Skip to main content
FréttHvatningarverðlaun

Hvatningarverðlaun ÖBÍ afhent í fjórtánda sinn

By 4. desember 2020september 1st, 2022No Comments

Í gær, á alþjóðadegi fatlaðs fólks, voru Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalagsins veitt í fjórtánda skipti. Verndari verðlaunanna, forseti Íslands, hr. Guðni Th Jóhannesson er verndari verðlaunanna, og var hann viðstaddur afhendingu þeirra, en vegna sóttvarna afhenti forseti ekki verðlaunin eins og venja hefur verið.

Athöfnin bar auk þess mikinn keim af ástandinu í þjóðfélaginu. Aðeins 10 gátu verið í salnum í einu þegar Þuríður Harpa Sigurðadóttir hélt sína ræðu, og því engir gestir en athöfninni var streymt á netinu.

 Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson flytur ræðu sína

Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands eru veitt þeim sem hafa með verkum sínum stuðlað að einu samfélagi fyrir alla og endurspegla nútímalegar áherslur um þátttöku, sjálfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks.

Leitað var tilnefninga meðal almennings og í ár voru 25 aðilar tilnefndir.

Í flokki einstaklinga hlaut Hvatningarverðlaun ÖBÍ Sunna Dögg Ágústdóttir, fyrir að vera ötull talsmaður ungs fólks með þroskahömlun.

Sunna hefur vakið athygli á því að fatlað fólk sé útsettara fyrir því að verða fyrir áreiti á netinu, ásamt því að benda á að „jafnrétti snúist ekki um að allir fái það sama heldur um að mæta mismunandi þörfum þannig að allir geti notið sömu tækifæra“.

Sunna Dögg Ágústsdóttir flytur ræðu

Í flokki fyrirtækja/stofnana varð Íþróttafélagið Ösp fyrir valinu að þessu sinni, fyrir að standa að íþróttaæfingum og mótum fyrir börn með fötlun síðan 1980.

Markmið Aspar er að standa fyrir íþróttaæfingum fyrir einstaklinga með fötlun þeim til heilsubótar og ánægju og býður upp á æfingar í átta íþróttagreinum, þannig að allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

 Forsvarsfólk Aspar

Í flokki umfjöllunar/kynningar, varð Pepp Ísland fyrir valinu, fyrir þrotlausa baráttu gegn fátækt og félagslegri einangrun öryrkja og fleiri minnihlutahópa.

Sumarið 2020 tók Pepp þátt í verkefninu „Sumarsamvera“ í samstarfi við Reykjavíkurborg

Verkefnið snýst um að rjúfa félagslega einangrun í kjölfar Covid-19, en félagsleg einangrun hefur komið illa við marga jaðarsetta hópa, einkum fólk sem ekki stendur vel félagslega eða fjárhagslega.

Pepp Ísland

Í flokknum verkefni aðildarfélaga ÖBÍ varð SÍBS fyrir valinu fyrir að vera leiðandi í atvinnumálum öryrkja og fólks með skerta starfsgetu og að hafa leitast við að draga fram jákvæð samfélagslegáhrif með atvinnu fyrir alla.

Múlalundur, vinnustofa SÍBS er öflugt þjónustu- og framleiðslufyrirtæki sem rekið er af SÍBS til að skapa störf fyrir fólk með skerta starfsorku.

Múlalundur er mikilvægur málsvari fyrir aðrar leiðir í atvinnuþróun nú þegar störfum fækkar og þau verða flóknari og  fleiri hópar verða jaðarsettir á vinnumarkaði.

Forsvarsmaður SÍBS