Orðræða
”Fötlun er enginn mælikvarði á hvort lífið sé þess virði. Lífshamingjan felst ekki í færni.
Ableismi
Ableismi eru kerfisbundnir fordómar og mismunun gagnvart fötluðu fólki. Rasismi er sambærilegur gagnvart hörundslit og sexismi gagnvart kyni.
Ableismi er hugmyndakerfi sem er svo inngróið í samfélaginu að það hefur litað allt í menningu okkar.
Grunnhugmynd ableisma er að fötlun sé slæm og betra sé að vera ófötluð manneskja. Litið er á fötlun sem galla en ekki sem hluta eðlilegrar birtingarmyndar mannlegs fjölbreytileika.
Ekki er litið á fatlað fólk sem hluta af samfélaginu og gert er ráð fyrir að þau sem eru fötluð geti minna en hin ófötluðu. Fatlað fólk sést til dæmis mjög sjaldan í auglýsingum og kvikmyndum, hvað þá sem kynverur.
Skortur á aðgengi að húsnæði, menntun og vinnumarkaðnum og fósturskimanir eru dæmi um birtingarmyndir ableisma.
Öráreiti
Öráreitni er ein birtingarmynd ableisma og er áreitni sem fatlað fólk upplifir í sínum hversdagsleika, í orðum eða annarri framkomu fólks, sem felur í sér neikvæð skilaboð.
Ef litið er á hvert atvik fyrir sig, virðist það vera smávægilegt (ör-/micro-) en þegar einstaklingur upplifir slíkt endurtekið og jafnvel oft á dag, þá hefur það mikil áhrif á andlega líðan.
Dæmi um öráreitni er að talað er við fatlað fólk eins og börn, gláp og meðaumkun.
Mjög algengt er að þegar fatlað fólk greinir frá öráreitni, þá er gert lítið úr upplifuninni (s.s. „Þetta var nú ekki illa meint“).
Það má líkja öráreitni við að ef potað er í manneskju einu sinni, getur hún leitt það hjá sér en ef potað er margoft og jafnvel daglega, verður upplifunin mjög sterk, óþolandi og erfið.
„Þrátt fyrir fötlun“
„Að láta ekki fötlunina stöðva sig“ og „þrátt fyrir fötlun“ er orðalag sem felur í sér hvers er vænst. Það er að ef þú ert fötluð manneskja þá hlýtur þú bara að gefast upp af því allt er svo erfitt.
Þú ert fórnarlamb örlaganna og þess vegna algjör hetja ef þú gerir jafnvel hversdagslega hluti svo sem eins og að sinna áhugamálum, stunda vinnu, keyra bíl og setja á þig augnskugga. Þetta viðhorf er beinlínis rangt. Fatlað fólk er venjulegt fólk, hvorki fórnarlömb né hetjur.
Vissulega geta verið hindranir í veginum en þær eru sjaldnast fötlunin, heldur fordómar, slæmt aðgengi og skortur á aðstoð, svo eitthvað sé nefnt.
Réttara væri því að segja að einhver láti ekki skilningsleysi samfélagsins stoppa sig.
„Bundinn hjólastól“
Að vera „bundinn hjólastól“ er vissulega notað í óeiginlegri merkingu, þ.e. að viðkomandi getur ekki án stólsins verið. Að vera bundinn eða háður einhverju telst þó vera neikvætt og því er fatlað fólk almennt ekki sátt við þetta orðalag.
Að einhver „noti hjólastól“ er hlutlaust orðalag og því betra.
Orðalag
Notum orð um fólk sem sátt er um að séu notuð. Dæmi: Fatlað fólk. Hreyfihamlað fólk. Fólk með geðrænar áskoranir. Blint fólk eða blindir. Fólk með sjónskerðingu eða sjónskertir. Fólk með heyrnarskerðingu. Fólk með þroskahömlun.
Margþætt mismunun
Margþætt mismunun verður þegar ableismi skarast við rasisma, sexisma, hinseginhatur og flóttamannastöðu, svo dæmi séu tekin. Manneskja er aldrei bara eitthvað eitt, fólk er með mismunandi húðlit, kynvitund, kynhneigð, fatlað/ófatlað, sem dæmi.
Manneskja sem er fötluð, hinsegin og með dökka húð upplifir t.d. margþætta mismunun.
Flóttafólk / Öryrkjar
Af og til heyrast þær raddir, einnig meðal stjórnmálafólks, að við sem þjóð eigum fyrst að bæta aðstæður okkar fólks áður en við hjálpum öðrum og eru bág kjör öryrkja gjarnan nefnd í því samhengi. Þarna er verið að stilla upp tveimur hópum sem þurfa á aðstoð að halda gegn hvor öðrum.
Ýjað er að því að þeir fjármunir sem fara í móttöku flóttafólks séu ástæðan fyrir fátækt meðal öryrkja. Ef sú væri raunin, þá hefðu öryrkjar búið við mun betri lífskjör áður en móttaka flóttamanna hófst en því fer víðs fjarri. Ekkert orsakasamband er þarna á milli og ríkið getur gert hvort tveggja, tekið á móti stríðshrjáðu fólki á flótta og bætt kjör öryrkja ef pólitískur vilji væri fyrir hendi.
