Könnunin var gerð á meðal launafólks innan ASÍ og BSRB, og er þetta í annað sinn sem könnnun af þessu tagi er gerð meðal launafólks. Varða gerði áþekka könnun síðasta haust á meðal öryrkja.
Markmið könnunarinnar var að fá upplýsingar um fjárhagsstöðu launafólks, stöðu þeirra á húsnæðismarkaði og starfsumhverfi þeirra í heimsfaraldri. Könnunin var lögð fyrir seinni part nóvember og fyrri part desember 2021.
Líkt og í könnun Vörðu á meðal öryrkja eru það einstæðir foreldrar sem koma hvað verst út.
20,3% einstæðra mæðra á vinnumarkaði hafa ekki efni á að greiða fyrir skipulagðar tómstundir barna sinna. Það sama gildir um 16,4% einstæðra feðra.
Í könnun Vörðu á stöðu fatlaðs fólks kom fram að 44% einstæðra mæðra gátu ekki greitt fyrir skipulagðar tómstundir barna, og 43% feðra.
Tæplega 7 af hverjum 10 einstæðra mæðra gætu ekki mætt óvæntum útgjöldum upp á 80 þúsund krónur og um annar hver einstæðra feðra. 30% einstæðra mæðra geta ekki keypt nauðsynlegan fatnað fyrir börnin sín, og ríflega 23% þeirra geta ekki gefið barni sínu eins næringarríkan mat og þær telja barnið þurfa.
Drífa Snædal forseti ASÍ sagði eftir kynningu á rannsókninni að „við þurfum að huga sérstaklega að húsnæðismálum, við þurfum að huga að tilfærslu kerfunum, sérstaklega gagnvart barnafólki, sérstaklega gagnvart þeim sem eru einir að standa fyrir heimili, og síðan heilsu, aðgengi að sterkri opinberri gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu“.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir sagði eftir kynninguna að hún vildi „vekja athygli á því það sem könnunin er að mæla er í raun grunnþarfir. Við erum að tala um hvort foreldrar hafi efni á að fæða og klæða börnin sín og tryggja öruggt húsnæði.“
Sonja tekur undir með Drífu þega hún sagði að besta leiðin væri að horfa til húsnæðiskerfisins, og síðan til annara stuðningskerfa, þegar leitað væri leiða til aukins jöfnuðar.
Í því samhengi má geta þess að húsnæðisbætur hafa ekki hækkað að grunntölu síðan árið 2018, og hefur formaður ÖBÍ sent nýjum innviðaráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni bréf þar að lútandi, enda lög um húsnæðisstuðning skýr þegar kemur að hækkun grunnfjárhæða, sem eiga að taka breytinginum í takt við efnahags þróun. Ef húsnæðisstuðningur hefði fylgt vísitölu neysluverðs frá 1 janúar 2018, væri hann rúmlega 15% hærri í dag. En er óbreyttur. Fyrir þann sem býr einn, þýðir það rúmlega 5.000 krónur hærri húsnæðisstuðning mánaðarlega.
Annar hópur sem kemur illa út úr könnuninni eru innflytjendur, sem nú eru um 17 til 20% af íslenskum vinnumarkaði.
Tæplega helmingur þeirra á mjög erfitt, erfitt, eða nokkuð erfitt með að ná endum saman. Hærra hlutfall innflytjenda býr við skort á efnislegum gæðum og um helmingur þeirra býr við þunga byrði af húsnæðiskostnaði.
Drífa sagði að ekki væri annað hægt en að draga samasem merki milli fátæktar, eða lélegrar fjárhagsstöðu, versnandi andlegrar heilsu og skort á aðgengi að heilbrigðisþjónustu, þjónustu tannlækna og sálfræðinga fyrst og fremst.