Samningur var undirritaður í maí 2020 við Landsbókasafn – Háskólabókasafn um varðveislu og miðlun tímarits bandalagsins frá upphafi útgáfunnar. Öll tölublöðin, sem spanna 30 ára tímabil, voru skönnuð og skráð sumarið 2020. Þar með eru öll útgefin Fréttabréf Öryrkjabandalagsins (1988- 2001) og Tímarit ÖBÍ (2002-2018) orðin aðgengileg á timarit.is og samskrá íslenskra bókasafna.
Ávinningurinn er margvíslegur en einn sá veigamesti er að Landsbókasafn skráir og efnisgreinir allt efni í ritunum sem þýðir að raddir okkar og viðhorf eru orðin mun sýnilegri og aðgengilegri þar sem safnið gerir texta eldri tölublaðanna „tölvutækan með því að lesa stafrænu myndirnar með tölvulestri“ (OCR). Auk þess auðveldar þetta fræðimönnum og nemendum á öllum skólastigum heimildavinnu.