Skip to main content
FréttMenntamálViðtal

„Menntun er málið fyrir alla“

By 4. október 2021ágúst 31st, 2022No Comments

Áslaug Ýr Hjartardóttir, formaður málefnahóps ÖBÍ um atvinnu- og menntamál

„Ég hafði áður tekið þátt í stúdentapólitíkinni í Háskóla Ísland, setið í stjórn Röskvu og sem varamaður í Stúdentaráði auk þess að sitja í Jafnréttisnefnd SHÍ. Mér fannst vanta meiri umræðu um fatlað fólk í háskólum og aðgengi þeirra að menntun svo ég gekk til liðs við málefnahóp ÖBÍ um atvinnu- og menntamál þar sem ég var kjörin varaformaður. Ekki grunaði mig að þáverandi formaður myndi falla frá innan skamms og áður en ég vissi af þurfti ég að stíga inn sem formaður í eitt ár. Eftir þetta eina ár ákvað ég að bjóða mig aftur fram enda brenn ég fyrir málefninu,“ segir Áslaug Ýr.

„Þar sem ég er sjálf fatlaður háskólanemi brenn ég mest fyrir menntamálum og aðgengi fatlaðra og langveikra að menntun. Við höfum verið að skoða það ásamt því að vinna með aðgengi að vinnumarkaðnum, s.s. fjölgun hlutastarfa og þannig. En þar sem þetta eru tvö stór mál sem stundum skarast og stundum ekki þá hefur reynst erfitt að kafa dýpra í þau bæði, þannig ég hef líka verið að tala fyrir því að málefnahópnum verði skipt svo við getum sérhæft okkur betur og öðlast betri yfirsýn yfir þessi stóru og mikilvægu mál. Við lentum auðvitað í COVID 19-faraldrinum eins og aðrir og hann hafði mikil áhrif á samfélagið, bæði hvað varðar menntun og atvinnu. Við höfum því undanfarið ár verið að vinna með áhrif faraldursins á kerfið, meðal annars með tilliti til fjarnáms og fjarvinnu.“

Fatlaðir og langveikir hafa ekki sömu tækifæri

Réttinda-Ronja er verkefni og heimasíða sem er ætluð nemendum á háskólastigi á Íslandi við að leita upplýsingar um réttindi sín í námi og úrræði sem að standa til boða í náminu. Hún er í boði fyrir alla en sérstaklega ætluð fötluðum nemendum og nemendum með sértæka námsörðugleika. „Réttinda-Ronja er mikið framfaraskref og svo höfum við aukið samstarf við aðra hagsmunaaðila, til dæmis eru fulltrúar háskólanna farnir að leita til okkar eftir ráðleggingum sem er mjög mikilvægt, sérstaklega þegar viðkomandi eru að vinna að aðgengi fatlaðra að menntun. Þá erum við í góðu samstarfi við Samband framhaldsskólanema og Samtök fyrirtækja svo dæmi séu nefnd.“

Hverju er enn verið að berjast fyrir? „Nú, auðvitað aðgengi að menntun, en eins og staðan er í dag hafa fatlaðir og langveikir ekki sömu tækifæri og aðrir til menntunar á Íslandi. Einnig berjumst við fyrir aukningu hlutastarfa og þess háttar.“ Einhver skilaboð til stjórnvalda að lokum? „Menntun er málið fyrir alla.“

„Eins og staðan er í dag hafa fatlaðir og langveikir ekki sömu tækifæri og aðrir til menntunar á Íslandi.“

Umsjón og mynd: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir.

Tímarit ÖBÍ 1. tbl. 2021 | Öryrkjabandalag Íslands (obi.is)