Fatlað fólk kærir sig ekki um að mannréttindabrot gagnvart þeim sé notað sem afsökun fyrir þá sem eru andvíg móttöku flóttafólks. Það fólk innan stjórnmálanna sem lýsir þessari skoðun hefur enda ekki sýnt vilja til að bæta kjör öryrkja.
„Galli!“
„Fæðingargalli“ og „Litningagalli“ » Þetta orðalag á rætur í ableisma. Litið er á fötlun sem galla en ekki sem hluta eðlilegrar birtingarmyndar mannlegs fjölbreytileika.
Börn fæðast allskonar, líka fötluð. Það er eðlilegt, því þannig er náttúran. Þannig er lífið.
Öll börn eru fullkomin nákvæmlega eins og þau eru. Ekkert barn fæðist gallað. Skárra væri að nefna beint s.s. „skarð í vör“ eða „Downs heilkenni“.
„Sérþarfir“
„Nemendur með sérþarfir“ » Við höfum flest öll sömu grunnþarfir alla ævi, þörfnumst öryggis, viðurkenningar, tækifæra til að þroska hæfileika okkar o.s.frv. Hins vegar þarf mismunandi aðferðir til að mæta þessum þörfum t.d. í skólanum og á vinnumarkaði, því við erum ekki öll eins.
Skólanum ber að mæta hverjum nemanda á einstaklingsgrunni, burtséð frá fötlun. Bráðger börn þurfa t.d. annað námsefni en flestir jafnaldrar þeirra, samt er ekki rætt um þau sem nemendur með sérþarfir.
Margbreytileikinn er hin eðlilega birtingarmynd þess að við erum manneskjur. Sérþarfir eru því í raun ekki til. Þetta orðalag í opinberum gögnum er dæmi um ableisma.
Nær væri að tala um aðferðir eða getu skólakerfisins til að mæta þörfum fatlaðra nemenda.
„Okkar minnstu“
„Okkar minnstu bræður og systur“ og „þau sem minna mega sín“ »
Þetta orðalag er hluti af meðaumkunaröráreitni og gerir lítið úr fötluðu fólki. Orðalagið vísar til þess að veik staða fatlaðs fólks í samfélaginu orsakist af andlegu eða líkamlegu atgervi þessa hóps.
Vissulega er fatlað fólk oft í veikri stöðu í samfélaginu en það er ekki vegna áskapaðra þátta, heldur jaðarsetningar samfélagsins.
Margt fatlað fólk býr til dæmis við fátækt sem leiðir til versnandi andlegrar og líkamlegrar heilsu sökum þess að þetta fólk hefur ekki ráð á læknisþjónustu eða að leysa út lyf þegar velja þarf á milli þess og að kaupa mat. Fyrir utan þau slæmu áhrif á andlega heilsu sem hin félagslega einangrun sem fylgir fátæktinni hefur. Fólk hefur jafnvel ekki efni á að fara á kaffihús, hvað þá aðrar skemmtanir eða ferðalög. Fátækt meðal öryrkja orsakast af pólitískum ákvörðunum.
Annað dæmi er að fatlað fólk sem hefur þörf fyrir aðstoð í daglegu lífi hefur búið við valdaleysi í eigin lífi. Stofnanir eins og sambýli eru dæmi um það, þar sem íbúarnir þurfa að fylgja reglum stofnunarinnar. Barist hefur verið fyrir því að fatlað fólk fái að ráða með hverjum það býr, hver aðstoðar það og hvernig það hagar sínu daglega líf, rétt eins og ófatlað fólk telur sjálfsagt í sínu lífi.
NPA, notendastýrð persónuleg aðstoð, er dæmi um það þegar fatlaður einstaklingur ræður til sín aðstoðarfólk og stjórnar sínu lífi eftir eigin höfði.
Inngilding
Inngilding snýst alls ekki um forgang vegna fötlunar. Þetta snýst um að öll kerfi samfélagsins geri ráð fyrir fötluðu fólki, að það sé innbyggt í strúktúrinn, að fatlað fólk fái tækifæri til jafns við aðra.
Það gildir það sama um fatlað fólk og ófatlað að enginn einn getur allt en öll getum við eitthvað. Þetta er einfaldlega sú hugsun að við viljum ekki útilokun. Inngilding er andstæða útilokunar. Inclusion vs exclusion. Einstaklingur getur t.d. haft frábæra leiklistarhæfileika þó viðkomandi geti ekki gengið.
Kjarninn í inngildingu er að samfélagið sé ekki bara fyrir ófatlaða, heldur okkur öll. Við erum hérna líka. Það er talað um jaðarsetta hópa. Hver hefur sett hópinn á jaðarinn? Það hefur meirihlutinn gert, sem er ófatlaður, hvítur o.s.frv.. Hugsunin um að við fáum öll tækifæri er ekki bara falleg, hún er líka framkvæmanleg. Það felst engin krafa í þessu um að við sem erum fötluð verðum að fá að gera allt sem við viljum. Krafan er að fá tækifærið, að vera ekki fyrirfram útilokuð.
”Tilvist fatlaðs fólks er ekki til að kenna ófötluðu fólki þakklæti eða vera því hvatning.
Þorbera Fjölnisdóttir, 2023