Skip to main content
Frétt

ÖBÍ leggur til nýja skilgreiningu laga á hjálpartækjum við ráðherra

By 12. maí 2020No Comments
Málefnahópur Öryrkjabandalagsins um heilbrigðismál sendi í dag heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, tillögu að breytingu á skilgreiningu hjálpartækja í íslenskum lögum og reglugerðum.
Í samræmi við þá niðurstöðu sem birtist í skýrslu starfshóps heilbrigðisráðuneytisins um fyrirkomulag hjálpartækja í október 2019 og þá ríku þörf fyrir að íslensk löggjöf samræmist samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks leggur málefnahópur ÖBÍ um heilbrigðismál til eftirfarandi breytingar á skilgreiningu á „hjálpartæki“ í íslenskum lögum og reglugerðum.[1]
 

Lögð er til eftirfarandi skilgreining á hjálpartæki:

Hjálpartæki er tæki, búnaður eða annað sem er, eitt og sér eða með öðru, til þess fallið að aðstoða fatlað fólk til að lifa sjálfstæðu lífi til jafns við aðra að því er varðar nám, atvinnu, þjálfun, meðferð, íþróttir, tómstundir, frístundir, afþreyingu, menningarlíf, heimilis- og fjölskyldulíf eða önnur svið daglegs lífs, svo sem til inntöku lyfja og næringar. Hjálpartæki er meðal annars ætlað að auka eða viðhalda færni, auðvelda umönnun, auka lífsgæði og mannlega reisn eða stuðla að því með öðrum hætti að fatlað fólk geti notið réttinda sinna samkvæmt lögum og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum.

Lagt er til að skilgreining þessi verði samræmd og komi í stað skilgreininga á hjálpartækjum í lögum og reglugerðum, svo sem í 26. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, 2. gr. reglugerðar nr. 1155/2013 um styrki vegna hjálpartækja og 2. gr. reglugerðar nr. 233/2010 um úthlutun á hjálpartækjum á vegum Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Þá er lagt til að gerðar verði breytingar á reglugerð nr. 1155/2013 í samræmi við ofangreinda skilgreiningu þannig að ákvæði reglugerðarinnar fái samræmst ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF).

Þörf fyrir nýja skilgreiningu á hjálpartækjum fyrir fatlað fólk:

Skýrsla heilbrigðisráðherra um framtíðarfyrirkomulag hjálpartækja var birt sl. haust en engin vinna er farin af stað í ráðuneytinu við að framfylgja tillögum starfshópsins.[2] Í niðurstöðu nefndarinnar kemur m.a. fram að þörf sé á að endurskoða reglugerðir er lúta að hjálpartækum og skilgreiningu á hugtakinu hjálpartæki í samræmi við SRFF og samræma lög og reglugerðir.

Í 2. mgr. 26. gr. laga um sjúkratryggingar nr. 112/2008 er að finna núgildandi skilgreiningu á hjálpartæki og jafnframt skilyrði þess að Sjúkratryggingar Íslands taki þátt í kostnaði við öflun hjálpartækis. Eru skilyrðin þau að hjálpartækið:
  • dragi úr fötlun,
  • aðstoði fatlað fólk við að takast á við umhverfi sitt
  • auki eða viðhaldi færni og sjálfsbjargargetu, eða
  • auðveldi umönnun

Auk þess þarf hjálpartækið að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs. 

Samkvæmt núgildandi lögum og reglugerðum eru tækjakaup ekki niðurgreidd ef um er að ræða:

  • Hjálpartæki sem eingöngu eru notuð í frístundum og tæki til líkamsæfinga.
  • Almenn tæki eins og heimilistæki.
  • Aukasett af hjálpartækjum fyrir börn sem búa á tveimur heimilum.
  • Hjálpartæki fyrir þá sem dvelja á sjúkra- og öldrunarstofnunum eða á vistheimilum fyrir börn (þó með undanþágum).
  • Veggföst hjálpartæki í búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk á vegum sveitarfélaga.
  • Hjálpartæki til náms og atvinnu.
  • Tæki til að auðvelda fötluðum foreldrum að sinna börnum sínum.
  • Hjálpartæki til að auðvelda aðstoðarfólki fatlaðs fólks starf sitt.

Hinn 23. september 2016 fullgilti Ísland samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Á grundvelli samningsins er aðildarríkjum m.a. skylt að grípa til jákvæðra aðgerða til að tryggja réttindi fatlaðs fólks. Í b-lið 1. mgr. 4. gr. samningsins er t.d. tekið fram að aðildarríkjum sé skylt að gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki verði breytt eða þau afnumin. Af ákvæðinu má ráða að íslenska ríkinu sé skylt að laga íslenskt regluverk að þeim skyldum sem leiða af SRFF.

Í b-lið 20. gr. SRFF segir enn fremur:

„Aðildarríkin skulu gera skilvirkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðs fólks í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, meðal annars með því að greiða fyrir aðgangi fatlaðs fólks að hjálpartækjum í háum gæðaflokki og annarri persónulegri þjónustu, meðal annars með því að hafa þau tiltæk á viðráðanlegu verði.“

Kjarni SRFF snýr að jafnrétti. Í samningnum er m.a. kveðið á um að fatlað fólk skuli njóta jafns aðgengis og jafnra tækifæra án mismununar og skuli eiga möguleika á fullri og virkri þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar. Þá er ein af meginreglum samningsins að bera skuli virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn, sjálfræði og sjálfstæði fatlaðra einstaklinga, þ.m.t. frelsi þeirra til að taka eigin ákvarðanir, sjá m.a. a-, b- og c-lið 3. gr. SRFF.

