Rétt til styrkja vegna kaupa á hjálpartækjum eiga þeir sem eru sjúkratryggðir á Íslandi. Skilgreiningin á hjálpartæki er að það er búnaður sem er ætlaður til að draga úr fötlun, aðstoða fólk með fötlun til að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Styrkir eru veittir vegna hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða.
Um mánaðamótin maí/júní tók gildi sú breyting að nú hafa Sjúkratryggingar Íslands heimild til að veita styrki til kaupa á tilteknum hjálpartækjum fyrir börn, sem búa á tveimur heimilum, og er það ákvæði í nýrri reglugerð. Börnin verða því jafnsett, sama á hvoru heimila sinna þau dvelja og eiga hjálpartækin vís á báðum heimilum. Hér er til að mynda styrkir til kaupa á sjúkrarúmum, dýnum, stuðningsbúnaði og hjálpartækjum tengdum salernisferðum.
Þessi reglugerð leysir af hólmi reglugerð sem breytt hefur verið níu sinnum á liðnum árum. Í frétt frá heilbrigðisráðuneytinu segir að þar með verði upplýsingar um reglur og réttindi fólks til styrkja til kaupa á hjálpartækjum, skýrar og aðgengilegri. Ný heildar reglugerð tekur gildi 1. júlí.
Í nýlegu svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, kom fram að skýrsla starfshópsins um fyrirkomulag hjálpartækja hafi verið rýnd í ráðuneytinu og drög að forgangsröðun tillagna liggi fyrir.
„Starfshópurinn skilaði skýrslu með tillögum til úrbóta. Tillögurnar miða allar að því að auka, bæta og einfalda aðgengi að hjálpartækjum sem einstaklingar þarfnast og að því að draga úr kostnaði notenda. Tillögurnar hafa verið rýndar í heilbrigðisráðuneytinu og gerð tillaga að forgangsröðun, en einnig er um að ræða tillögur sem heyra undir aðra en heilbrigðisráðuneyti, þ.e. önnur ráðuneyti eða sveitarfélög.“
Málefnahópur Öryrkjabandalagsins um heilbrigðismál hefur falast eftir þessum drögum að forgangsröðun en verið neitað um. Sem gerir hópnum erfitt með að fylgjast með framvindu þessa mikilvæga máls. Málefnahópurinn hefur af því vissar áhyggjur að ný reglugerð taki ekki nægjanlegt mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.