verði við þingsályktun frá 20. september 2016.

Er þannig skorað á alþingismenn að tryggja að valkvæður viðauki við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði fullgiltur fyrir árslok 2017, í samræmi við þingsályktunina. Viðaukinn kveður á um kæruleið fyrir þá sem telja á sér brotið og er þannig mikilvægur þáttur í því að gæta þeirra réttinda sem tryggja á með samningnum. Þingsályktun frá 20. september 2016 er hér: https://www.althingi.is/altext/145/s/1693.html