Í 30. gr. SRFF er fjallað um réttindi fatlaðs fólks til þátttöku í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi. Í ákvæðinu kemur m.a. fram að aðildarríkin skuli gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að taka til jafns við aðra þátt í tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi með því að tryggja fötluðu fólki tækifæri til þess að skipuleggja, þróa og taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi fyrir fatlað fólk og hvetja til framboðs á viðeigandi tilsögn, þjálfun og fjármagni, í þessu skyni og með sama hætti og gildir um aðra.

Í samningnum er jafnframt fjallað um réttindi fatlaðs fólk til menntunar, sbr. 24. gr. og til vinnu sbr. 27. gr. Hefur hluti þessara réttinda verið tryggður með setningu laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 sem komu í stað laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992. Hins vegar er ljóst að skilgreiningar í öðrum eldri lögum og reglum, svo sem lögum um sjúkratryggingar og reglugerð nr. 1155/2013 hefur enn ekki verið breytt til samræmis við lög nr. 38/2018 og SRFF.

Þá er einnig vert að taka fram að í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem lögfestur var hér á landi 20. febrúar 2013, er tryggður réttur barna til aðgangs að menntun, þjálfun, heilbrigðisþjónustu, endurhæfingu, starfsundirbúningi og tómstundaiðju, þannig að stuðlað sé að sem allra mestri félagslegri aðlögun og þroska þess, þar á meðal í menningarlegum og andlegum efnum, sbr. 23. gr. samningsins.

Ljóst er að skilgreiningar og ákvæði um hjálpartæki í íslenskri löggjöf eru á ýmsan hátt ósamrýmanleg  ofangreindum ákvæðum SRFF. Þá er núgildandi löggjöf og framkvæmd í mörgum atriðum ósamrýmanleg samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018. Felst ósamræmið m.a. í því að ekki er tryggður réttur fólks til að taka þátt í tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi til jafns við aðra, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr, 1155/2013, ekki er tryggður réttur fatlaðs fólks til hjálpartækja vegna atvinnu og ekki er tryggður réttur fullorðins fatlaðs fólks til hjálpartækja vegna náms, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 1155/2013.[3] Enn fremur er of mikil áhersla lögð á nauðsyn hjálpartækis og reglur túlkaðar með of þröngum hætti. Hefur þröng túlkun stjórnvalda á skilgreiningu á hjálpartækjum í 2. mgr. 26. gr. laga um sjúkratryggingar þannig leitt til ákvarðana, um synjun á hjálpartæki, sem vart geta talist samrýmast ákvæðum laga og SRFF.[4] Er því brýnt að gera nauðsynlegar breytingar til samræmis við ákvæði SRFF og annarra laga sem kveða á um réttindi fatlaðs fólks, þannig að tryggt sé að áhersla sé fyrst og fremst lögð á sjálfstæði og lífsgæði fatlaðs fólks og tryggt sé að þeir njóti fullra mannréttinda og geti lifað lífi sínu með mannsæmandi hætti. Þá væri tryggara að umsýsla hjálpartækja vegna náms og atvinnu væri í höndum Sjúkratrygginga Íslands, frekar en hvers sveitarfélags fyrir sig.

Málefnahópur ÖBÍ um heilbrigðismál ályktar að nú sé brýnt að taka næsta skref í átt að breytingu á fyrirkomulagi hjálpartækjamála til samræmis við ákvæði SRFF. Endurskilgreining hjálpartækja og breytingar á löggjöf er mikilvægur liður í þeirri vinnu. Í ljósi þess leggur málefnahópur ÖBÍ um heilbrigðismál til framangreindar breytingar á skilgreiningu hjálpartækja í íslenskum lögum og reglugerðum.

Undir þetta rita fyrir hönd ÖBÍ, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður, og Emil Thoroddsen, formaður málefnahóps um heilbrigðismál.

[1] Tillagan er unnin af málefnahópi ÖBÍ um heilbrigðismál með ráðgjöf Daníels Isebarn Ágústssonar, hrl.

[2] Starfshópur um fyrirkomulag hjálpartækja afhenti heilbrigðisráðherra skýrslu með niðurstöðum og tillögum til úrbóta í málaflokknum þann. 3. október 2019. https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2019/10/03/Skyrsla-starfshops-um-hjalpartaeki-afhent-heilbrigdisradherra/

[3] Samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 1155/2013 greiða Sjúkratryggingar Íslands ekki styrki vegna kaupa á hjálpartækjum til náms og atvinnu. Samkvæmt 25.gr. laga nr. 38/2018 er sveitarfélögum heimilt að veita fötluðu fólki styrk til verkfæra og tækjakaupa eða aðra fyrirgreiðslu vegna heimavinnu eða sjálfstæðrar starfsemi að endurhæfingu lokinni og styrk til greiðslu námskostnaðar sem ekki er greiddur samkvæmt ákvæðum annarra laga. Eru reglurnar um styrkveitingar til kaupa á hjálpartækjum á vegum sveitarfélaga óskýrar og oftast með þak á mögulegri styrkfjárhæð. Þá hafa sveitarfélögin hafa mikið svigrúm við nánari útfærslu kerfisins og þeirra takmarkana sem heimilt er að gera á mannréttindum einstaklinga. Hefur því jafnframt verið slegið föstu af kærunefnd velferðarmála að sveitarfélögunum hafi ekki borið eiginleg skylda til að tryggja fötluðum einstaklingum aðstoð samkvæmt 1. mgr. 27. gr. þágildangi laga um málefni fatlaðs fólks, sbr. úrskurð nefndarinnar nr. 64/2015.  framangreindu verður réttur fatlaðs fólks til styrkja vegna kaupa á hjálpartækjum til náms og atvinnu  að teljast óljós og ótryggður með öllu.

[4] Sjá t.d. úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 16/2006, 14/2009 og 448/2016.