Alþingi fól Ríkisendurskoðun á árinu 2019 að framkvæma endurskoðunina, og kom Öryrkjabandalagið sjónarmiðum sínum vel á framfæri við Ríkisendurskoðun.
Alþingi fór fram á að í skýrslunni kæmi eftirfarandi fram:
Hvort starfsemi Tryggingastofnunar og þær verklagsreglur sem stofnunin hefur sett sér um meðferð stjórnsýslumála sé í samræmi við sjónarmið um málefnalega og viðurkennda stjórnsýsluhætti.
Mat á árangri Tryggingastofnunar við framkvæmd lífeyristrygginga almannatrygginga samkvæmt lögum um almannatryggingar og framkvæmd laga um félagslega aðstoð.
Mat á stuðningi félagsmálaráðuneytis við starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins og mat á viðbrögðum ráðuneytisins við athugasemdum um meinbugi á lögum og reglugerðum sem torveldað gætu störf Tryggingastofnunar.
Hvort framlög ríkisins til stofnunarinnar tryggi með fullnægjandi hætti að hún geti sinnt því hlutverki sem henni er falið.
Ábendingar um aðgerðir sem grípa verður til svo að Tryggingastofnun ríkisins geti sem best sinnt lögbundnu hlutverki sínu og tryggt vandaða og málefnalega stjórnsýslu í starfsemi sinni.
Niðurstöður Ríkisendurskoðunar sýna meðal annars í hnotskurn hve kerfi almannatrygginga er orðið flókið og ósveigjanlegt. Þannig kemur fram í skýrslunni að um 90% lífeyrisþega fengu ýmist of- eða vangreiðslur, og greiðslur til þeirra því endurreiknaðar. Ríkisendurskoðun leggur meðal annar stil að ábati þess að sett verði vikmörk niðurfellingar endurgreiðslna verði metinn, en fjárhæðin í dag miðast við 1000 krónur.
Öllu alvarlega er hins vegar að á milli 30 og 40% þeirra mála sem vísað er til Úrskurðarnefnda velferðarmála staðfesta ranga afgreiðslu TR. Í niðurstöðum Ríkisendurskoðunar er líka tekið fram að fjöldi einstaklinga leitar til Öryrkjabandalagsins, og því jafnvel veitt umboð til að vinna í að fá niðurstöður TR endurskoðaðar.
„Dæmi eru um 10 Tryggingastofnun ríkisins að slík endurskoðun leiði til mikilla breytinga á réttindum fólks eða andstæðrar niðurstöðu í málinu. Þótt fagna beri leiðréttingum er þetta verulegt áhyggjuefni enda óljóst hversu margir einstaklingar búa við ranga niðurstöðu án þess að gera sér grein fyrir því eða hafa burði til að fylgja málum eftir.“
Þegar þetta er virt með hliðsjón af staðfestingarhlutfalli upp á 30-40%, má álykta af niðurstöðum skýrslunnar, að allt að 40% lífeyrisþega búi við ranglega ákvörðuð réttindi, án þess að gera sér grein fyrir því.