Átta af hverjum tíu eiga erfitt eða frekar erfitt með að ná endum saman
Sex af hverjum tíu geta ekki mætt óvæntum útgjöldum
Fjórir af hverjum tíu búa við skort á efnislegum gæðum
Viltu ekki verða einn af þeim? Höldum áfram…
Níu af hverjum tíu einhleypum og einstæðum foreldrum eiga erfitt eða frekar erfitt með að ná endum saman
Helmingur einstæðra foreldra og einhleypra býr við skort á efnislegum gæðum
Fjórir af hverjum tíu einstæðum foreldrum geta ekki veitt börnum sínum eins næringarríkan mat og þeir vilja eða greitt kostnað vegna skipulagðra tómstunda
Viltu enn ekki verða einn af þeim? Höldum þá áfram…
Átta af hverjum tíu hafa neitað sér um heilbrigðisþjónustu
Margir finna fyrir félagslegri einangrun og meirihluti finnur fyrir fordómum
Talsverður vilji er meðal þeirra að vera á vinnumarkaði en heilsan er helsta fyrirstaðan
Eruð þið einhverju nær um um hverja ég er að tala? Gef ykkur eina vísbendingu í viðbót …
Sex af hverjum tíu segja mikilvægast að hækka örorkulífeyri og tengdar greiðslur spurðir um breytingar á almannatryggingakerfinu. *
Já, ég er að tala um fatlað fólk á Íslandi, öryrkja. Vilt þú verða einn af þeim? Finnst þér þetta eftirsóknarverð lífsgæði? Ef ekki slástu þá með og styddu okkur í baráttunni fyrir mannsæmandi lífi. Það veit enginn hver verður næstur. Nú hillir undir nýjan stjórnarsáttmála og það verður forvitnilegt að sjá hvað verðandi ríkisstjórn hefur fram að færa í málefnum öryrkja. Hver v erða framtíðarlífskjör öryrkja? Núverandi kjör, m.a. þessi sem ég taldi upp hér að ofan, eru óviðunandi, svo vægt sé til orða tekið. Við viljum réttlæti, við viljum lífsgæði. Svo einfalt er það.
* Niðurstöður Vörðu, rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins. Staða fatlaðs fólk á Íslandi. Rannsóknin var unnin fyrir Öryrkjabandalag Íslands. September 2021.
Höfundur er kennari, blaðamaður og öryrki.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. nóvember 2021