Breytingin er gerð á 7. gr. reglugerðarinnar, sem hljóðar eftir breytinguna þannig að „Ef heimilismaður er á aldrinum 18-25 ára og í fullu námi skulu aðrir heimilismenn þó ekki teljast hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum við hann.“
Tryggingastofnun mun á næstunni fara yfir hvaða viðskiptavinir kunni að falla undir þessa breytingu og senda þeim bréf þar um og kynna mögulegan rétt á heimilisuppbót með hliðsjón af þessari breytingu.
Jafnframt beinir Tryggingastofnun þeim tilmælum til þeirra sem telja sig falla undir þessa breytingu, að sækja um heimilisuppbót að nýju, eða hafa samband við Tryggingastofnun og kanna hvort rétturinn á heimilisuppbót kunni að vera til staðar.
Í stuttu máli má ganga út frá því að hafi heimilisuppbót fallið niður við 18 ára aldur heimilismanns, sem enn býr á heimilinum og er í námi og yngri en 25 ára, endurnýjast réttur til heimilisuppbótar. Viðkomandi þarf væntanlega að sækja um á ný hjá TR.
Öryrkjabandalagið hefur sótt þessa breytingu nokkuð stíft undanfarna mánuði og það er mjög ánægjulegt að geta greint frá henni nú.
Með henni er tekið stórt skref í jafnræðisátt, en þetta hefur verið einn stærsti þröskuldur öryrkja að styðja börn sín til náms, og geta nú að minnsta kosti boðið upp á að börnin búi áfram á heimilinu í gegnum nám sittt, eins og nú er að verða æ algengara.