Skip to main content
Frétt

Hver á að borga?

By 3. nóvember 2020No Comments
Formaður ÖBÍ
Fyrir ekki svo löngu sté í ræðustól Alþingis í umræðum um fjármálaáætlun næstu fimm ára Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar, og spurði Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, út í hinn mikla mun sem nú er orðinn á örorkugreiðslum og lægstu launum.

Eins og margoft hefur komið fram, verður þessu munur orðinn 86 þúsund krónur um næstu áramót, þegar 3,6% hækkun örorkugreiðslna hefur komið til framkvæmda, sem og hækkun lægstu launa samkvæmt lífskjarasamningnum. Örorkugreiðslur ná því ekki nema um þremur fjórðu af lágmarkslaunum í þjóðfélaginu.

Svar Bjarna mátti skilja á þann hátt að það væri bagalegt að samið hefði verið um svo ríf legar hækkanir lægstu launa. En spurningin sem æpti á okkur væri náttúrulega hver ætti að borga þetta. Hver ætti að borga hækkanir almannatrygginga, svo þær hækkuðu í takt við hækkanir lægstu launa.

Svarið er kannski nær ráðherranum en hann hafði gert sér grein fyrir.

Í því fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir að til málefna fatlaðs fólks, örorkugreiðslur þar meðtaldar, verði varið 79,5 milljörðum.

Til málefna aldraðra 91 milljarði. Til að hækka greiðslur almannatrygginga til móts við lægstu laun þyrftu þær að hækka um ríf lega 30%. Þá verða þessir tveir liðir á fjárlögum samtals um 225 milljarðar króna, en eru um 170 í dag.

Og hver á að borga?, spyr fjármálaráðherra.

Þann 17. febrúar árið 2017, skipaði þáverandi fjármálaráðherra starfshóp, sem skilaði ráðherra skýrslu 20. júní sama ár.

Hlutverk starfshópsins var að meta umfang og áhrif skattundanskota og skattsvika á íslenskan þjóðarbúskap. Í niðurstöðum starfshópsins kemur fram að ekki liggi fyrir tölur um umfang skattsvika hér á landi, en undanfarna þrjá áratugi hafi þau verið metin þrjú til sjö prósent af landsframleiðslu árlega. Starfshópurinn segir í skýrslu sinni, að ef skattsvik eru metin sem fjögur prósent af landsframleiðslu, megi áætla að þau hafi numið 100 milljörðum árið 2016.

Sama prósentutala fyrir árið 2019 gefur okkur 118 milljarða. Þar að auki kemur fram í skýrslu starfshópsins, að ætla megi að íslenska ríkið verði af um sex milljörðum árlega vegna undanskota í tengslum við af landsfélög. Árið 2019 urðum við því sem þjóð af eitt hundrað tuttugu og fjórum milljörðum vegna skattsvika. Í fjárlögum fyrir árið 2019 var heildar upphæð til almannatrygginga rétt um 150 milljarðar. Því sem skotið var undan skatti það árið hefði fjármagnað nær 80% af útgjöldum okkar til almannatrygginga. Starfshópurinn valdi að skoða neðri mörkin. Munum að í skýrslunni segir að talið sé að undanskot nemi þremur til sjö prósentum. Og hvað gerist ef við reiknum nú sjö prósent? Jú, þá greiða skattundanskot öll útgjöld til almannatrygginga samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2019, og rétt um 63 milljarðar eru eftir í eitthvað annað. Til að setja þá tölu í samhengi er í fjárlagafrumvarpi ársins 2021 áætlaðir til samgöngumála 56 milljarðar.

Og ráðherra spyr hver á að borga?

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. nóvember 2020