Hæstiréttur Íslands komst að þeirri niðurstöðu í dag að málsmeðferð sveitarfélags hefði farið „verulega úr skorðum“ í máli sem varðaði réttindi einstaklings til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA). ÖBÍ studdi einstakling í baráttu hans við sveitarfélag en baráttan hefur staðið yfir frá haustinu 2018. Einstaklingurinn sótti um NPA hjá sveitarfélaginu í október 2018. Þegar hann hafði beðið í rúmlega tvö ár eftir að fá þjónustuna höfðaði hann dómsmál gegn sveitarfélaginu. Málinu lauk í dag með áfellisdómi yfir sveitarfélaginu og vinnubrögðum þess við meðferð á umsókn einstaklingsins um NPA samning.
Sveitarfélagið taldi sér ekki skylt að veita einstaklingnum NPA þrátt fyrir að sá réttur kæmi skýrt fram í lögum og hefði auk þess stoð í stjórnarskrá og Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Sveitarfélagið taldi að því hefði verið heimilt að láta einstaklinginn bíða þar til sveitarfélagið sjálft og ríkið tækju ákvörðun um að veita fjármagni til NPA samningsins. Landsréttur hafði tekið undir með sveitarfélaginu í dómi sínum en með dómi Hæstaréttar var ekki fallist á þessi sjónarmið. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að einstaklingurinn hafi verið í brýnni þörf fyrir skjóta afgreiðslu erindis síns og að sveitarfélaginu hafi mátt vera það ljóst. Þá hafi verið ágreiningslaust að einstaklingurinn uppfyllti skilyrði þess að fá NPA. Því hafi meðferð og vinnsla sveitarfélagsins á umsókn einstaklingsins farið verulega úr skorðum og falið í sér meingerð gegn persónu hans.
Dómur Hæstaréttar er mikilvægt skref í þá átt að réttindi fatlaðs fólks séu virt og markar vonandi tímamót í afstöðu sveitarfélaga til slíkra réttind. ÖBÍ væntir þess að sveitarfélög taki mannréttindi fatlaðs fólks alvarlega og líti á þau sem skýran rétt sem sveitarfélög eru skuldbundin til að veita og það sé ekki frjálst val sveitarfélaga hvort og þá hvernig mannréttindi eru virt.
Dóminn má nálgast hér.