Um tíma hafa samningar verið lausir milli sérgreinalækna, sjúkraþjálfara og Sjúkratrygginga Íslands fyrir hönd ríkissjóðs. Ekkert virðist gerast í þessari deilu. Hún er í hnút. Úr ranni sérfræðilækna heyrist að þeir þurfi ekkert á samningi að halda. Hið opinbera hótar með innleiðingu nýrrar reglugerðar með þeim boðskap að þá skuli þeir bara hafa það svo. Á meðan greiða sjúklingar fagstéttunum rekstrarálag upp á 1.700 milljónir úr eigin vasa. Stundum hvarflar að manni að hvorum megin sem samningsaðilar sitja séu þeir sáttir við þetta ósætti.
Vissulega bitnar samkomulagsleysi þessara aðila á sjúklingum. Þeir greiða einir þau aukagjöld sem rekstraraðilarnir hafa sett á og innheimta utan kostnaðarþátttökukerfisins. Að baki aukagreiðslunum er engin skilgreind þjónusta. Gjaldið er fyrst og fremst óskilgreint veltuálag þess reksturs sem að baki liggur. Þessi álagning skekkir allt tal um minnkandi kostnaðarþátttöku almennings í heilbrigðisþjónustu.
Í júní síðastliðnum fékk málefnahópur Öryrkjabandalagsins um heilbrigðismál Svein Hjört Hjartarson hagfræðing til að meta umfang aukagjaldanna, veltuálagsins. Niðurstöðurnar voru kynntar nú um miðjan október. Sveinn áætlar þar að umfang veltuálagsins nemi tæpum 1.700 milljónum á ári. Notendur þjónustu þessara fagaðila greiða því á ári hátt á annan milljarð króna utan kostnaðarhlutdeildar ríkis. Ef aðilar væru með samning væri þessi þjónusta alfarið undir kostnaðarþaki og innan þess sáttmála sem hefur verið í gildi um greiðslu fyrir heilbrigðisþjónustu. Raunar má segja að ástand þetta geri kostnaðarþátttökukerfið hriplekt. Einnig verður öll umræða um árangur ríkisstjórnarinnar um lækkun kostnaðar sjúklinga í heilbrigðiskerfinu kolröng.
Áætluð heildarfjárhæð sérstaka komugjaldsins til sérfræðilækna er að meðaltali 878 milljónir króna síðastliðin þrjú ár. Hér er miðað við miðgildi sérstaks komugjalds sérfræðilækna. Hlutur öryrkja af komugjaldi er áætlaður um 90,2 milljónir króna. Upphæð aukagjalda sérgreinalækna við komu er almennt frá 1.500 upp í 2.200 krónur. Þá er áætluð heildarfjárhæð aukakomugjalda til sjúkraþjálfara um 780 milljónir króna á ári, miðað við miðgildi gjaldsins. Kostnaðarhluti öryrkja er áætlaður um 150 milljónir króna. Upphæðir aukagjalda sjúkraþjálfara reyndust vera allt frá 500 upp í 1.500 krónur við hverja komu.
Samanlagt er þetta ekki lítil upphæð. Hér er um að ræða flóðgáttir undan kostnaðarþátttökukerfi landsmanna; kerfi sem á að tryggja aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Til samanburðar má taka stórátak ríkisstjórnarinnar í geðheilbrigðismálum með árlegri innspýtingu á fjármagni um einn milljarð. Gott mál það og tímabært. Byggist fjármögnun þess verkefnis á því að aðrir sjúklingahópar borgi? Það væri ekki ný aðferð. Það gefur augaleið að fólk með stoðkerfisvanda er stærsti hópurinn sem greiðir umrætt veltuálag fagstéttanna.
Umfang veltuálagsins er byggt á tíðni koma og miðgildi þess verðs sem innheimt er. Kostnaðurinn fer hækkandi eftir því sem þjónustan er notuð meira. Þeir veikari greiða því meira en þeir sem þurfa minna á þjónustunni að halda. Andstætt þeirri hugsun sem er í kostnaðarþátttökukerfinu. Með dæmum má sýna fram á margföldun á kostnaðarþakinu að óbreyttri greiðslu veltuálags. Notast er við 2.200 króna aukagjald hjá sérgreinalæknum og 1.000 krónur hjá sjúkraþjálfurum. Ef öryrki heimsækir sérgreinalækna fimm sinnum á ári og þarf á sjúkraþjálfun að halda tvisvar í viku í 20 vikur hækkar kostnaðarþak hans um 240% en gildandi þak er 18.317. Til eru fleiri tilfelli en menn grunar um fólk sem þarf á sjúkraþjálfun að halda tvisvar í viku, í 40 vikur. Þá hækkar kostnaðarþak viðkomandi um 350% á ári.
Það er ekki hægt að líta öðruvísi á en að með innheimtu á þessu veltuálagi sé sáttmála um hámarkskostnað sjúklinga í heilbrigðisþjónustu rift og það einhliða af þjónustuveitendum. Veltuálagið leggst þungt á fatlaða, langveika og lágtekjufólk; alla þá sem meira þurfa á þjónustunni að halda. Lífeyrisþegar og lágtekjufólk hafa þegar dregið úr því að nýta þessa þjónustu og/eða neita sér um hana samanber nýlega könnun Vörðu á högum öryrkja.
Hér verður ekki tekin afstaða með eða á móti samningsaðilum. Í samningum verða báðir aðilar að gefa eftir. Ef semja á um kerfisbreytingu tekur hún tíma og öllum á að vera ljóst að fjármagnið er takmarkað. Eftir stendur skylda aðila að semja. Þjóðin hefur svarað því hvernig heilbrigðiskerfi hún vill. Hér er því skorað á samningsaðila að hætta öllu vafstri og setjast nú af alvöru að samningaborðinu. Í þessum leik er notandinn eins og fótbolti í fótboltaleik. Það er bara sparkað í hann og hann borgar fyrir.
Höfundur er framkvæmdastjóri Gigtarfélags Íslands. emilthor@gigt.is
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. október 2021