Viðmiðin taka til þeirrar þjónustu sem fatlað fólk fær samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk nr. 88/2011 og lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.
Viðmiðin eru í fyrstu persónu, þar sem útgangspunkturinn er að það er notandinn sem metur þjónustuna sem hann fær.
Þau skiptast í fjóra yfirflokka, sem hver og einn skiptist svo í nokkra undirflokka. Yfirflokkarnir eru:
- Þjónustan sem ég fæ gerir mér kleift að lifa sjálfstæðu lífi.
- Ég tek þátt í að móta þjónustuna sem ég fæ.
- Ég ber traust til þeirra sem veita mér þjónustu.
- Þjónustan sem ég fæ er örugg og áreiðanleg.
Undir hverju gæðaviðmiði eru fjórar samræmdar meginreglur, sem byggja á grundvallarmannréttindum eins og þau birtast í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og lögum, og skulu vera grundvöllur þjónustunnar. Þær eru eftirfarandi:
Samfélagsleg þátttaka:
Ég fæ þjónustu sem kemur í veg fyrir félagslega einangrun og gerir mér kleift að taka þátt í samfélaginu til jafns við aðra samkvæmt óskum mínum.
Heildarsýn og velferð:
Velferð mín er höfð að leiðarljósi við ákvörðun og framkvæmd þjónustu, sem er byggð á heildarsýn og einstaklingsbundnu mati á þörf og í samráði við mig.
Jafnræði og virðing:
Þjónusta við mig er veitt af virðingu og án mismununar. Ég get tekið ákvarðanir í eigin lífi og sjálfræði mitt og réttur til einkalífs eru virt.
Gæði þjónustu:
Ég get treyst því að ég fái þjónustu sem hentar mér þegar ég þarf á henni að halda. Þjónustunni er vel stýrt og við framkvæmd hennar er velferð mín höfð að leiðarljósi.
Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar birtir gæðaviðmiðin en þau voru unnin í náinni samvinnu við helstu hagsmunaaðila í málaflokknum. Að vinnunni komu auk fulltrúa stofnunarinnar Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Landssamtökin Þroskahjálp, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök félagsmálastjóra, velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Öryrkjabandalag Íslands.
Hér er að finna bæklinginn í held sinni.